Fanney Harðardóttir á Akureyri stóð fyrir námskeiði með norska hundaþjálfaranum Hilde Ulvatne Marthinsen helgina laugardaginn 13. og sunnudaginn 14. ágúst. Á föstudagskvöldinu hélt Hilde fyrirlestur um hvernig hún skipuleggur þjálfun til að ná fram markmiðum sínum. Þá talaði hún líka um þjálfun og reglur í rallý.
Námskeiðið sjálft var haldið við Berjaklöpp í nágrenni Akureyrar. Á laugardeginum mættu 8 þátttakendur með hunda og 4 áhorfendur. Eftir fyrirlestur Hilde á föstudagskvöldinu voru allir sammála um að eyða deginum í að æfa rallý. Bæði með því að fara í fulla keppnisbraut í rallý I og svo rallý II. Eftir að því var lokið gafst stuttur tími til að kynnast nokkrum krefjandi æfingum í eftir stigum. Allir þátttakendurnir voru mjög sáttir eftir daginn og voru áhugasamir að æfa þetta sport frekar.
Á sunnudeginum æfðu flestir æfingar í hlýðni II. Æfingar eins og senda hundana í afmarkaðann reit sem flestir kalla að senda hundana í rútu. Margir tóku fjarlægðarstjórnun, standa úr sitja eða standa úr liggja. Hilde útskýrði vel fyrir hverjum og einum hvernig hvernig ætti að byggja upp æfingarnar og hvað það væri sem ætti að leggja sérstaka áherslu á. Allir fengu með sér verkefni til að vinna með næstu mánuði. Eins og alltaf eftir svona námskeið snéru allir heim ákveðnir í að æfa vel og gera sitt besta.
Þetta var í annað sinn sem Hilde er með námskeið hér á landi. Fyrir þremur árum síðan var hún hér með Line Sandstedt en þær voru þá með námskeið á vegum Hundalífs. En vonandi verður ekki langt að bíða þar til Hilde kemur aftur með námskeið.