18. JÚLÍ DAGUR ÍSLENSKA FJÁRHUNDSINS

Dagur íslenska fjárhundsins 18. júlí 2016

Jórunn Sörensen tók saman:

AÐDRAGANDI OG UNDIRBÚNINGUR

Það var afdrifaríkt þegar íslenskur fjárhundur bættist við fjölskyldu Þórhildar Bjartmarz fyrir fimm árum. Hún tók strax eftir því hve þessi nokkurra vikna gamli hnoðri var árvökull og varð forvitin um notkun kynsins og eiginleika fyrr á tímum. Þetta var upphafið að því að Þórhildur lagðist í heimildaöflun um íslenska fjárhundinn og almennt um hunda á Íslandi frá upphafi byggðar. Hún sá fljótt hversu merkileg saga hunda á Íslandi er. Saga sem er fæstum kunn.

Í heimildarvinnu sinni komst Þórhildur einnig að því hve litlu munaði að íslenski fjárhundurinn yrði aldauða og hve mikið og einstakt ævintýri það var þegar Englendingurinn Mark Watson sá hundinn, heillaðist af honum og ákvað að bjarga kyninu frá útrýmingu.

Þórhildur sá hve nauðsynlegt það er að halda þessari sögu vakandi og að góð leið til þess væri að helga einn dag á ári okkar þjóðarhundi – íslenska fjárhundinum, eiginleikum hans og sögu og hvernig tókst að bjarga kyninu. Fæðingardagur Mark Watson væri tilvalinn því án nokkurs vafa á hann stærstan þátt í að við eigum okkar þjóðarhund.

Til þess að undirbúa þetta verkefni, Dag íslenska fjárhundsins, auglýsti Þórhildur á síðu DÍF (Deild íslenska fjárhundsins) á Facebook eftir þátttakendum í undirbúningshóp og boðaði til fundar.

Fyrsti fundur hópsins var haldinn 2. febrúar 2016 í hundaskólanum Hundalífi og þar hittust níu konur: Anna Kristín Gunnarsdóttir, Brynhildur Bjarnadóttir, Guðrún R. Guðjohnsen, Helga Finnsdóttir, Jórunn Sörensen, Linda Laufey Bragadóttir, Magnea Harðardóttir, Sólrún Lilja Ragnarsdóttir og Þórhildur Bjartmarz. Ágúst Ágústsson og Hulda Ingibjörg Rafnarsdóttir tóku þátt í fundinum í gegnum Skype.

Eftir að hafa sett fundinn sagði Þórhildur: „Markmiðið með Degi íslenska fjárhundsins er að vekja athygli á þjóðarhundinum, merkri sögu hans og hvernig tókst að bjarga kyninu frá útrýmingu.“

Þórhildur kom vel undirbúin til leiks og kynnti hugmyndir sínar hvernig hægt er að halda upp á slíkan dag. Hún lagði fyrst og fremst áherslu á að á þessum degi yrði íslenski fjárhundurinn sem mest sýnilegur og að eigendur ættu skemmtilegan dag með hundinum sínum. Ekki þyrfti að hafa stóran viðburð á hverju ári en gaman væri að hafa einhvern stærri viðburð t.d. ráðstefnu á fimm ára fresti.

Síðan sagði Þórhildur: „Í ár ætlum við að blása til hátíðar á Degi íslenska fjárhundsins og halda hann í fyrsta sinn með eftirminnilegum hætti.“ Síðan kynnti hún hugmyndir sínar:

  • Gefa út auglýsingaefni merkt: „Dagur íslenska fjárhundsins“
  • Kveikja áhuga hjá hinum almenna eiganda íslenska fjárhundsins til að taka þátt
  • Undirbúa hátíðardagskrá
  • Vekja athygli allrar þjóðarinnar á Degi íslenska fjárhundsins

Er skemmst frá því að segja að allar þessar hugmyndir urðu að veruleika og Dagur íslenska fjárhundsins var haldinn í fyrsta sinn 18. júlí 2016 með glæsibrag.

Dagur íslenska fjárhundsins

 

 

 

 

 

 

KYNNING

Veggspjald Gerð voru tvö veggspjöld með myndum af íslenskum fjárhundum. Það voru hundaeigendur sjálfir sem borguðu þau með því að greiða fyrir mynd af hundinum sínum. Hulda Ingibjörg Rafnarsdóttir hannaði veggspjöldin og bjó til prentunar. Veggspjöldunum var dreift víða um land.

