Þórhildur Bjartmarz sæmd gullmerki HRFÍ

Þórhildur Bjartmarz sæmd gullmerki HRFÍ á Degi íslenska fjárhundsins

Á 18. júlí Degi íslenska fjárhundins var haldið málþing í Þjóðminjasafni Íslands. Í upphafi dagskrár bað Brynja Tomer stjórnarmaður í HRFÍ um orðið. Hér er ræða hennar:

Ágætu gestir

Ég er stolt og ánægð að fá að segja nokkur orð fyrir  hönd stjórnar Hundaræktarfélags Íslands. Og áður en lengra er haldið:

Til hamingju með Dag íslenska fjárhundsins, sem við höldum nú hátíðlegan í fyrsta sinn. Þetta er mikill merkisdagur fyrir okkur sem hrífumst af íslenska fjárhundinum, þessari þjóðargersemi sem við höfum sammælst um að virða, vernda og varðveita.

Kærar þakkir, Þórhildur Bjartmarz, fyrir að hafa forgöngu um að gera Dag íslenska fjárhundsins að veruleika. Ég held að við getum öll verið sammála um að það hafi verið mikil gæfa fyrir okkur öll þegar íslenskur fjárhundur bættist við fjölskyldu  Þórhildar, því þá fyrst fór hún á bólakaf í sagnfræði og lagðist í gífurlega viðamikla heimildaöflun um sögu hunda í íslensku samfélagi.  Afrakstrinum hefur hún deilt með okkur í fræðsluerindum sínum um hunda í sögu þjóðar og með greinaskrifum á Hundalífspóstinum. Vonandi verður öllu þessu efni safnað saman í bók eða heimildamynd áður en langt um líður.

Þórhildur sá til þess að Víkingasveit DÍF yrði stofnuð árið 2014 og auk þess  að halda æfingapróf fyrir íslenska fjárhunda, var hugmynd Þórhildar sú að efla vinnu með íslenskum fjárhundum, sýna fjölhæfni þeirra og styrkja samstöðu meðal eigenda íslenskra fjárhunda.

Þórhildur hóf kennslu og þjálfun hjá Hundaræktarfélagi Íslands  fyrir MJÖÖÖÖG löngu síðan, eða árið 1982.

Æ síðan hefur saga Þórhildar verið samofin sögu  HRFÍ með beinum eða óbeinum hætti. Við erum orðin æði mörg sem höfum notið góðs af reynslu hennar og kennslu.

Sjálf kynntist ég Þórhildi fyrst árið 1990. Þá var hún hundaþjálfari, eins og  í dag  og rak óskaplega merkilega stofnun í félagi við yndislega konu, Emilíu Sigursteinsdóttur, eða Millu, sem ég veit að er með okkur í anda í dag. Þetta var Hundaskólinn á Bala.

Þar voru ekki bara námskeið af ýmsu tagi fyrir okkur hundaigendur, heldur var Bali einskonar Cult. Þarna hittust hundaeigendur, ræddu og rifust af hjartans list um allt mögulegt sem tengdist hundahaldi, jafnvel langt fram á kvöld, því Bali var opinn meðan menn vildu vera þar.

 

Þórhildi hefur einhvern veginn alltaf tekist að setja persónulegan og skemmtilegan svip á allt sem hún kemur nálægt eða „footprint“ svo maður sáldri nú smá glimmeri í kringum sig og slái um sig á útlensku – svona í tilefni dagsins.

Hún tók að sér formennsku í Hundaræktarfélagi Íslands í 8 ár, frá 1997 til 2005 og vann á þeim tíma sem fyrr af einlægni, heiðarleika og einurð í þágu okkar félagsmanna og annarra hundaeigenda á Íslandi.

Þórhildur hefur alla tíð verið boðin og búin að aðstoða hundaeigendur á allan mögulegan og ómögulegan hátt á „venjulegum“ og  „óvenjulegum“ vinnutímum, enda eru mörg ár síðan Viggó, maðurinn hennar hætti að svara heimasímanum. Síminn er hvort sem er alltaf til Þórhildar.

