Dýrara að eiga hund í Reykjavík – 5.300 kr munur á nýskráningu hunda

Viðar Guðjónsson í Mbl 8. apríl 2015

Nýskráning og árgjald hundaleyfa er umtalsvert dýrari í Reykjavík en í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði. Eitt útivistarsvæði er ætlað fyrir hunda í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi en ekkert í Garðabæ. Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis, sem sinnir Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ, kostar nýskráning hunda 13.600 kr. og árgjald 12.600 kr. Kostnaður við handsömun er 26 þúsund krónur.

Á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að gjald fyrir nýskráningu hunda er öllu hærra eða 18.900 krónur og sama upphæð er í árgjald. Handsömun kostar 28.700 kr. Aðspurður fyrir hvað hundaeigendur greiða segir Jón Sigurðsson, dýraeftirlitsmaður hjá Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, að stór hluti gjaldsins felist í tryggingu sem á að dekka það þegar hundar valda öðrum tjóni. Þá fer gjaldið einnig í það að halda úti starfsmanni við það að sinna kvörtunum, skráningum og utanumhaldi. Þá eru óskráðir handsamaðir hundar vistaðir á hundahóteli og fellur til kostnaður vegna þess.

Að sögn Jóns eru skráðir hundar um 2.300 í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði. Í Kópavogi er hundaeigendum leyft að vera með hunda sína á nokkurra hektara svæði á Vatnsendasvæði, Hafnfirðingar geta notast við svæði nærri Krísuvíkurafleggjara en ekkert útivistarsvæði er ætlað fyrir hunda í Garðabæ að sögn Jóns. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki í starfsmann hjá Reykjavíkurborg sem gat útskýrt kostnað vegna hundahalds hjá borginni. vidar@mbl.is