Táta gerir alla káta

Valgerður Jónsdóttir skrifar grein um heimsóknarvini Rauða krossins í Morgunblaðið í dag  [vjon@mbl.is]

Heimsóknavinir rjúfa einangrun og einsemd Meðal margra sjálfboðaliða Rauða kross Íslands eru um 450 heimsóknavinir um allt land. Hlutverk þeirra er fyrst og fremst að rjúfa einsemd og einangrun fólks sem af einhverjum ástæðum hefur misst samband við aðra, eða á ekki heimangengt. Heimsóknavinir veita félagsskap og hlýja nærveru og gera lífið skemmtilegra.

Heimsóknavinur með hund er eitt verkefni heimsóknavina, sem slegið hefur í gegn á undanförnum árum. Auk þess að sækja námskeið fyrir heimsóknavini þurfa eigendur hundanna að fara á námskeið sem sniðið er að hundaheimsóknum og fara með hundinn í skoðun til að meta hvort hann henti í verkefnið.

Linda Björk Eiríksdóttir, sjúkraliði og þroskaþjálfi, og tíkin hennar, hún Táta, stóðust prófin með glans. Táta er blanda af Golden Retriever og stórri púðlutegund, einstaklega skapgóð og þægileg að sögn eigandans. »Táta kom í fjölskylduna þegar við bjuggum á Bretlandi og fylgdi okkur þegar við fluttumst heim 2011,« segir Linda Björk, sem var sjálfboðaliði í barnaskóla þar ytra. »Mig langaði að fara aftur í einhvers konar sjálfboðaliðastarf. Þegar Rauði krossinn auglýsti eftir heimsóknavini með hund fannst mér Táta alveg tilvalin í verkefnið. Við byrjuðum fyrir tveimur árum að heimsækja börn í Rjóðrinu, hvíldar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik og fötluð börn, þar sem ég starfa reyndar líka aðra hvora helgi. Nú stendur til að við förum í heimsóknir í Sunnuhlíð, dvalarheimili aldraðra.«

Linda Björk segir börnin taka Tátu fagnandi og henni finnist voða gaman að láta klappa sér. »Sjálfri er mér mikils virði þegar ég finn að einhver hefur gaman af að fá okkur í heimsókn.«

http://pappir.mbl.is/getFile.php?type=pdf&file=1_10.pdf

mynd/mbl Golli