Undanþágu fyrir Eldar hafnað í þriðja sinn

 Gunnur Sif Sigurgeirsdóttir:

 

Núna í janúar 2015 spjallaði ég við norskan kunningja minn en sameiginlegt áhugamál okkar eru hundar og ræktum við bæði whippet hunda . Hann ræktaði hund sem ég sóttist eftir sem hvolpur en hann ákvað að eiga hann sjálfur, enda afburða falleg dýr. Samtalið endaði eins og alltaf á því að þegar hann yrði nú leiður á hundinum þá ætti hann bara að senda hann til mín.

Nokkrum dögum seinna hefur hann samband við mig og upplýsir að hann hafi mánuði áður greinst með alvarlegan sjúkdóm sem hefði náð að mynda meinvörp og þyrfti því að undirgangast mjög erfiða lyfjameðferð á næstu mánuðum í von um að hægt væri að minnka meinið og hann gæti þá farið í stóra aðgerð.  Hann myndi því vera mjög veikur þetta árið og gæti ekki sinnt öllum hundunum sínum og þar sem okkar hundahald væri svipað væri kannski ekki vitlaust að hundurinn færi í orlof til Íslands meðan hann væri sem veikastur og reyndi að ná heilsu aftur. Tókum smá tíma í að melta þetta enda þyrfti hann að vera alveg sáttur við þessa ákvörðun sína og ég þurfti að vera fullviss að ég gæti tekið við hundinum.

Ákveðið var að hundurinn „Eldar“ færi inn í apríl holl einangrunarstöðvarinnar í Höfnum.  Hundurinn fer í sínar rannsóknir tímanlega, ég panta flug út og heim og að lokum fer Eldar í síðustu dýralæknisheimsóknina heilsufarsvottorð fyllt út og stimpluð allt klárt nema sama dag fæ ég tölvupóst frá Mast þar sem sagt er frá verðandi verkfalli dýralækna 20 apríl og ef að því yrði mætti ég ekki koma með hundinn inn til landsins. Pappírar eru samt sendir og samþykktir hér og við bíðum og vonum það besta. Ég sendi inn undanþágubeiðni vegna veikinda eigandans en fékk neitun og engir hundar voru teknir inn í þessu holli.

Fannst tap á flugmiða og öðru vera lítilvægt það sem mér þótti verst var að við að seinka komu Eldars um mánuð næði eigandinn að verða enn veikari og eiga erfiðara með að sinna hundinum.

Við peppuðum samt hvort annað upp og stefndum á maí hollið og Eldar fer enn og aftur í allar rannsóknir, en ég geymi það að panta flug ákveð frekar að kaupa rétt áður þó ég myndi missa af ódýrustu fargjöldunum.  En þegar nær dregur komudegi virðist ekkert vera að leysast í deilunni, ég ákveð því að senda inn aðra undanþágubeiðni enda erfið staða hjá eiganda og erfitt að horfa upp á hann þurfa að hafa auka áhyggjur og vera í þessari óvissu.  Til að allt sé rétt skrifar eigandi yfirlýsingu um ástand sitt og ástæðu þessa að hundurinn sé að koma til Íslands auk þess sem fylgir með læknisvottorð.  Við fáum neitun án rökstuðnings og ég í örvæntingu skrifa sjálf yfirlýsingu og sendi inn enn eina undanþáguna en er hafnað i 3ja sinn.

Enn og aftur erum við búin að missa af innkomu og hundurinn er óvenju vel rannsakaður en þurfum nú að fara að huga að því hvort við eigum að senda hundinn enn eina ferðina í allar rannsóknir og vona það besta. Erfitt er að í stað þess að vera að veita hjálparhönd þá líður manni eins og maður sé að bæta við erfiðleika hjá góðum manni.

Nú stendur einangrunarstöðin aftur tóm búin að missa af 2 innkomum og þar af einnig tekjum. Við sem stöndum í innfluttningi á hundum og þurfum að fara eftir lögum um einangrun dýra höfum þó getað verið þakklát fyrir að hafa einangrunarstöð með færu og góðu fólki sem sinnir dýrunum af alúð og það er ómetanlega dýrmætt að geta sótt hundana sína hreina, glaða og óstressaða eftir 4 vikur í einangrun það væri hrikalegt ef sú stöð færi á hausinn.

Einnig bíða nú fleiri hundar en pláss er fyrir í einangrun og hefur maður heyrt fólk ræða hver á rétt á plássi?  Hvernig mun vera komið til móts við hundaeigendur sem þurfa að koma dýrunum sínum til landsins þegar verkfalli lýkur, ætli eitthvað sé hægt að hliðra til ég veit allavega um einn hund í Noregi sem er vel rannsakaður síðan í mars og þarf nauðsynlega að fara að komast til Íslands.