Póstkort Gerð voru póstkort með mynd eftir Ágúst Ágútsson. Fyrirtækið Dýrheimar styrkti gerð þeirra. Aftan á kortunum var kynning á sögu íslenska fjárhundsins, útliti hans og eiginleikum. Gerð voru kort með bæði íslenskum og enskum texta.

Ræktendur Nokkrum sinnum var sendur tölvupóstur til allra ræktenda íslenska fjárhundsins – sagt frá deginum og þeir hvattir til þess að skipuleggja dagskrá með sínu fólki.

Facebook Opnuð var síða á Facebook: „Dagur íslenska fjárhundsins“ og eigendur íslenskra fjárhunda og aðrir sem áhuga hafa á tegundinni, hvattir til þess að deila hugmyndum sínum um hvað þeir ætluðu að gera í tilefni dagsins.

Fjölmiðlar Fréttatilkynning um tilefni dagsins og dagskrá var send fjölmiðlum um allt land – smáum og stórum af öllum gerðum.

 

Dagur ísl fj. veggspjald júlí 2016 skjámyndDagur ísl fj. veggspjald júlí 2016 skjámynd

 

  1. JÚLÍ – DAGUR ÍSLENSKA FJÁRHUNDSINS – ÞAÐ SEM GERÐIST Á DEGINUM

Dagskrá í Þjóðminjasafni Íslands

Fjölmenni var á málþingi til heiðurs Mark Watson í Þjóðminjasafninu. Á málþinginu voru flutt þrjú afar fróðleg erindi:

  • Íslensku fjárhundarnir og Mark Watson. Þórhildur Bjartmarz fyrrum formaður HRFÍ og í forystu fyrir hópnum sem vann að undirbúningi dagsins.
  • Bjargvætturinn Mark Watson. Samantekt Sigríðar Sigurðardóttur safnstjóra í Glaumbæ í Skagafirði. Anna Dóra Antonsdóttir sagnfræðingur flutti.
  • Landnámshundar og kjölturakkar. „Vitnisburður dýrabeinafornleifafræði um hundahald á Íslandi“. Albína Hulda Pálsdóttir dýrabeinafornleifafræðingur MA.

Fundarstjóri var Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra.

Í upphafi málþingsins kvað Brynja Tomer stjórnarmaður í HRFÍ (Hundaræktarfélag Íslands) sér hljóðs og tilkynnti að á stjórnarfundi hefði verið ákveðið að sæma Þórhildi Bjartmarz gullmerki félagsins. Í ræðu sinni sagði Brynja meðal annars:

„Ég held að við getum öll verið sammála um að það hafi verið mikil gæfa fyrir okkur öll þegar íslenskur fjárhundur bættist við fjölskyldu  Þórhildar, því þá fyrst fór hún á bólakaf í sagnfræði og lagðist í gífurlega viðamikla heimildaöflun um sögu hunda í íslensku samfélagi.“

Því næst nældi Pétur Alan Guðmundsson stjórnarmaður í HRFÍ gullmerkinu í jakka Þórhildur og Brynja las upp af skjalinu sem fylgdi með:

„Þórhildur Bjartmarz fær gullmerki Hundaræktarfélags Íslands 18. júlí 2016, á Degi íslenska fjárhundsins í viðurkenningarskyni og sem þakklætisvott fyrir sjálfboðin og óeigingjörn störf í þágu félagsins og fyrir framgöngu í málefnum íslenskra hundaeigenda. Ekki síst fyrir ómetanlega heimildaöflun og skrásetningu  hunda í sögu þjóðar og fyrir að hafa unnið markvisst að helsta markmiði HRFÍ; að gæta hagsmuna allra hunda og hundaeigenda á Íslandi.“

Ræða Brynju er birt í heild hér á Hundalífspóstinum.

 

 20160727_173734

 

 

ÍSLENSKIR FJÁRHUNDAR SÝNILEGIR

Aðalmarkmiðið með því að halda upp á Dag íslenska fjárhundsins er að hann sé sýnilegur og saga hans og tegundin kynnt. Það var gert á ýmsa vegu víða um land. Hér á eftir koma frásagnir þeirra sem stóðu fyrir hundagöngum og öðrum viðburðum.

