Hvað er skrauthundur?

Þórhildur Bjartmarz

„Skrauthundar“ er mjög áhugavert orð sem kemur fyrir í fréttum í dag.

Hver ætli hafi fundið upp þetta athyglisverða orð, bóndinn, lögfræðingur bóndans eða nefndin. Skrítið að úrskurðarnefnd í vátryggingarmálumnefnd noti þetta orð sem er alls ekki þekkt til að skilgreina verðmæti hunds.

Stytting úr greininni: Nefndin leit til búsetu og starfa bóndans og taldi augljóst að tjón hans væri annað og meira en við kaup á hreinræktuðum skrauthundi.

Hingað til hefur mér fundist skemmtilegasta greinagerð á hundum vera frá 16 öld þar sem orðið dekurhundar er notað. En árið 1590 gerði Oddur Einarsson biskup í Skálholti grein fyrir fjórum gerðum af hundum í landinu. Hann skilgreindi þá sem:

  • bæjar/varðhunda
  • fjárhunda
  • dekurhunda
  • veiðihunda

Mér til gamans kem ég til með að nota orðið skrauthundar mikið á næstunni. Það er hundasýning HRFÍ um næstu helgi. Nú spyr ég fólk hvort það ætli að sýna á skrauthundasýningunni í Víðidal um næstu helgi.

Ég vil taka það sérstaklega fram að ég tel góðan smalahund nærri ómetanlegann og finnst krafa bóndans alls ekki óréttlát. En það sem mér finnst skrítið er þetta með hreinræktuðu skrauthundana.

 

Vísir.is:

Tæp hálf milljón í bætur fyrir smalatík í Berufirði

Jóhann Óli Eiðsson:

 Bóndi í Berufirði fékk rúmlega 420 þúsund krónur úr ábyrgðartryggingu bifreiðar sem ekið var á tík í hans eigu. Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum komst að þessari niðurstöðu í fyrra en úrskurðir síðasta árs voru birtir nýlega.

Tryggingafélag bifreiðarinnar og bóndinn deildu um fjárhæð bótanna. Félagið taldi að fjárhæðin ætti aðeins að nema verðinu sem hún var keypt á en bóndinn vildi bæta kostnaði við smalaþjálfun við.

Nefndin leit til búsetu og starfa bóndans og taldi augljóst að tjón hans væri annað og meira en við kaup á hreinræktuðum skrauthundi. Tjónið væri meðal annars falið í því að koma sér upp hundi sem hefði sambærilega getu á við þann sem fórst. Tjónið var metið að minnsta kosti 423 þúsund krónur og þarf félagið að greiða honum þá upphæð.

 

http://www.visir.is/g/2017170629995/taep-half-milljon-i-baetur-fyrir-smalatik-i-berufirdi-

mynd úr myndasafni Hundalífspóstsins