mbl.is: Sextíu ár liðin í dag frá því að Laíka var send út í geim

„Ég bað hana um að fyrirgefa mér og ég grét“

Sextíu ár eru liðin í dag frá því að Sovétmenn sendu tíkina Laíku út í geim, en hún varð fyrsta lífveran til þess að ferðast á sporbaug um jörðu. „Ég bað hana um að fyrirgefa okkur og ég grét jafnvel þegar ég strauk henni í síðasta sinn,“ sagði Adilya Kotovskaya, líffræðingurinn sem þjálfaði Laíku fyrir ferðina, í samtali við AFP-fréttastofuna en vitað var frá upphafi að tíkin myndi ekki lifa hana af.

Laíka náði því að ferðast níu sinnum umhverfis jörðina áður en hún drapst, en Kotovskaya, sem er níræð um þessar mundir, segir að Laíku hafi verið fórnað til þess að tryggja mætti öryggi manna þegar þeir yrðu sendir út í geiminn. Hins vegar hafi engin leið verið fær á þessum tíma til þess að ná tíkinni aftur lifandi til jarðar. Í mörg ár var því haldið fram af yfirvöldum í Moskvu að Laíka hefði lifað allt þar til hún át eitraðan mat, sem ætlað var að afstýra kvalafullum dauðdaga þegar geimfarið brynni upp í andrúmslofti jarðar. Í seinni tíð hefur hins vegar komið í ljós að Laíka lifði aðeins í nokkrar klukkustundir þar sem geimfarið hafði ekki náð að verja hana nægilega gegn hitageislum sólarinnar.

Sovéskir fréttamiðlar héldu hinsvegar áfram að birta daglegar fregnir af líðan Laíku, þar sem allt var sagt í góðu lagi. Geimfar hennar brann síðan upp í andrúmslofti jarðar hinn 14. apríl 1958. Það var ekki fyrr en tveimur árum síðar að það tókst að senda dýr út í geim og ná þeim heilu og höldnu til baka.

Valin úr hópi flækingshunda Laíka var flækingstík, sem fannst úti á götu í Moskvuborg, en talið var að hún væri um þriggja ára gömul. Kotovskaya segir að tíkur hafi verið notaðar í geimferðir, þar sem þær þurfi ekki að lyfta löppunum til þess að pissa, og þurfi því minna pláss en karldýrin. Þá hafi flækingshundar verið notaðir, þar sem þeir voru taldir úrræðagóðir og nægjusamari en hundar sem alist hefðu upp í haldi. Laíka var síðan valin úr hópi fimm eða sex hunda, meðal annars vegna útlitsins.