 

Frá miðbæ Reykjavíkur

Í miðbæ Reykjavík gekk stór hópur fólks með íslenska fjárhunda í kringum Tjörnina. Hópurinn vakti mikla athygli – ekki síst erlendra ferðamanna og mikið um myndatökur. Eftir að hafa gengið um miðbæinn hélt hluti hópsins upp á Óðinstorg þar sem Dýralæknafélag Íslands var með kynningu á íslenska fjárhundinum.

miðbærinn 1       miðbærinn 5      miðbærinn 2            miðbærinn 4      miðbærinn 3

 

Frá Dýralæknafélagi Íslands

Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir sendi pistil:

Ég hafði samband við formann Dýralæknafélags Íslands (Charlotta Oddsdóttir) og bar undir hana hvort ekki væri tilvalið að DÍ styddi við framtakið „Dagur íslenska fjárhundsins“  þar sem dýralæknar hefðu verið áhrifavaldar að verndun íslenska fjárhundsins. Hún tók því vel. Páll Agnar Pálsson fv. yfirdýralæknir stuðlaði að því að Sigríður Pétursdóttir hóf sína ræktun og Gunnlaugur Skúlason fv. héraðsdýralæknir var fyrsti formaður HRFÍ. Auk þess vildi DÍ heiðra minningu Watson þar sem hann hafði gefið fyrsta dýrapítala landsins.

Markmiðið var að styðja við framtakið og vekja athygli á þætti dýralækna við verndun stofnsins og þakka fyrir gjöf Watsons. Ég þóttist vita að fjölmiðlar myndu veita yfirdýralækni athygli og þannig fengist meiri umfjöllun um „dag íslenska fjárhundsins“. Ég valdi Óðinstorg þar sem ég bý við torgið og þar koma margir við, umhverfið er rólegt. Um það bil 10 hundar voru þegar mest var en frekar fátt fólk stoppaði hjá okkur, en auk mín voru þarna formaður DÍ, einn dýralæknir og einn dýralæknanemi. Við ræddum við fólk, dreifðum póstkortum og bæklingum um íslenska fjárhundinn og bæklingi um dýralækna auk þess sem við vorum með kynningaborða um störf dýralækna.

Fjölmiðlar höfðu samband, ég fór í 10 mín viðtal á sjónvarpsstöðinni Hringbrautinni og svo var bein útsending í fréttatíma Stöðvar2 með viðtali við mig, viðtölin snérust um íslenska fjárhundinn.

 

Dýralæknamiðstöðin í Grafarholti

Dýralæknamiðstöðin í Grafarholti bauð íslenskum fjárhundum fría heilsufarsskoðun í tilefni dagsins.

Dýralæknar Grafavogi

 

Frá Þingvöllum

Þórhildur Bjartmarz sendi pistil:

Við vorum fjórar sem tóku þátt í 18. júlí á Þingvöllum. Við Brynhildur Bjarnadóttir vorum fyrir löngu búnar að ákveða að klæða okkur í íslenska þjóðbúninga og það eitt og sér vakti mikla athygli. Hundarnir fjórir voru skreyttir með slaufum í íslensku fánalitunum sem vakti einnig athygli og spurningar.

Dagurinn var eins og við höfðum séð fyrir okkur sól og einstök blíða. Við fjórar hittumst á Hakinu og gengum niður Almannagjá, á Lögberg, að Öxará og að Þingvallakirkju.  Þessi ganga tók okkur um þrjár klukkustundir. Við vorum sífellt stoppaðar af ferðamönnum og líka af fararstjórum sem vildu fá upplýsingar. Margir íslensku farastjóranna fannst framtakið frábært þ.e.a.s að mæta á Þingvelli og kynna íslenska fjárhundinn. Ekki minnkaði áhuginn þegar gestir heyrðu að við værum að halda hátíðlegan Dag íslenska fjárhundsins í fyrsta sinn. Fólki fannst saga hundsins mjög athyglisverð og við dreifðum póstkortunum með enska textanum sem sérstaklega voru útbúinn til að vekja athygli á þessum degi. Erlendir ferðamenn spurðu allskyns spurninga um hundinn, eiginleika hans, liti og feldgerð en einn hundanna er snögghærður. Margir spurðu líka hvort hundurinn væri til í öðrum löndum svo sem USA og Kanada.

