Jórunn Sörensen:
Því heldur Sigríður Halldórsdóttir fram í grein sem hún skrifaði í Helgarpóstinn í febrúar 1984. Greinin er birt í heild hér fyrir neðan með leyfi höfundar. Þegar Sigríður skrifaði greinina ríkti algjört bann við hundahaldi í þéttbýli og hafði gilt í 60 ár. Stuttu eftir að Sigríður skrifaði grein sína leyfðu nokkur sveitarfélög, þ.á.m. Reykjavík, undanþágu frá banninu. Skilyrðin fyrir undanþágunni voru afar ströng. Svo ströng að eigandi hunds mátti nánast hvergi vera með dýrið sitt. En hundaeigendur voru glaðir – orðið „bann“ hafði breyst í „undanþágu“. Árið 2012 urðu hundaeigendur enn glaðari því þá var orðunum „bann“ og „undanþága“ breytt í „leyfi“ í flestum sveitarfélögum – ekki öllum. Hægt var að sækja um leyfi til hundahalds! Og svo glaðir voru hundaeigendur að þeir tóku ekkert eftir því að ströngu reglurnar giltu áfram – og gilda enn. Og enn láta hundaeigendur yfirvöld banna sér! Setja sér svo strangar reglur að þær takmarka allt eðlilegt líf hundaeiganda með hundinn sinn meðal almennings.
Lesið frábæra grein Sigríðar og veltið málinu fyrir ykkur.
Sigríður Halldórsdóttir:
Erum við slæm af suddli?
Tvö mál er alltaf hægt að skrifa um. Það eru þau mannréttindamálin, hundamálið og bjórmálið. Fyrir þessi fávitamál er Ísland frægt og hafi einhverntíma verið unnin hér frægðarverk þá eru þau steingleymd og grafin. Hver nennir að spurja okkur þessa dagana um Geysi, miðnætursól, Íslendingasögur, lopa? Enginn. Því heimurinn hefur ekki áhuga á aumingjum sem láta brjóta á sér þegjandi með skottið lafandi milli afturlappanna.
Bjór og hundar eru ekki nema tákn fyrir landlægan aumingjaskap sem heimurinn fyrirlítur. Aumingjaskapurinn lýsir sér augljósast í því að láta banna sér, láta segja sér. Það býr alltaf hræðsla, hugleysi, að baki því að láta banna sér. Hvernig getum við látið einhverjar manneskjur útvaldar, að þær halda, setja okkur lífsreglur? Af hverju er alltaf verið að hafa vit fyrir okkur, fullorðnum almenningi á Íslandi? Er hægt að bjóða uppá það að einhverjir kallar og kellingar ákveði fyrir aðra hvort þeir vilji bjórglas eða ekki? Getur einhver ákveðið fyrir mig hvort ég er fær um að eiga hund? Hvaða umboð hefur þetta hyski til þess að banna mér, eða þér? Það er sjálfsagt að hlýða réttlátum og nauðsynlegum lögum. En að láta brjálaðar öfgamanneskjur banna sér hitt og þetta á þessu örlitla broti af plánetunni, er niðurlægjandi. Það er að láta klikkaða grimmdarseggi ganga lausa meðal heilvita fólks.
Víkjum að efninu. Sumum finnst þetta óttalega ómerkilegt mál miðað við margt. Sérstaklega vinstri intellígensíunni sem öll drekkur bjór og snobbar fyrir hreinræktuðum hundum bak við listrænar bómullargardínur. Hundar og bjór eru engri manneskju lífsnauðsyn. Einsog súrefni og málfrelsi. En hundar og bjór eru útbreiddustu og vingjarnlegustu gleðigjafar mannskjunnar. Skrítið, þetta tvennt. Guð gaf okkur Íslendingum ekki þá náðargjöf að geta skynjað smærri ánægjur tilverunnar. Við greinum ekki muninn á heróíni og bjórglasi, hundaskít og hundi. Þessvegna er skítæðið skiljanlegt.
Einu sinni hélt maður nokkur erindi um ferð sína til Parísar í útvarpinu. Erindið hét einhverju falsnafni, Múlínrús eða Þér Signubakkar, svo maður settist spenntur við tækið að hlusta á þessa ævintýraför mannsins. En hann var ekki fyrr búinn að bjóða „kveldið“ en hann byrjar að tala um hundaskít. Tölur um vigtuð tonn af hundaskít í hinum og þessum görðum, hvað hefði mælst mikið í júlí, hvað borgarstjórinn í París ætlaði að gera í málinu. Svo rennur hann auðvitað á hnakkann í hundaskít í glænýjum módelskóm, það var bara beint útí tunni með skóna takk fyrir! Ekkert um Effelturininn og kaffihúsin í því erindi. Hvað var maðurinn að gera til Parísar? Burtséð frá saurhræðslunni, er einhver önnur ástæða fyrir hundabanni í Reykjavík?
