Málþing FÁH 15. febrúar 2020

Jórunn Sörensen

 

HUNDAHALD NÆSTA ÁRATUGAR – HVERT FÓR MILJARÐURINN? –

 

FÁH (Félag ábyrgra hundaeigenda) boðaði til málþings 15. febrúar 2020. FÁH var stofnað 2012 og þetta er þriðja málþingið sem félagið heldur. Málþingið var fjölmennt. Það sátu bæði hundaeigendur og nokkrir sjórnmálamenn en á annað hundrað sveitastjórnarmanna var boðið að taka þátt og nokkrir þeirra þáðu boðið.

Freyja Kristinsdóttir dýralæknir og formaður félagsins setti málþingið og kynnti efni þess sem yrði rætt í fjórum málstofum. Hér á eftir verða hverju efni málþingsins gerð stutt skil.

Í stuttu hléi var sýnt brot úr myndinni Rjómi þar sem m.a. er sagt stuttlega frá sögu hundahalds í þéttbýli. Hundahald var bannað frá 1924. Breyting var þegar hægt var að fá undanþágu frá banninu og síðan þegar „bannorðinu“ var sleppt og hundahald var leyft með ákveðum skilyrðum. Í raun hafði ekkert breyst því skilyrði voru þau sömu og  voru fyrir því að fá undanþágu frá banninu.

 

SKIPULAGSMÁL

Ekkert tillit er tekið til hundaeigenda og dýranna þeirra þegar borgin er skipulögð. Sem dæmi má nefna að leggja á fyrirhugaða Borgarlínu yfir Geirsnef og þegar spurt var hvaða svæði hundaeigendur fengju í staðinn var bent á Hólmsheiði þar sem hundar eru leyfðir nú þegar.

Hundagerðin í borginni eru bæði illa hönnuð og óaðgengileg. Hundagerði þurfa ekki að vera ljót og falin og voru sýndar myndir af hundagerði í Danmörku er við íbúðablokk og við hlið leikskóla. Lýsandi dæmi fyrir viðhorf yfirvalda borgarinnar til hundaeigenda að byggt var hjólabrettasvæði þar sem áður hafði verið ákveðið að koma upp hundagerði.

 

BÚSETUMÁL ÖRYRKJA OG ALDRAÐRA

Það er þyngra en tárum taki hvernig farið er með aldraða og örykja þegar Brynja, hússjóður Öryrkjabandalagsins þvingar fólk til þess að losa sig við dýrið sitt eða flytja. Rifjuð voru upp dæmi þar sem eigandi dýrs svipti sig lífi þegar hann fékk ekki að eiga hundinn sinn áfram.

Það var brotið blað þegar Félagsbústaðir samþykktu að íbúar mættu halda gæludýr. Engu að síður er það iðulega bannað og áhersla lögð á rétt stjórnar félagsbústaða til þess að grípa inn í.

Bent var á hve „rökin“ um ofnæmi eru mikið notuð gegn hundaeigendum og hve fáránlegt það er að halda því að ofnæmisvakar berist á milli veggja. Sagt var frá dæmi þar sem hundaeigandi í fjölbýli fékk ítrekaðar kvartanir frá ákveðnum aðila um að hann fyndi fyrir miklum ofnæmiseinkennum. Hundaeigandi brá á það ráð að segja að hundurinn hefði fengi nýtt heimili og byggi ekki lengur í húsinu. Þá brá svo við að umræddur „ofnæmissjúklingur“ varð allt annar og betri. Hundurinn fór aldrei burt af sínu heimili.

 

HUNDASAMÞYKKTIR OG HUNDALEYFISGJÖLD

Á 13 árum hafa hundaeigendur greitt yfir miljarð í hundaleyfisgjöld en hvert hafa peningarnir farið? Samþykktir sveitarfélaganna kveða á um að þau eigi að greiða fyrir þann kostnað sem hlýst af hundahaldi – þ.e.a.s. laun hundaeftirlitsmanna. Verkefni þeirra er að sinna kvörtunum vegna hunda og fanga lausa hunda. Einnig var bent á að hundaleyfisgjöldin í Reykjavík greiða einnig fyrir ritara hundaeftirlitsins. Enginn slíkur er samt á skrá yfir starfsmenn Reykjavíkurborgar. Ekki nóg með það – hundaleyfisgjöldin greiða 30% af launum framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitsins.

Þrátt fyrir síhækkandi gjöld hefur kvörtunum vegna hunda fækkað umtalsvert og enn meira hefur þeim lausu hundum fækkað sem hundaeftirlitsmenn hafa þurft að hafa afskipti af. Kvörtunum vegna hunda hefur fækkað vegna þess að viðhorf þeirra sem ekki eiga hund er orðið mun jákvæðara. Það eru síður á Facebook sem sjá til þess að hundur finnst – oft skömmu eftir að hann týnist.

Það er einnig svo að hundar týnast síst á skrifstofutíma þegar hundaeftirlitið er opið og hundaeftirlitsmennirnar sitja við skrifborðin sín, heldur á kvöldin og um helgar. Þá ansar enginn hjá hundaeftirlitinu.

Það var álit flestra að hundaleyfisgjöldin ætti engan rétt á sér. Bent var á að leyfisgjöldunum fylgir ábyrgðartrygging fyrir hundinn en hundaeigendum er ekki sagt frá því og þá ekki fyrir hvaða tjóni sem hundurinn veldur, tryggingin nær yfir. Fram kom að tryggingin nær ekki yfir tjón sem hundur veldur þegar hann er í eða við hundagerði.

