mbl.is Góður hund­ur er á við marga menn

Góður fjár­hund­ur er gulli betri fyr­ir fjár­bónda, hann get­ur hlaupið lang­ar vega­lengd­ir og sótt fé og haldið því sam­an. Slík­ur hund­ur get­ur verið á við marga menn í smala­mennsk­um. Bor­der Collie hund­ar búa yfir ein­stök­um hæfi­leik­um til að vinna með sauðfé.

Landskeppni Smala­hunda­fé­lags Íslands var hald­in um liðna helgi í Bisk­upstung­um, þangað sem bænd­ur allsstaðar af land­inu mættu með Bor­der Collie-hunda sína sem kepptu í færni við að vinna með kind­ur.

Í landskeppni fáum við að sjá marga bestu hunda lands­ins, en keppn­in er hald­in ár­lega og hún flakk­ar á milli lands­hluta. Fólk kem­ur allsstaðar að af land­inu með hunda sína til að taka þátt, hér er fólk sem kem­ur alla leið frá Langa­nesi. Þetta er hugsað fyr­ir bænd­ur sem koma með sína vinnu­hunda og sýna hvað þeir geta og keppa við aðra hunda í færni. Núna tóku fimmtán hund­ar þátt, en það er keppt í þrem­ur flokk­um, ung­hund­um, í B flokki og A flokki. Marg­ir eru að taka þátt í fyrsta sinn og B flokk­ur er hugsaður fyr­ir hunda sem eru reynslum­inni og þá er braut­in styttri og þraut­irn­ar færri held­ur en í A flokkn­um, þar eru hund­ar sem hafa keppt áður og braut­in erfiðari,“ seg­ir Trausti Hjálm­ars­son, bóndi og fjár­hunda­rækt­andi, en keppn­in var hald­in að þessu sinni heima hjá hon­um og konu hans Krist­ínu Si­ríði Magnús­dótt­ur bónda í Aust­ur­hlíð í Bisk­upstung­um.

Rækta hæfi­leika en ekki út­lit

„Það eru tvö rennsli, eitt hvorn dag­inn, og úr­slit­in ráðast af sam­an­lögðum stiga­fjölda eft­ir báða dag­ana. Hundeig­and­inn sér um að stýra hundi sín­um í þrauta­braut­inni, ým­ist með eig­in rödd eða með flautu, eða bæði. Hundeig­and­inn þarf að standa kyrr á palli á ákveðnum stað, þar til hund­ur­inn hef­ur klárað að reka fjár­hóp­inn í gegn­um hliðin þrjú, þá má hann stíga niður og opna rétt­ina til að hund­ur­inn geti komið kind­un­um þangað inn,“ seg­ir Trausti og bæt­ir við að Smala­hunda­fé­lagið sé frá­bær fé­lags­skap­ur. „Fólk sem rækt­ar og á smala­hunda hef­ur heil­mik­il sam­skipti sín á milli. Smala­hunda­fé­lag Íslands held­ur utan um landið og landskeppn­ina, og sam­skipt­in tengj­ast auðvitað rækt­un­inni líka. Svo er alltaf ákveðin póli­tík í hunda­rækt, eins og ann­arri rækt­un, fólk hef­ur mis­jafn­ar áhersl­ur í því hvernig það vill hafa hund­inn sinn,“ seg­ir Trausti, og einn nærstadd­ur, Sverr­ir Möller frá Langa­nesi sem mætti með hund­inn sinn Gutta til keppni, bæt­ir við að fólk hafi sjálf­stæðar skoðanir á rækt­un­inni, þar sé eng­in ein lína. „Flest­ir eru sam­mála um að rækta hæfi­leika en ekki út­litið hjá smalahundum, þeir keppa í því hvað þeir geta en ekki hvernig þeir líta út á sýn­ingarpöll­um. Það er magnað að fylgj­ast með þess­um hundum, þeir eru mis­jafn­ir rétt eins og við mann­fólkið. Ég hef verið í þessu und­an­far­in fimmtán ár, en ég er yf­ir­leitt alltaf með rakka en ekki tík­ur. Ég kaupi góða hvolpa og tem þá sjálf­ur, reyni að næla mér í það sem mér finnst vera það besta sem til er, vel ræktaða hunda. En ég á líka hunda und­an mín­um eig­in hund­um. Það er þónokkuð um að fólk hafi verið að flytja inn hunda til að fá nýtt blóð í rækt­un­ina, þá eru þeir alls­ráðandi fyrstu tvö árin, en svo kem­ur í ljós með fram­rækt­un hvort þeir gefi vel. Með góðri þjálf­un geta flest­ir hund­ar orðið góðir smala­hund­ar, seg­ir Sverr­ir.“

Íslensku ærn­ar erfiðar

Trausti seg­ir að Smala­hunda­fé­lag Íslands vinni eft­ir alþjóðleg­um stöðlum. „Við erum í alþjóðleg­um fé­lags­skap, ISDS, In­ternati­onal Sheep Dog Society, og þau sam­tök út­veguðu okk­ur lög­gilt­an dóm­ara frá Englandi til að dæma í keppn­inni núna, Ant­hony Boggy Warm­ingt­on. Það er frá­bært fyr­ir okk­ur að fá slík­an aðila til lands­ins til að efla þekk­ingu okk­ar, því hann held­ur líka nám­skeið fyr­ir okk­ur.“

