Hundahatrið í Reykjavík

Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir:

Í fyrra fór ég í afmælisboð til mágkonu minnar. Þegar ég kom úr boðinu stóð albrjálaður maður við bílinn minn og jós yfir mig óbótaskömmum. Ég hafði lagt bílnum með bláafturendann fyrir heimreiðinni hans (Hummer hefði getað bakkað þaðan út, en það skipti ekki máli). Ég tafsaði eitthvað, en þegar maðurinn var nánast farinn að froðufella ók ég bara skelkuð á brott. Ég sagði mágkonu minni frá þessu daginn eftir en hún lét sér fátt um finnast. Hún sagðist nefnilega vera orðin öllu vön eftir að hún eignaðist hund. Þá fyndi ótrúlegasta fólk sér tilefni til að ausa hana skít og skömmum, jafnvel þótt hún væri aðeins á gönguferð með hundinn í taumi.

Mér varð hugsað til þessa atviks þegar ég var á ferð um Sviss, Ítalíu og Króatíu á dögunum. Þar eru hundar nefnilega hvarvetna velkomnir. Hundar sitja í lestum við hlið eigenda sinna, hundar liggja vinalegir við fætur fólks á veitingahúsum, hundar flatmaga á ströndinni og synda í sjónum með mannfólkinu, hundar eru í biðröðum í bönkum, á lestarstöðum, allsstaðar. Og enginn amast við þeim.

Á Grikklandi eru ótalmörg fjölskyldurekin veitingahús og þar er dásamlegt að sitja og horfa á gæludýr fjölskyldunnar rölta um og hnusa af gestum. A.m.k. gerir það upplifun minnar fjölskyldu af veitingahúsum mun ánægjulegri en hún er í dýrahaturssamfélaginu á Íslandi, þar sem fólk stekkur fram með brúsa af skordýraeitri ef ferfætlingur kemst í námunda við það. Ég fyllist alltaf gleði og trú á mannfólkið þegar það getur leyft dýrum að vera nálægt sér án þess að lög og reglugerðir geri það að fávitum.

Á Íslandi verður mönnum tíðrætt um ofnæmi þegar sett er spurningarmerki við að dýrum sé úthýst af öllum stöðum. Mig blóðlangaði að spyrja lestarvörðinn sem klappaði hundinum í lestinni frá Milano til Basel hvort hann væri ekki dauðhræddur við þennan hugsanlega ofnæmisvald og hvers vegna hundurinn fengi bara sæti eins og ekkert væri. En ég lét það vera vegna þess að mér finnst svo skemmtilegt að vera innanum dýr og svo tala ég ekki ítölsku.

Hvað er þetta eiginlega? Hvers vegna mega hundar hvergi vera á Íslandi? Er dýraofnæmi algengara hér en erlendis, eða er þetta bara gamli, íslenski smáborgaratussuskapurinn.

Greinin birtist á baksíðu ágústheftis Stundarinnar