Þórhildur Bjartmarz:
Það er ekki ásættanlegt að hundaeftirlitið haldi hundi í gæslu í 16 klukkustundir á þess að láta eiganda vita að hann hafi verið handsamaður.
Þegar tæplega sjö mánaða örmerktur hvolpur týndist í Breiðholtinu um klukkan 15 síðastliðinn fimmtudag upphófst mikil leit sem stóð yfir langt fram á kvöld. Meira en 20 manns skiptu liði og leituðu í nágrenninu þar sem hvolpurinn týndist.
Frásögn eigandans:
Við leituðum langt fram á kvöld eða þar til að einn úr hópnum hafði samband við Leirur þar sem sveitarfélögin á Stór-Reykjavíkursvæðinu hafa aðstöðu fyrir hunda sem eru handsamaðir. Jú, hvolpurinn hafði verið færður þangað í geymslu fyrr um daginn af hundaeftirlitinu.
Morgunin eftir um kl. 9.30 hringdi hundaeftirlitsmaður í mig og tilkynnti að hvolpurinn hafi verið færður í geymslu á vegum hundaeftirlitsins í Garðabæ. Þeim hafði borist tilkynning um lausan hund í Kópavogi á tímabilinu milli kl 16-17 deginum áður.
Aðspurður um ástæður þess að mér hafði ekki verið tilkynnt samstundis að hvolpurinn væri kominn í umsjá Heilbrigðiseftirlitsins svaraði hundaeftirlitismaðurinn að hann hefur ekki aðgang að tölvu eftir kl. 16 og gæti því ekki komist að því hver væri skráður eigandi hunds.
En í gagnaskrá hvolpsins kemur fram nafn mitt, heimilsfang, netfang, heimasími og farsími.
Reglugerð um velferð gæludýra
Í reglugerð um velferð gæludýra stendur í 12. grein:
- grein Ávallt skal, eins fljótt og auðið er, leitað eftir örmerki dýrs sem fangað hefur verið. Ef ekki næst í umráðamann eða dýrið er ómerkt skal dýr án tafar flutt í dýraaðstöðu sveitarfélags. (breytt leturgerð ÞB)
Það virðist augljóst hundaeftirlitsmenn sveitarfélaganna starfa ekki eftir þessari reglugerð.
Hér er ekki fjallað um örvæntingu þeirra sem týna hundunum sínum. Né hversu slæmt það hlýtur að vera fyrir hunda, hvað þá hvolpa að lenda svona á þvælingi.
Hvað þarf til svo opinberir aðilar sem sinna hundaeftirliti starfi eftir settum reglum?
Mynd: úr myndasafni Hundalífspóstsins