dagur islenska fjárhundsins 007             dagur islenska fjárhundsins 085

 

Frá Grundarfirði

Ditta Tómasdóttir sendi pistil:

Stór hópur eigenda íslenskra fjárhunda voru staddir á Grundarfirði til þess að taka þátt í árlegri göngu Íseyjarhunda. Við byrjuðum á að ganga á Eyrarfjall með hundana skreytta og fána á bakpokunum. Við vorum 22 og með 15 íslenska fjárhunda. Eftir það komum við saman og marseruðum síðan frá tjaldbúðunum (sem var staðsett við félagheimili hestamanna hérna) og tókum góðan hring um bæinn og enduðum gönguna á pallinum á veitingahúsinu Bjargarsteini þar sem menn og hundar fengu sér hressingu. Við öll með fána ásamt hundunum. Þetta var ógleymanlegur dagur.

Grundarfjörður 2             Grundarfjörður

 

Frá Árbæjarsafni

Elma Gates sendi pistil

Við Perla Dögg komun dóttir mín komum á svæðið i blíðskaparveðri með fjóra hunda. Það var tekið afskaplega vel á móti okkur en fyrir voru komin margir íslenskir fjárhundar með eigendum sínum. Alls voru 15 hundar á staðnum. Við nutum þess að ganga um svæðið og sýna hundana. Það var talsvert af fólki og börnunum fannst gaman að fá að klappa hundunum. Ferðamennirnir tóku myndir. Það var mjög gaman að taka þátt í þessum degi.

Í einu húsi safnsins var sýnd myndin „Íslenski fjárhundurinn“ og Guðrún R. Guðjohnsen fyrrverandi formaður HRFÍ fræddi gesti. Myndin vakti mikla athygli.

árbæjarsafn 2016                                      árbæjarsafn (2)

 

Frá Selfossi

Margrét Bára Magnúsdóttir formaður DÍF sendi pistil:

Dagur íslenska fjárhundsins 18 júli var haldinn hátíðlegur á Selfossi í blíðskaparveðri.  26 íslenskir fjárhundar, 1 útlenskur og um 35 manns tóku þátt í göngunni. Við hittumst við fyrir utan Baldvin og Þorvald hestavöruverslun og þar buðu þau heiðurshjón Ragna og Guðmundur upp á kaffi og meðlæti.  Einnig  hafði Sunna Líf bakað bollakökur skreyttar með íslenskum fjárhundum gerðum úr súkkulaði.  Allir hundar sem tóku þátt voru skreyttir með borðum í íslensku fánalitunum. Gengið var um bæinn í um eina klukkustund og komið við í Fjallkonunni og þegið vatn eða kaffi hjá Ísskógarræktun.  Fréttamaður frá Sunnlenska fréttablaðinu kom við og tók myndir af göngunni og sendi ég honum svo nokkrar línur og sagði frá deginum.  Eftir gönguna kom svo hópur fólks í íslenska kjötsúpu í Votmúla sem var góður endir á vel heppnuðum degi. Til gamans má geta að eigandi tegundarinnar okkar sem býr í Belgíu fékk lánaðan hund og gekk með okkur ásamt eigendum annarra tegunda sem vildu halda uppá daginn með okkur og fengu lánaða hunda frá deildarmeðlimum til að fagna með okkur þessum merkisdegi.

Selfoss                         Selfoss 2

 

Frá Grímnesinu

Linda Laufey Bragadóttir skipulagði viðburð fyrir eigendur og hunda Laufeyjarræktunar. Hún sendi pistil:

Hér á Dverghamri í Hestlandi voru u.þ.b. 19 manns í allt og 11 hundar. Við byrjuðum daginn á göngu á Hestfjalli. Útsýnið þaðan og víðáttan átti vel við mannskapinn og hundana. Þaðan héldum við svo heim á Dverghamar þar sem við nærðum okkur örlítið, skröfuðum, hlógum og ný vináttubönd mynduðust. Vel heppnað og yndislegt, enda ekki annað í boði þegar veðurguðirnir eru svona örlátir Allir hlakka til að endurtaka leikinn að ári.

