Börn og hvolpar

Þórhildur Bjartmarz

Það er ábyrgð okkar hundaeigenda að hvolpar kynnist börnum og því er það okkar að kenna börnum að umgangast hunda. Þó að þessi skrif séu um hvolpa og börn má segja að sama gildi um fólk á öllum aldri. Hundaræktarfélag Íslands gaf út fyrir nokkrum árum skemmtilegan bækling sem heitir „Komdu Sámur“ með leiðbeiningum um hvernig börn eiga að umgangast hunda.  Bæklingnum hefur verið dreift í skóla og leikskóla og vonandi kemur hann enn að góðum notum.

Ég hef ekki trú á að hvolpur fæðist með sérstaka ánægju af börnum og finnst skrýtið þegar hvolpar eru auglýstir sem sérlega barngóðir. Hvolpur samlagast  börnum sem hann elst upp með. Hann lærir að elska þau og virða því þau er partur af nýrri fjöldkyldu hans og hann hefur jákvæða upplifun af því sambandi. Það sama gildir um börn sem hvolpurinn hittir oft og treystir.

Hvolpar þurfa að venjast börnum á öllum aldri og það þarf að gerast á fyrstu mánuðunum í lífi hans. Þetta er stór partur af umhverfisþjálfun sem þarf að eiga sér stað fyrir 6 mánaða aldur hvolpsins. Ef hvolpur verður hræddur við börn eða hefur haft neikvæða upplifun af þeim er hætta á að hann eigi erfitt með að umgangast börn síðar. Eigendur hvolpa eiga að kenna börnum að sýna þeim þolinmæði og vináttu. Það þarf að útskýra fyrir börnum að það eru ekki allir hvolpar sem elska börn og það geta verið margar ástæður fyrir því.

10.5,2015 -2 017

Hvolpur sem hefur ekki alist upp með börnum og þekkir ekki hegðunarmynstur þeirra getur orðið hræddur við líkamstjáningu og hljóð sem börnunum fylgja. Hér eru nokkrir atriði sem við hundaeigendur þurfum að kenna börnum:

  • Það á alltaf að biðja um leyfi áður en hvolpi er klappað.
  • Ef barnið fær leyfi á að hjálpa barninu að nálagast hvolpinn og það verður að virða það ef hvolpurinn vill ekki vingast við barnið. Það má reyna aftur síðar í rólegheitum.
  • Best er að strjúka vanga hvolpsins eða eftir baki, ekki klappa á höfuðið og ekki beygja sig yfir hann. Það er ekki líkamstjáning sem hvolpurinn skilur sem vináttumerki.
  • Aldei má stríða hvolpi, ekki taka mat eða bein frá honum og alls ekki æsa hvolpinn upp.
  • Þegar hvolpurinn sefur má helst ekki vekja hann því hvolpar þurfa mikið að sofa. Aldrei má rífa hvolp upp úr bæli sínu.

Á fyrstu mánuðunum er hvolpurinn mótaður í þann hund sem á að standa undir væntingum alla hans ævi. Þetta er mikilvægasta tímabil í lífi hundsins og því áríðandi að standa vel að uppeldinu. Hvolpur er ekki leikfang en getur með réttu uppeldi barns og hvolps orðið góður leikfélagi. thorhildurbjartmarz@gmail.com