Minningarorð: Ágústína Berg Þorsteinsdóttir

Þau kvöddu í lok árs 2017.  Gunnlaugur Skúlason, Jakobína G. Finnbogadóttir og Ágústína Berg störfuðu öll að málefnum hunda. Hundalífspósturinn birtir hér nokkur minningarbrot um Ágústínu Berg Þorsteinsdóttur.

Ágústína Berg Þorsteinsdóttir fæddist 18. apríl 1929. Hún lést 30. desember sl. Gússý, eins og hún var alltaf kölluð, var einn helsti hvatamaðurinn að stofnun baráttufélags hundaeigenda í Hafnarfirði sumarið 1969. En það voru ekki einungis Hafnfirðingar sem fjölmenntu, það þótti með ólíkindum hversu margir mættu á stofnfundinn í Skútunni um mitt sumar.  Þar var húsfyllir og telja má öruggt að Gússý, sem þekkti nánast alla Hafnfirðinga, hafi verið ötul við að kalla hundaeigendur saman til að mótmæla gildandi hundabanni.  Hundaeigendurnir, sem þarna komu saman og stofnuðu Hundavinafélagið, voru búnir að fá nóg af framkomu yfirvalda.  Á þessum tíma var ástandið þannig að hundaeigendur gátu átt von á því að lögreglan tæki hundar þeirra fyrirvaralaust og dræpi.  

Gússý hélt hunda í rúm fimmtíu ár. Það var árið 1959 þegar Milla (Emilía) dóttir hennar kom heim með lítinn hvolp eftir að hafa dvalið í sumarbústað hjá ömmu sinni. Hvolpurinn, sem var íslenskur fjárhundur fæddur á Keldum, fékk nafnið Pollý. Pollý var fyrsti hundurinn af mörgum sem eignuðust heimili Fögrukinn og var eins og allir hundarnir sem þangað komu elskaður og dekraður bæði af Gússý, eiginmanninum Steina og dætrunum þremur, Millu og tvíburasystrunum Heiðdísi og Hafdísi.

 

    

 

Þegar ég kynntist fjölskyldunni var heimilishundurinn íslensk tík sem kölluð var Gala. Gala var sjálfstæð, frek og uppátækjasöm sem Gússý fannst bara skemmtilegt. Eitt af því sem hún lét eftir Gölu var að sitja í framsæti bifreiðar þeirra hjóna sem Steini keyrði jafnan. Gússý fannst það í góðu lagi og sat sjálf í aftursætinu á tveggja dyra bílnum. Gala var hin ánægðasta í framsætinu og brosi sínu breiðasta eins og íslenskum fjárhundum einum er lagið. Þegar elsta dóttirin og hundaþjálfarinn Milla kvartaði undan óþekkt tíkarinnar svaraði Gússý: „Þú ert bara afbrýðissöm því Gala er fegurst ykkar systra“. Gússý hafði mikinn húmor fyrir hundunum sínum og talaði alltaf fallega jafnt um þá sem við þá. Aldrei heyrði ég hana hasta á nokkurn hund.

Gússý tók þátt í rannsóknarverkefni undir stjórn Ingibjargar Hjaltadóttur þar sem hundar voru notaðir til að kanna hvaða áhrif skipulagðar heimsóknir hunda og eigenda þeirra hefðu á líðan heilabilaðra einstaklinga sem dvöldust á öldrunarlækningadeildum á Landakoti. Gússý var auðvitað sjálfskipuð í verkefnið. Gússý og litla tíkin Skoppa voru reynsluboltar á þessu sviði en þær tvær höfðu margsinnis farið í heimsóknir á hjúkrunarheimilið Sólvang þar sem Gússý starfaði í mörg ár. Í fáum orðum gekk þetta verkefni vonum framar. Í augum okkar sem þá vorum í forystu HRFÍ var þetta eins og stór happdrættisvinningur, sýnilegur mælikvarði á þau jákvæðu áhrif sem samvistir við hunda hafa á fólk. Verkefnið leiddi til þess að gerðar voru breytingar á reglugerð um hollustuhætti þannig að hægt var að fá leyfi til að halda dýr á sjúkrastofnunum (Sámur 3. tbl. 2003).

 

     

 

Um hausið 2003 var valinn í fyrsta sinn Afrekshundur ársins hjá HRFÍ. Þar gafst kærkomið tækifæri að heiðra þann hóp sem tók þátt í verkefni Ingibjargar Hjaltadóttur.  Það var mér, sem formanni HRFÍ, mikil ánægja að heiðra þær Gússý, Halldóru Friðriksdóttur, Helgu Andrésdóttur og Kristínu Sveinbjörnsdóttur með afrekshunda ársins. Gússý var mjög stolt yfir því að hafa fengið þessa viðurkenningu frá HRFÍ, hún hafði viðurkenningarskjöldinn sýnilegan heima fyrir og minntist þess oft hversu vænt henni þótti um þessa viðurkenningu.

 

(ljósmynd: Sámur)

 

Þau hjónin Gússý og Steini mættu í mörg ár á allar hundasýningar HRFÍ. Hlý nærvera þeirra hjóna hafði jákvæð áhrif á okkur öll. Vinir dætra þeirra voru einnig þeirra vinir.

Gússý var einstakur dýravinur og hélt hunda í yfir 50 ár þar af í tæp 30 ár í trássi við bann við hundahaldi. Eftir að þau hjónin fluttu úr Fögrukinn á Sólvangsveg reyndi Gússý að halda hund en það gekk því miður ekki upp. Það þótti henni afar sárt.

Það var mér mikið lán að kynnast fjölskyldunni í hundahúsinu við Fögrukinn í Hafnarfirði. Að koma þangað var eins og ganga inn í annan heim. Heim þar sem eingöngu ríkti friður og kærleikur til manna og dýra. Með söknuði kveð ég Gússý, þessa einstöku konu.

 

Gússý og Skoppa mættar á hundasýningu HRFÍ

 

 Þórhildur Bjartmarz