Laufeyjarræktun

 

Frá Ísafirði

Gilla Smoter (Gíslína Kristín S. Gísladóttir) hafði undirbúið dagskrá á Ísafirði en vegna óviðráðanlegra orsaka gat hún ekki verið þar og féll dagskráin niður.

 

Frá Akureyri

Í símtali við Sigurlaugu Hauksdóttur sagði hún að þær hefðu gengið tvær um miðbæ Akureyrar með íslenska fjárhunda og spjallað við gesti og gangandi.

 

DAGUR ÍSLENSKA FJÁRHUNDSINS Í FJÖLMIÐLUM

Mikil og jákvæð umræða fór fram í fjölmiðlum fyrir 18. júlí og á deginum sjálfum og má ætla að sjaldan eða aldrei hafa málefni tengd hundum fengið meiri og betri umfjöllun. Hér eru nokkrar fréttir nefndar:

Á Selfossi tóku fjórar konur ásamt sínum hundum þátt í upphitunargöngu fyrir Dag íslenska fjárhundsins.  Magnús Hlynur Hreiðarsson tók viðtal við ræktendurna Brynhildi Ingu Einarsdóttur, Lindu Laufey Bragadóttur og Margréti Báru Magnúsdóttur.  Auk þeirra ræddi Magnús við Jórunni Sörensen. Gangan og viðtölin voru sýnd í fréttum Stöðvar 2 föstudaginn 1. júlí.

Grein í Bændablaðinu frá Þórhildi Bjartmarz var birt 7. júlí undir fyrirsögninni: Dagur íslenska fjárhundsins.

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 10. júlí  var miðopna blaðsins helguð viðtölum við nokkra eigendur íslenska fjárhundsins m.a. við Helga Björnsson, söngvara og Þórólf Árnason f.v. borgarstjóra Reykjavíkur. Morgunblaðið birti einnig fréttatilkynningu með mynd frá HRFÍ 18. júlí og myndir frá göngu í miðbæ Reykjavíkur daginn eftir með viðtali við Herdísi Hallmarsdóttur, formann HRFÍ.

Í þættinum Besti vinur mannsins miðvikudaginn 13. júlí var sérstakur þáttur um íslenska fjárhundinn.   Daníel Örn Hinriksson ræddi við Þórhildi Bjartmarz og Þorstein Thorsteinsson.

Þá mætti Þórhildur Bjartmarz í þáttinn Sumarmál 18. júlí þar sem hún svaraði spurningum Magnúsar R. Einarssonar og Lísu Pálsdóttur.

Fjallað var um viðburðinn á báðum fréttastöðvum að kvöldi 18. júlí. Á Stöð 2 var viðtal við Sigurborgu Daðadóttur yfirdýralækni í beinni útsendingu frá Óðinstorgi. RÚV tók viðtal við Jórunni Sörensen og birti myndir frá göngunni í miðbænum

Á sjónvarpsstöðin Hringbraut tók Sigmundur Ernir viðtal við Sigurborgu Daðadóttur, yfirdýralækni.

 20160801_222550     20160801_22265020160801_22265620160801_222707

 

20160727_173431     20160727_173548

 

AÐ DEGINUM LOKNUM

Þórhildur Bjartmarz sem átti hugmyndina að Degi íslenska fjárhundsins og stýrði verkefninu á lokaorðin:

Að deginum loknum er mér efst í huga þakklæti til þeirra sem komu að skipulagninu dagins og gerðu hann að veruleika. Undirbúningshópurinn starfaði vel saman og hver og einn hafði ákveðið hlutverk.

Þann 18. júlí drógu margir eigendur íslenska fjárhundsins fána að húni enda sannkallaður hátíðisdagur sem byrjaði með málþingi í Þjóðminjasafninu. Það var vel við hæfi að Guðni Ágússton f.v. landbúnaðarráðherra setti hátíðina en Guðni hefur veitt deild íslenska fjárhundsins stuðning og unnið að verndun hundsins. Guðni setti svip sinn á málþingið og á bestu þakkir skilið.  Sérstakar þakkir færi ég Sigríði Sigurðardóttur, safnstjóra í Glaumbæ og Önnu Dóru Antonsdóttur sem flutti skemmtilegt erindi Sigríðar um Mark Watson og Glaumbæ.  Einnig þakka ég Albínu Huld Pálsdóttur sem fræddi gesti um hundabein í fornleifauppgreftri sem var einnig áhugamál Mark Watson. Með því að tengja sögu íslenska fjárhundsins við sagnfræði og fornleifafræði náum við til breiðari hóps.