„Já, sullaveikin.“
Einmitt, gengur hún mikið hjá ykkur?
„Já, frekar.“
Sullaveikin já. Nú er allsstaðar búið að banna heimaslátrun nema ef vera kynni í Reykjavík. Sullur, Suddlur þarf tvo hýsla til að geta þrifist. Hund og rollu. Hundur getur ekki fengið í sig sull nema éta hrátt kjöt af sullaveikri kind. Það er því rökleysa að banna hunda í borg á þeirri forsendu að þeir gangi með sull. En samkvæmt þessu væri athugandi að banna hunda í sveitum því þar er víst töluvert um fjrálsar rollur úti í náttúrunni. Því eins og djúpir umhverfissinnar myndu segja: „Það er mín persónulega skoðun og algjört prinsipmál að hundar eiga ekki heima í borgum, að mínu mati tel ég að þeir eigi að hlaupa um frjálsir í sveitinni, dýr eiga heima í náttúrunni.“ Fyrir mitt leyti hef ég aldrei séð hund hlaupandi einan útá víðavangi að fíla náttúruna. Afhverju sit ég hér með tvo hunda liggjandi við lappirnar á mér og alla þessa náttúru fyrir utan? Hundar eru þar sem húsbændur þeirra eru, annarsstaðar ekki. Afhverju? Veit það ekki. „Rök skipan engan sess í ást okkar á hundinum,“ sagði heimspekingur nokkur. „Maðurinn skapaði Canis familiaris. Ég er guð hundsins míns. Án mín drepst hann.“
Ég hef verið að velta því fyrir mér afhverju ég á börn sem eru sjúklega hrædd við lögregluþjóna. Þau kasta upp af hræðslu ef þau sjá einn vörpulegan. Litlu krakkarnir sem ég kenni ætla aldrei aftur í umferðarfræðslu hjá svo mikið sem lögreglukonu. Ég hef mikið reynt að komast að hvað veldur þessum óhugnaði og eftir margra vikna sálfræðikukl kom það upp úr dúrnum. Það voru þrír vörpulegir að murka lífið úr hálfvöxnum hvolpi í myndaseríu í Dagblaðinu. Þar fauk þetta dýrmæta traust ungra Íslendinga á lögreglunni, sem svo lengi hefur verið í uppbyggingu. Börn gera ekki mikinn greinarmun á sjálfum sér og seppa og þau vita ekkert sorglegra í bók eða bíómynd en sjá góðan hund dauðan.
Þegar ráðherrann segist fyrr flytja úr landi en láta taka af sér tíkina, þá ætti maður að hugsa sig um tvisvar áður en maður hlær að svo barnslegum viðbrögðum. „Hundurinn á sérstæðan sess í lífi mannsins,“ segir maður að nafni Fernand Mery, læknir og líffræðingur. „Hundurinn er mér óþolandi ráðgáta. Af hverju get ég ekki útskýrt: Hvað er hundur? Samt þekki ég hann svo vel, alltaf er hann við hlið mína, elskur og tryggur. En hann heldur áfram að vera mér ráðgáta. Hver er ábyrgð okkar gagnvart þessari loðnu skepnu, einu skepnunni í heiminu sem getur ekki lifað án okkar mannanna? Geta vísindin einhverntíma gefur okkur langþráða afsökun fyrir að elska hund?“
Þau eru haldbetri rökin með hundahaldi en gegn því. Sérstaklega í svona leiðinlegum borgum einsog Reykjavík. Þeir sem eru í skítmælingunum fengju eitthvað að hugsa um, sullaveikissjúklingarnir ættu að tala við næstu heilsugæslustöð og hætta að slátra heima. Heimaslátrað sullafé er næstum jafn ógeðslegt og bjór. Vonandi fáum við svo að vera í friði fyrir afskiptasömum útlendingum, enda ekki búin að leggja svo lítið á okkur að auglýsa okkur sem fanatískar grámyglur sem elska börn einsog hundur kvalara sinn.
Við skulum lofa hundinum að eiga síðasta orðið í tilvitnun úr The Dog eftir Fernand Mery:
„Þegar hundurinn var skapaður sleikti hann hond Guðs. Guð klappaði honum á hausinn og sagði: „Hvað viltu hundur?“ Og hundurinn svaraði: „Skapari minn, lof mér að vera hjá þér í himnaríki. Ef ég mætti liggja á mottunni fyrir framan Hliðið…?“
http://hundalifspostur.is/2017/06/14/throski-markmid-og-krofur-hundaeigenda/