Hún hefur í gegnum tíðina skipulagt ótal mörg námskeið, fyrirlestra og æfingabúðir, auk þess að flytja til landsins frábæra leiðbeinendur, standa fyrir æfingum af ýmsu tagi og kynna fyrir okkur fjölbreyttar leiðir til þess að njóta lífsins með hundunum okkar.

Hún hefur árum saman skipulagt og dæmt vinnupróf fyrir hunda og lagt sitt af mörkum til að vekja ræktendur og eigendur vinnuhunda til vitundar um mikilvægi þess að varðveita eiginleika hundanna í samræmi við ræktunarmarkmið tegundanna.

Og þá er komið að því.

Þórhildur: Það er mér sönn ánægja að segja frá því að stjórn Hundaræktarfélgs Íslands hefur ákveðið að veita þér gullmerki félagsins. Sigurður Steinþórsson gullsmiður gerði merkið, sem að sjálfsögðu er úr skínandi gulli og situr á borða í íslensku fánalitunum. Ég tel nokkuð víst að fyrirmyndin sé Vaskur frá Þorvaldsstöðum, sem Mark Watson flutti með sér til Kaliforníu og síðar til Englands. Vaskur vann sér það meðal annars til frægðar að verða besti hundur tegundar á Crufts árið 1960, þá sjö ára gamall.

Frá stofnun HRFÍ, 1969, hafa aðeins níu manns fengið gullmerki félagsins, en því fylgir nafnbótin Heiðursfélagi Hundaræktarfélags Íslands. Heiðursfélagar eru þó einum fleiri, því Mark Watson var tilnefndur heiðursstofnfélagi á stofnfundi félagsins 1969 og árið 1978 ákvað stjórn Hundaræktarfélags Íslands að sæma hann gullmerki félagsins. Hugmyndin var sú að hann fengi merkið á sýningu félagsins þá um haustið. Hann var hinsvegar orðinn svo lasburða að hann treysti sér ekki til að ferðast til Íslands og hálfu ári síðar lést hann. Gullmerkið fékk hann því aldrei. Þetta er því í 10. sinn, í 47 ára sögu HRFÍ, sem gullmerki félagsins er afhent.

Mig langar, Þórhildur,  að biðja þig um að þiggja gullmerki Hundaræktarfélags  Íslands,  varðveita það og bera við hátíðleg tækifæri. Merkinu fylgir skjal, sem Ágúst Ágústsson skrautritaði og á því stendur:

Þórhildur Bjartmarz fær gullmerki Hundaræktarfélags Íslands 18. júlí 2016, á Degi íslenska fjárhundsins í viðurkenningarskyni og sem þakklætisvott fyrir sjálfboðin og óeigingjörn störf í þágu félagsins og fyrir framgöngu í málefnum íslenskra hundaeigenda.

Ekki síst fyrir ómetanlega heimildaöflun og skrásetningu  hunda í sögu þjóðar og fyrir að hafa unnið markvisst að helsta markmiði HRFÍ; að gæta hagsmuna allra hunda og hundaeigenda á Íslandi.

Þórhildur, við þökkum þér af einlægni fyrir framlag þitt og vonumst til að mega áfram njóta krafta þinna og afraksturs vinnu þinnar í þágu hunda á Íslandi, eigenda þeirra og áhugafólks um hundahald á Íslandi.

Með kærri kveðju,

félagar þínir í HRFÍ

 

13711543_10154332183881565_281331872_o (1)  Brynja Tomer

13681764_10154332181546565_7037307_o  Pétur Alan Guðmundsson afhenti gullmerki HRFÍ

13720530_10154332182436565_1587736421_o  Fallegt skrautritað umslag

13728496_10154332182526565_1221187133_o  13720394_10154332183486565_1932265393_o        Þórhildur, Guðrún R. Guðjohnsen báðar fyrrverandi formenn HRFÍ  ásamt Herdísi Hallmarsdóttur núverandi formanni HRFÍ

 

13730688_10154332183741565_827381087_o Brynja Þórhildur og Pétur Alan

myndirnar tók Ágúst Ágústsson