Þorsteinn Thorsteinsson svarar spurningum Hundalífspóstsins:
Hvað heitir hundurinn þinn/hundarnir þínir/teg og aldur?
Heimilishundarnir eru 8, 6 íslenskir fjárhundar og 2 saluki.
Kersins Hekla Glóð er elst, verður 13 ára næsta sumar, fd. 26. júní 2003.
Sunnusteins Sunna Rögg er 11 ára, fd. 5. apríl 2005.
Sunnusteins Brella verður 9 ára næsta sumar, fd. 28. júlí 2007.
RW-15 ISCh Sunnusteins Árdís er rúmlega 5 ára gömul, fd. 11. janúar 2011.
Sunnusteins Vissa er 2,5 ára, fd. 13. september 2013.
Sunnusteins Hrina er 2 ára, fd. 27. mars 2014.
Saluki hundarnir mínir eru báðir innfluttir.
NLW-15 RW-15 RW-14 C.I.B. ISCh Chisobee Jared er eini rakkinn á heimilinu, 7,5 ára, fæddur 13. október 2008.
NLW-15 RW-15 C.I.B. ISCh AMCh Silvershadow‘s Desert Gold Elessar „Moon“ sem verður 5 ára í sumar, fd. 9. ágúst 2011.
Af hverju valdir þú þetta kyn?
Ég hef átt íslenskan fjárhund síðan ég var 12 ára gamall og heillast stöðugt meira af kyninu. Íslenski hundurinn er frábær fjölskylduhundur, duglegur og vingjarnlegur, heilbrigður og getur hentað í hin ýmsu störf. Það er í raun fátt sem íslenski hundurinn virðist ekki geta fái hann tækifæri til. Þar að auki er er þetta auðvitað íslenskt kyn sem varð nánast útdauða um miðja síðustu öld, lítill og viðkvæmur stofn sem gaman er að taka þátt í að rækta áfram.
Ég hafði aldrei átt nema íslenska fjárhunda og langaði að kynnast öðru hundakyni. Það var eitthvað sem heillaði mig mikið við saluki, ég keypti mér bækur um kynið og mjóhunda en útilokaði saluki þó lengi vel út af sterku veiðieðlinu. Ég endaði samt alltaf aftur á saluki sem á þessum árum var ekki til á Íslandi. Ég setti mig því í samband við fólk erlendis, heimsótti ræktendur í Noregi, Bandaríkjunum og Bretlandi og fór á sýningar. Ég heillaðist gjörsamlega, það var ekki aftur snúið og nokkrum árum síðar flutti ég rakkann minn inn.
Saluki er eitt elsta hundakyn heimsins, mjög sjálfstæður og sérstakur hundur með sterkt veiðieðli, sumir líkja þeim við ketti og sá samanburður er ekki fjarri lagi. Þetta eru ljúfir og uppátækjasamir heimilishundar og mjög nánir fjölskyldunni sinni. Fátt finnst mér flottara en saluki á hlaupum og ég hef ekki ennþá kynnst skemmtilegra hundasporti en beituhlaupi þar sem saluki nýtur sín í botn.
Tegundirnar mínar tvær gætu eiginlega ekki verið ólíkari en báðar algjörlega réttu tegundirnar fyrir mig, bara á ólíka vegu.
Hersu lengi hefur þú átt hund/hunda?
Ég hef átt hund síðan 1990 en þá kom Flögu-Sunna, fyrsta tíkin mín á heimilið. Ég var þá 12 ára og foreldrar mínir því formlegir eigendur hennar fyrstu árin. Ég held það hafi verið 1997 þegar Sunna og synir hennar 3 sem við áttum þá líka voru skráð yfir á mitt nafn.
Hvernig lýsir þú samskiptum þínum/fjölskyldunnar og hundsins?
Hundarnir mínir eru fjölskyldumeðlimir og fylgja mér í nánast öllu sem ég geri. Ég er garðyrkjubóndi og vinn því heima og get skroppið inn og sinnt hundunum yfir daginn þegar þarf og því þurfa hundarnir mínir ekki að vera lengi einir í einu. Utan vinnutíma eru hundarnir nánast alltaf með mér, ég hjóla með þá, fer í göngutúra og þeir búa að sjálfsögðu inni á heimilinu og fá að koma upp í rúm/sófa. Allur minn frítími fer eiginlega í hundana, í bókstaflegri merkingu þess hugtaks!
Er lífið betra með hundum?
Tvímælalaust, það er lífsstíll að halda hund, hvað þá marga hunda. Þetta er auðvitað mikil vinna og stundum erfið en alltaf óendanlega gefandi og skemmtilegt. Á meðan ég hef möguleika á að sinna hundi vel og gefa honum gott líf þá verður hundur á mínu heimili, það er erfitt að ímynda sér annað. Það er auðvitað mikil ábyrgð og binding til 12-15 ára að taka að sér hund en sé fólk reiðubúið að takast á við það verkefni og allt sem því fylgir í blíðu og stríðu þá skilar það sér margfalt til baka.
Er eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri
Hundamenningin á Íslandi er í sókn en við stöndum aftar flestum nágrannaþjóðum okkar að mörgu leyti. Við mætum ennþá gamaldags viðhorfum til hunda og hundahalds en viðhorfsbreytingar í samfélaginu taka tíma og við hundaeigendur verðum að standa saman, sýna ábyrgð og vinna saman að hagsmunamálum okkar.