Fréttir af æfingu Björgunarhundasveitar Íslands sem fór fram í marz

Ingimundur Magnússon formaður BHSÍ sendi okkur pistil:

Björgunarhundasveit Íslands hefur haldið námskeið fyrir snjóflóðaleitarhunda á hverjum vetri frá árinu 1983. Að þessu sinni voru samankomnir 19 þáttakendur með hunda sína í búðum Landsvirkjunar í Kröflu til að þjálfa hunda sína og taka próf. Námskeiðið stóð yfir í 5 daga frá laugardegi fram á miðvikudagskvöld. Aðstaðan í Kröflu er frábær. Vinnubúðri þar sem hver hefur sitt eigið herbergi og mötuneiti þar sem borðað er kvölds og morgna og allir geta útbúið sér nesti fyrir daginn.

Æfingar standa yfir allan daginn frá 9 á morgnana til 5 á daginn og flest kvöld er einhver dagskrá t.d. kvöldæfing þar sem fólk æfir sig í leit með ýlum og snjóflóðastöngum og þeir hundar sem eru að komast inná útkallslista fá að æfa leit í myrkri með allri þeirri truflun sem verður þegar aðrir eru að störfum á sama tíma. Töluverð vinna er að útbúa æfingasvæði þannig að hundarnir sem lengra eru komnir læri ekki strax hvar fólk er grafið heldur þurfi að nota nefið til að finna. Grafa þarf margar holur sem allar þurfa að vera það stórar að stór þýskur fjárhundur komist þar fyrir ásamt manneskju og svæðið sem nota á þarf að róta til og ganga um til að reyna að fela þá staði þar sem holurnar eru.

Að þessu sinni hjálpaði veðrið mikið því það skóf og snjóaði til skiftis flesta dagana og þá hverfa öll ummerki eftir gröft jafnóðum . Þar sem við erum úti alla dagana að minsta kosti 8 klst á dag er eins gott að vera vel útbúin því það getur orðið ansi kalt að vera að moka eins og brjálæðingur eina stundina og standa svo og bíða þá næstu eða vera settur í holu fyrir próf og þurfa þá að vera þar 1-2 klst eftir fjölda prófa.

Þá þarf að hugsa vel um hundinn sinn því hans hlutskifti er að bíða í búri í bílunum á milli æfinga og því mikilvægt að vel fari um hann. Það er svo stórkostlegt að sjá hve ákafir hundarnir eru þegar þeir fá að komast út og leita og alveg stórmerkilegt að sjá hve auðvelt þeir eiga með að greina lykt af manni undir snjó í skafrenningi, frosti og hvössum vindi. Nefið á þeim er alveg stórmerkilegt fyrirbæri.

Að þessu sinni vorum við með 6 nýja hunda sem allir stóðu sig mjög vel og halda vonandi allir áfram frekari þjálfun. Þá voru þarna 3 sem tóku B próf og eru þar með komnir á útkallslista sveitarinnar næsta árið og 3 sem tóku A próf og eru þá á útkallslista næstu 2 árin. Þá voru þarna nokkrir sem voru að endurnýja A prófið sitt en það þarf að gera á tveggja ára fresti til 10 ára aldurs og á hverju ári eftir það.

Flestir hundarnir okkar geta stundað þessa vinnu til 11-12 ára aldurs og einn hefur tekið endurmatið sitt 13 ára. Nánast allir hundarnir hjá okkur eru þjálfaðir bæði í víðavangsleit og snjóflóðaleit svo þeir eru í stöðugri þjálfun nánast allt árið. Kröfur til þessara hunda eru miklar og við leggjum mikla áherslu á að þeir geti það sem er krafist af þeim. Nú tekur vorið við og æfingar í víðavangsleitinni hefjast af kappi. Fyrsta sumarnámskeiðið af fjórum er í lok maí og verður við að þessu sinni í Búrfellsvirkjun.