Hjálparhundurinn Zuzu

Jórunn Sörensen:

Líf briard hvolpsins Zuzu, sem fæddist á Sauðárkróki, er nokkuð ólíkt lífi hvolpa almennt því nú þegar er byrjað að þjálfa hana úti í Bandaríkjunum sem hjálparhund fyrir einhverfan dreng. Zuzu er ein átta systkina fædd í október 2016.

Forsaga málsins er sú að Valdís Rúnarsdóttir, ræktandi Zuzu, auglýsti væntanlegt got sitt á erlendri briard síðu og fékk afar góð viðbrögð. Einn af þeim sem hafði samband við Valdísi var maður að nafni Mark C. Mathis en hann hefur þjálfað briard hunda sem hjálparhunda fyrir börn með einhverfu í yfir 20 ár. „Þetta var frábært tækifæri og ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um – ekki síst þar sem ég á dóttur með einhverfu og hundarnir mínir hafa verið henni mikil hjálp og félagsskapur,“ sagði Valdís í samtali við Hundalífspóstinn.

Til Bandaríkjanna flaug Valdís með þrjá hvolpa í febrúar sl. – tíkina Zuzu og tvo rakka en annar hafði fengið heimili í New Jersey og hinn í North Carolina.

Tíkin Zuzu fór til Marks og byrjaði í þjálfun aðeins tveimur dögum síðar. Hún lofaði mjög góðu frá fyrsta degi. Mark hrósaði tíkinni fyrir hvað hún væri fljót að læra og dásamaði skapgerð hennar.

Zuzu er þjálfuð sem hjálparhundur fyrir Beckett, sex ára dreng með einhverfu. Áætlað var að Zuzu yrði tilbúin til þess að fara á sitt framtíðarheimili í nóvember/desember nk. en þjálfun hennar gengur svo vel að hún fór til fjölskyldu sinnar í júní sl. og heldur þjálfun hennar áfram þar.

Zuzu fer allt með Beckett og byrjaði hún t.d. með honum í skólanum fyrir stuttu. ,,Ég er í góðu sambandi við fjölskylduna og það er mér ómetanlegt að fá tækifæri til þess að fylgjast með þeim Zuzu og Beckett og hvernig þau vaxa og þroskast saman“.

 

 

FB_IMG_1502646188142

 

FB_IMG_1502457067136

 

 

FB_IMG_1502457088516

 

Myndband sem sýnir hvernig hundar eru þjálfaðir til að passa að börn fari ekki frá. Því börn með einhverfu passa sig oft ekki á umhverfinu