Scully og ég

Sigga Vala

Það var haustið 1998 að við keyrðum niður til Virginiu á bóndabæ til að hitta fyrstu ástina í lífi mínu.  Ég var 11 ára og hafði enga hugmynd um að hjarta mitt og allt mitt líf myndi breytast fyrir fullt og allt.

Ég hafði krafist þess að fá tík og hana fékk ég því það var bara ein tík eftir í gotinu. Hún var hvítasti hvolpurinn og við fengum að fara með með hana beint heim.  Ég sat aftur í bílnum og horfði á hana steinsofandi á bílgólfinu. Ég fann fyrir viðkvæmni í hjartanu af að elska hana. Ég var allt í einu farin að bera ábyrgð á einhverjum öðrum en sjálfri mér og ég var samstundis tilbúin að gæta hennar og verja. Það sem ég vissi ekki var að þegar fram liðu stundir myndi hún taka ábyrgð á mér og verja mig líka.

image006

Fyrst var hún kölluð Bianca en ég mótmælti nafninu því hún var svona stelpustrákur og gat ekki borið stelpulegt nafn. Við komum okkur saman um að kalla hana Scully, eftir persónu í uppáhaldssjónvarpsseríunni okkar, X-Files. Hún var alhvít nema hægra eyrað sem var lifrarbrúnt eins og hárið á sjónvarpspersónunni.

Eins og aðrir enskir setar lifði hún fyrir að hlaupa og kúra og kela. Eitt sinn þegar ég gekk með hana í taum, sennilega hefur hún þá verið um 4 mánaða gömul, byrjaði hún að hlaupa í kringum mig hring eftir hring og hélt áfram endalaust að því er mér, 11 ára gamalli, fannst. Ég varð mjög pirruð en á sama tíma fannst mér gaman og ég var kolfallin fyrir henni. Hún meig og skeit um allt hús, tuggði leðurskóna hans pabba, hrundi niður stigann, elti íkornana og velti sér í hrossaskít!  Hún var ákveðin og viljasterk – sérstaklega fyrstu ár ævinnar. En hún var besti vinur minn.

Heyrnarlaust barn eins og ég var einmana og fannst heimurinn oft óréttlátur. Það var Scully sem gerði líf mitt bærilegra.  Eins og öll börn upplifði ég tilfinningar. Það var erfitt fyrir aðra að skilja mig, sérstaklega þá sem ekki kunnu málið mitt sem var amerískt táknmál. Það gat verið mjög þrúgandi vegna þess að mér fannst ég vera útilokuð frá öllum öðrum. En þá var Scully alltaf þarna fyrir mig. Hún tók vel á móti faðmlögum mínum og sleikti tárin mín. Hún var sú sem róaði mig og huggaði.

Við kvöldverðarborðið talaði fjölskylda mín á raddmáli, gerði grín og hló og þau mundu ekki eftir því að ég skildi þau ekki. Að vera þannig í myrkrinu var aldrei góð tilfinning en í hvert sinn sem ég leit frá borðinu á Scully, brá birtu í augun hennar og hún dillaði rófunni. Stöðug vinátta hennar minnti mig á að ég var til og að ég var aldrei ein.

Við Scully mynduðum djúp tilfinningatengsl. Hún hafði ótrúlegan hæfileika til að skilja langanir mínar og tilfinningalegar þarfir. Hún vissi að ég var heyrnarlaus og dæmdi mig aldrei. Hún var alltaf glöð og sjálfsörugg og það var mér góð fyrirmynd. Hún breytti lífi mínu og gerði það á margan hátt betra og auðveldara. Þegar hún fór á árinu 2010 var minn mesti missir. Hún yfirgaf þennan heim en hún hverfur aldrei úr hjarta mínu.

image003

Núna fimm árum seinna stefnum við, ég og kærastinn minn, að því að fá okkur hund. Okkur langar að fá okkur Border Collie. Það er reyndar got núna, hvolparnir eru bara vikugamlir. Þeir eru ennþá blindir og skríðandi á spenann og við höfum ekki enn séð þá.

Af Scully lærði ég hve mikinn tilfinningalegan stuðning hundur getur veitt. Núna horfi ég til þess að hundur geti gert miklu meira. Hjálparhundar veita tilfinningalegan stuðning en þeir geta líka hjálpað við margt annað. Þess vegna ætlum við Sindri kærasti minn að þjálfa hundinn okkar í að verða heyrnarhundur. Ég hlakka mikið til að sjá og upplifa hvaða áhrif næsti hundur hefur álíf mitt.

Þér er velkomið að fylgjast með ævintýri okkar hérna á blogginu þegar við fáum hundinn okkar og hvernig vinnunni okkar með hann miðar áfram.