Það er mjög alvarlegt að hundaeftirlitið brýtur lög um dýravernd og reglugerð um velferð dýra með því að loka hunda inni áður en örmerki er lesið og haft samband við eiganda. Síðan er hringt – eða ekki – í eiganda og hann verður að greiða sektina á skrifstofu hundaeftirlitsins áður en hann getur sótt hundinn sinn. Og ef það næst ekki fyrir lokun skrifstofunnar er hundurinn látinn bíða yfir nótt eða helgi. Í reglugerðinni kemur skýrt fram að ef laus hundur finnst skal fyrst ná í eiganda hans.

Nú má eigandi hunds taka hann með sér í strætó. Þetta er engu að síður háð miklum takmörkunum því hundar eru aðeins leyfðir á ákveðnum tímum og ákveðnum leiðum. Þetta gerir það að verkum að notkun almenningsvagnsins er ekki í boði fyrir marga hundaeigendur. Dæmi var tekið að hundaeiganda sem fór með hundinn sinn í strætó rétt eftir hádegi. Vagninn var troðfullur – en það eru einmitt rökin fyrir því að hundaeigandi með hund má hvorki nota strætó snemma á morgnanna né síðdegis. Í þessu tilfelli tróðu þeir sér inn, hundur og eigandi og komust á áfangastað. En þegar þeir félagar höfðu lokið sínum erindum var klukkan orðin svo margt að nú var bannað fyrir þá að nota strætó til þess að komast heim til sín.

Fram kom sú róttæka tillaga að hundaeigendur um allt landi taki sig saman og hætti að borga hundaleyfisgjaldið.

Það kom einnig fram að það er algjörlega úr takti við nútíma vísindi að ormahreinsa hunda árlega. Í Danmörku t.d. er bannað að ormahreinsa hund nema að hann sé með orma. Síendurtekin ormahreinsum gerir ekkert annað en að skapa ónæmi orma fyrir lyfinu.

Mikil óánægja er með hinar neikvæðu merkingar er varða hunda. Til er mikið af jákvæðum merkingum og er það til marks um viðhorf yfirvalda til hundaeigenda og hunda þeirra hve merkingarnar sem eru valdar eru neikvæðar.

Fram kom að sennilega eru ekki nema u.þ.b 30% hunda í borginni skráðir.

 

LÖGGJÖF UM MÁLEFNI HUNDA

Í reglugerð um velferð gæludýra segir að örmerkja skuli öll gæludýr. Þannig eru þau skráð í Dýraauðkenni og sú skrá gerir skráningu sveitarfélaga óþarfa. Það er allt of mikið flækjustig tengt hundahaldi og brýn nauðsyn á einföldun á lögum og reglugerðum.

Í dag heyra lög og reglugerðir um hunda og hundahald undir þrjú ráðuneyti, Umhverfisráðuneyti, Auðlinda- og nýsköpunarráðuneyti og Félagsmálaráðuneyti og jafnframt eru 72 sveitarfélög með mismunandi samþykktir. Það er mjög brýnt að einfalda allt regluverk og að færri aðilar komi að þeim málum. Eftirfarandi dæmi voru nefnd.

Of mörg málefni detta á milli kerfa sem engar reglur eru til um. Enginn vill taka ábyrgð né bera kostnað og hver vísar á annan hvað þau mál varða. Sjálfboðaliðar hafa gripið inn í eins og t.d. Dýrahjálp sem sitja svo jafnvel uppi með kostnað sem ætti í raun að greiða af sveitarfélögum eða Matvælastofnun.

Velt var upp spurningunni: Ef hundur bítur hund, hver ber þá ábyrgð? Hver á að sitja uppi með dýralæknakostnað?

Stenst það stjórnarskrá að 72 sveitarfélög geti haft mismunandi reglur. Er það eðlilegt að það gildi aðrar reglur um einn en aðrar um þann sem býr í götunni við hliðina á honum?

Mikilvægt að endurskoða heildarlöggjöf með öllum hagsmunaaðilum sem eru m.a. Alþingi, Umhverfisráðuneyti, Félagsmálaráðuneyti, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Umhverfisstofnun, Matvælastofnun, FÁH, HRFÍ, Dýrahjálp, Dýraauðkenni, sveitarfélög, heilbrigðiseftirlit, Strætó BS, Lögreglan, sýslumenn,  dýralæknar, einangrunarstöðvar, hundahótel, hundaþjálfarar, hundasamfélagið á samfélagsmiðlum, tryggingafélög og áhaldahús.

Í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir er sveitarfélögum heimilt að takmarka eða banna hundahald með hundasamþykkt. Í Reykjavík er hundahald heimilað og því enginn lagagrundvöllur fyrir hundasamþykktinni þar. Mikilvægt að fá skorið úr um lögmæti hundasamþykktarinnar með því að senda erindi á Umboðsmann Alþingis.

 

Að lokum þakkaði Freyja Kristinsdóttir þátttakendum fyrir góða mætingu og mikilvægar umræður og sleit málþinginu.

 

Hér fyrir neðan er slóð á reglugerð um velferð gæludýra sem allir gæludýraeigendur – og ekki síst hundaeigendur – þurfa að kunna skil á.

https://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/atvinnuvega–og-nyskopunarraduneyti/nr/19979