Almennur áhugi fólks á Degi íslenska fjárhundsins gladdi mig mjög. Margir lýstu mikilli ánægju með hann strax í vor þegar við byrjuðum að fjalla um þennan dag þá ekkert síður meðal eigenda annarra hundategunda. Þegar ég fór með veggspjöld á dýralæknastofur og í verslarnir í maí mætti mér alls staðar velvild og áhugi.

Margir eigendur íslenskra fjárhunda búsettir erlendis héldu daginn hátíðlegan. Í sumarhefti Icelandic Sheepdog Association of America var sagt frá Degi íslenska fjárhundsins og fólk hvatt til þátttöku. Á Facebook síðuna: „Dagur íslenska fjárhundsins 18. júlí“ streymdu inn kveðjur víðs vegar að úr heiminum allan daginn og næstu daga.

day of 1   is 2    kveðja frá Finnlandi

Þátttaka í viðburðum og umfjöllun fjölmiðla á þessum fyrsta 18. júli fór fram úr björtustu vonum. Ég er sannfærð um að öll þessi jákvæða umfjöllun hefur haft góð áhrif á ímynd fyrir hundahald í þéttbýli.

Dagurinn vakti verðskuldaða athygli á Mark Watson og hvernig honum tókst að bjarga íslenska hundakyninu auk svo margs annars sem hann gerði fyrir okkur Íslendinga – sem aldrei má gleymast. Saga íslenska fjárhundsins er ekki bara sú að hann kom með landnámsmönnum og er okkar eini þjóðarhundur. Íslenski fjárhundurinn á merkilega sögu sem svo auðvelt er að vekja athygli á – ekki bara meðal hundaeigenda heldur allra sem hafa áhuga fyrir sögu þjóðarinnar. Með því að halda 18. júlí hátíðlegan ár hvert er auðvelt að halda sögunni á lofti og koma henni áleiðis til þeirra sem taka við eftir okkar tíma. Af nógu er að taka.

Samantekt mín um Mark Watson undanfarna mánuði hefur verið einstök reynsla. Ég hef hitt og rætt við dásamlegt fólk sem hefur á einhvern hátt komið að málum varðandi Mark Watson. Öllum ber saman um að hann hafi verið hógvær öðlingur og það hafi sannarlega verið kominn tími til að heiðra minningu hans með sérstökum og eftirminnilegum hætti. Ég tel að okkur félögunum í Hundaræktarfélagi Íslands hafi tekist að gera það 18. júlí 2016.

Að lokum birti ég tölvupóst frá einum þeirra sem ég ræddi við:

„Kæra Þórhildur, …þú getur, held ég, ekki trúað því, hve vænt mér þykir um hugarþel þitt í þessu máli. Mark vinur okkar á svo sannarlega skilið  að honum sé þessi sómi sýndur – sjálfan hefði hann aldrei dreymt um þína umhyggju um gott mál.“

 

 

AÐ LOKUM ER HÉR BIRT FRÉTTATILKYNNINGIN SEM SEND VAR ÖLLUM STÆRRI FJÖLMIÐLUM LANDSINS

Þann 18. júlí verða 110 ár liðin frá fæðingu Íslandsvinarins Mark Watson. Til að heiðra minningu hans verður haldið málþing í Þjóðminjasafni Íslands og Dagur íslenska fjárhundsins verður haldinn í fyrsta sinn.

Saga íslenska fjárhundakynsins er sveipuð ævintýraljóma. Á árunum 1937 og 1938 ferðaðist breski aðalsmaðurinn Mark Watson um Ísland. Á ferðlaginu sá hann íslenska fjárhunda og heillaðist af kyninu. Rúmlega áratug síðar þegar Mark Watson kom aftur til landsins og sá hann að íslensku hundarnir voru sjaldséðir.