Ant­hony seg­ist vera glaður að hafa fengið að koma til Íslands að dæma hund­ana. „Mig hafði lengi langað til að kom­ast til Íslands, og ég sá norður­ljós í gær­kvöldi og hvaðeina og er ákveðinn í að koma aft­ur, “ seg­ir Ant­hony sem fer víða til að dæma smala­hunda­keppn­ir, til dæmis til Kan­ada, Hol­lands og Þýska­lands, auka heima­lands­ins Bret­lands. „Mun­ur­inn á milli þess­ara landa ligg­ur ekki í hund­un­um, held­ur í kind­un­um og hvernig hund­arn­ir þurfa að vinna með þess­ar ólíku kind­ur. Það er meira að segja mik­ill mun­ur á kind­um inn­an Eng­lands, en ég get sagt þér það að ís­lensku kind­urn­ar eru mjög erfiðar fyr­ir hund­ana, þær eru harðar og þrjósk­ar, svo hund­ur­inn þarf að hafa mikið fyr­ir vinn­unni með þær. Auk þess vinna hund­arn­ir hér á Íslandi ekki með kind­ur á hverj­um degi eins og raun­in er með fjár­hunda heima á Englandi,“ seg­ir Ant­hony og bæt­ir við að lang­flest­ir fjár­bænd­ur á Englandi noti hunda við vinnu með fé sitt. „Það er ekki auðvelt að halda fé án þess að hafa góðan hund.“

Ein stór fjöl­skylda

Þegar Ant­hony er spurður að því hvað geri hund að góðum fjár­hundi seg­ir hann að bæði þurfi að koma til meðfædd­ir hæfi­leik­ar og góð þjálf­un. „Hund­ur­inn verður að búa yfir get­unni en eig­and­inn þarf líka að búa yfir hæfi­leik­an­um til að ná þeirri getu fram.“ Besti smala­hundur sem Ant­hony hef­ur séð heit­ir Sweep sem gæti út­lagst Bursti eða Kúst­ur á ís­lensku. „Eig­andi hans er Ricky Hutchinson á Englandi, og það er magnað að sjá hund­inn hans að verki, hann er fljót­ur, hug­rakk­ur, hlýðinn og vilj­ug­ur. Hann get­ur nán­ast gert hvað sem er,“ seg­ir Ant­hony og bæt­ir við að hundeig­andi þurfi að vera gríðarlega þol­in­móður til að ná góðum ár­angri í þjálf­un sinni með fjár­hund.

Ant­hony á sjálf­ur fjóra Bor­der Collie hunda heima á Englandi þar sem hann held­ur 600 fjár og 60 kýr. „Hund­arn­ir mín­ir vinna með mér á hverj­um ein­asta degi, mest með kind­urn­ar, en ein­staka sinn­um líka með kýrn­ar.“

Hann seg­ir sam­fé­lag smala­hunda­eig­enda í Bretlandi vera frá­bært og með til­komu Face­book geti fólk haft sam­band og sam­ráð hvar sem er í heim­in­um. „Sam­fé­lags­miðlarn­ir hafa fært okk­ur nær hvert öðru, við erum eins og ein stór fjöl­skylda.“

Hægt er að horfa á

mynd­band frá keppn­inni um liðna helgi á YouTu­be

, und­ir heit­inu: Landskeppni Smala­hunda­fé­lags Íslands. Gam­an er að sjá hvernig hund­arn­ir vinna með kind­urn­ar.

Svona fer keppn­in fram

Keppt var í þrem­ur flokk­um, ung­hund­um (sem eru þriggja ára og yngri), í B flokki og A flokki.

Hund­ur­inn vinn­ur í ákveðinni braut, fyrst er hann send­ur af stað þónokkra vega­lengd til að sækja kinda­hóp og hann þarf að fara með hópinn í gegn­um þrjú hlið. Að því loknu þurfa hund­arn­ir í A flokki að skipta hópn­um og síðan reka hóp­inn inn í rétt. Þetta þarf að gera inn­an ákveðins tíma.

Kinda­hóp­ur­inn sem hund­ur­inn vinn­ur með er stærri í A flokki, þá eru þær fimm í stað fjög­urra kinda í B flokki og hjá ung­hund­um. Braut­in er líka lengri í A flokkn­um og þar þurfa hund­arn­ir að skipta hópn­um tvisvar, taka tvær ómerkt­ar kind­ur út úr hópn­um og halda valdi á þeim, sam­eina hóp­inn svo aft­ur og reka hann inn í litla rétt, taka hóp­inn síðan aft­ur út úr rétt og þá á hund­ur­inn að taka eina bleik­merkta kind út úr hópn­um.

Hund­ur­inn þarf að klára braut­ina og hann þarf að halda kind­un­um inn­an braut­ar, en hún er sjö metra breið.

Í B flokki þarf hund­ur­inn ekki að skipta hópn­um og ekki taka hóp­inn aft­ur út úr rétt­inni. Hund­arn­ir þurfa að leysa þraut­irn­ar á ákveðnum tíma. Hund­ur­inn legg­ur upp með ákveðinn stiga­fjölda en hann fær mín­us­stig fyr­ir ýmis atriði, t.d ef hann miss­ir kind­ur út fyr­ir braut, glefsar í kind eða ef hon­um tekst ekki að gera eitt­hvað af því sem hon­um ber.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/10/24/godur_hundur_er_a_vid_marga_menn