Alþjóðlegur dagur hundsins haldinn hátíðlegur í dag

visir.is

Alþjóðlegur dagur hundsins verður haldinn hátíðlegur í dag og munu hundaeigendur um allan heim koma saman og fagna tilvist ferfætlinganna. Fólk er jafnframt hvatt til þess að birta myndir af hundum sínum á samfélagsmiðlum í dag undir myllumerkinu National Dog Day.
Félag hundaeigenda á Akureyri ætlar að hittast klukkan 17 í dag og gera sér glaðan dag, að sögn Maríu Bjarkar Guðmundsdóttur, formanns félagsins, en félagið á jafnframt fimm ára afmæli í dag.

„Við í félaginu ætlum að hittast niðri í miðbæ, nánar tiltekið á bílaplaninu fyrir neðan samkomuhúsið. Þar ætlum við að ganga saman í gegnum göngugötuna í átt að Ráðhústorginu.  Þar munum við vera með smá skemmtun. Það verða þrautabrautir fyrir hundana, þeir sem vilja geta fengið fría klóaklippingu og svo fá allir hundar nammipoka í afmælisgjöf,“ segir María.

Hún segir að lögð verði áhersla á að sýna fram á hversu mikilvægur hundurinn er mannfólkinu. „Hvort sem það er hundur innan heimilis, eða blindrahundur, snjóflóðahundur eða bara hvað þeir gera mikið gagn. Það er ágætt fyrir okkur sem hundaeigendur að hugsa aðeins til hundsins okkar í dag; hvers virði hann er, hvað hann er að gera fyrir okkur og af hverju við eigum hundinn okkar,“ segir María Björk.

visir.is