Íslandsvinurinn Mark Watson gaf fé til að endurreisa byggðarsafnið Glaumbæ í Skagafirði, hann gaf Íslendingum myndir Collingwoods og dýraspítlala svo dæmi sé tekið af öllu því sem hann gerði fyrir land og þjóð. Og það var þessi maður sem ákvað að íslenska hundakyninu yrði að bjarga. Á árunum 1955-1960 lét hann safna saman nokkrum íslenskum hundum í þeim tilgangi að flytja þá úr landi. Meðal annarra sem komu við sögu var Páll A. Pálsson, f.v. yfirdýralæknir og þeir bændur sem létu hundana sína af hendi til hreinræktunar svo kyninu yrði forðað frá útrýmingu.

Ekki fóru þó allir hundar af landi brott sem safnað var saman á Keldum. Tvær tíkur urðu eftir og eignuðust mörg afkvæmi og teljast formæður flestra þeirra hunda sem við þekkjum í dag. Síðar tóku nokkrir aðilar sig saman síðar um að varðveita og hreinrækta íslenska fjárhundinn. Skipulögð ræktun á kyninu hófst um 1965 þegar þau hjónin á Ólafsvöllum á Skeiðum, Sigríður Pétursdóttur og Kjartan Georgsson fengu íslenska hunda til ræktunar að áeggjan Páls A. Pálssonar yfirdýralæknis.

Sigríður var í forystu áhugamanna sem stofnuðu Hundaræktarfélag Íslands árið 1969. Mark Watson sem hvatti til stofnunar félagsins var gerður heiðursstofnfélagi á fundinum sem haldinn var á Hótel Sögu. Gunnlaugur Skúlason dýralæknir var fyrsti formaður félagsins. Á fyrstu árunum var starfsemi félagsins eingöngu tengd málefnum íslenska fjárhundsins.

Deild íslenska fjárhundsins (DÍF) var stofnuð innan HRFÍ árið 1979. Deildin ber ábyrgð á útliti og heilbrigði hundsins ásamt ræktunarmarkmiði tegundarinnar og á að vera í forystu með allt það sem tengist íslenska fjárhundakyninu. Guðrún R. Guðjohnsen var fyrsti formaður deildarinnar og síðar formaður HRFÍ í mörg ár. Guðrún hefur lagt mikið af mörkum við að viðhalda stofninum og fékk meðal annars sérstaka undanþágu frá lögum árið 1988 til að flytja inn íslenska fjárhunda frá Danmörku til ræktunar.

Árið 1996 var Guðrún R. Guðjohnsen aðalhvatamaður að stofnun ISIC sem er alþjóðlegt samstarf um verndun íslenska hundakynsins.

Íslenski fjárhundurinn telst ekki lengur í útrýmingarhættu. En Íslendingar þurfa að vera á varðbergi og standa undir því hlutverki að bera ábyrgð á ræktun kynsins og heilbrigði. Íslenskir fjárhundar eru lifandi táknmynd þeirra hunda sem landnámsmenn fluttu með sér til landsins. Hefði Mark Watson ekki gripið til aðgerða á svo áhrifaríkan hátt sem hann gerði er alls óvíst að við ættum íslenska fjárhundakynið. Hefði þessi breski Íslandsvinur ekki heillast af kyninu á sínum tíma ættum við líklega einungis myndir af íslenska hundinum og segðum sögur af hundinum sem við Íslendingar áttum öldum saman, hundinum sem lifði hér með forfeðrum okkar, en við höfðum ekki vit á að varðveita á tuttugustu öldinni.

Til að heiðra minningu Mark Watson hefur Deild íslenska fjárhundsins ákveðið að halda Dag íslenska fjárhundsins á fæðingardegi hans 18. júlí. Dagurinn verður framvegis notaður til þess að vekja athygli á eina þjóðarhundi okkar Íslendinga tilvist hans og sögu. Þann 18. júlí  ár hvert munu  vinir íslenska fjárhundsins fagna deginum ásamt minnast og heiðra alla þá sem með ótrúlegum dugnaði og árræðni björguðu íslenska fjárhundakyninu frá því að verða aldauða.    Þórhildur Bjartmarz f.v. formaður HRFÍ

 

Kópavogur 8. ágúst 2016 fyrir Hundalífspóstinn

Jórunn Sörensen