Félag hundaþjálfara

Þórhildur Bjartmarz:

Félag hundaþjálfara var stofnað 28. ágúst sl. Í stjórn eru: Drífa Gestsdóttir, formaður og aðalhvatamaður að stofnun félagsins, Ingimundur Magnússon, Ásta Dóra Ingadóttir, Ylfa Ólafsdóttir, Albert Steingrímsson, Guðrún Hafberg og Þórhildur Bjartmarz.

Í dag fór fram kynningafundur. Margir  mættu til að kynna sér félagið eða um 25 manns. Drífa fór yfir stefnumál félagsins og sat fyrir svörum. Almenn ánægja var meðal þeirra gesta sem tóku til máls.

Tilgangur félagsins er að stuðla að velferð hunda og ábyrgu hundahaldi. Að kynna viðurkenndar aðferðir við þjálfun hunda, vinna að hagsmunum félagsmanna og vera málsvari þeirra á opinberum vettvangi.

Þessum markmiðum hyggst félagið ná með því að vinna að eflingu og samstöðu meðal hundaþjálfara m.a. með námskeiðum, fræðslu og kynningarstarfsemi. Að eiga samstarf við önnur samtök er sinna hagsmunamálum hundaeigenda ásamt því að stuðla að fræðslu og hvetja til þatttöku í vinnuprófum og keppni í hundasporti.