ÞROSKI – MARKMIÐ OG KRÖFUR HUNDAEIGENDA

Jórunn Sörensen:

Á vordögum 2017 var mér send meðfylgjandi mynd sem ég birti á Facebook. Myndin var tekin á ónefndu veitingahúsi í ónefndri borg í Þýskalandi. Á myndinni sést þjónn færa hundi vatn eftir að hafa fært fólkinu sem var með hann bjór. Í texta með myndinni segi ég m.a.: „Eðlilegast hlutur í heimi en hér bannar reglugerð að við sem eigum hund getum farið, ásamt hundinum, inn á veitingastað og fengið okkur hressingu.“ Og síðan spyr ég: „Hvað ætlum við að líða þetta lengi enn?“

 

18217843_10158637972620343_1541084133_n[1]

Ég fékk heilmörg „læk“ á færsluna en einnig svarar starfandi hundaeftirlitsmaður: „Fyrst þurfa hundaeigendur að sýna þroska og svo setja fram markmið og kröfur.“

Ég er mikið búin að velta þessari staðhæfingu hundaeftirllitsmannsins fyrir mér – reyndar í mörg ár því hann er ekki sá fyrsti sem lætur í ljós þá skoðun að strangar reglur yfirvalda hér á landi um hundahald stafi af því að hundaeigendur séu ekki nógu góðir hundaeigendur – ekki nógu þroskaðir.

Þessi skoðun hundaeftirlitsmannsins birtist í viðhorfum yfirvalda/löggjafans sem setur hundaeigendum afar þröngar skorður. Í 15 ára gamalli reglugerð (Reglugerð um hollustuhætti. Nr. 941/2002) eru taldir upp þeir staðir sem ekki má fara með hund  inn í: „Heilbrigðis- og meðferðarstofnanir; Skólar; Lækna- og tannlæknastofur; Sjúkrahús og aðgerðarstofur; Vistarverur handtekinna manna; Heilsuræktarstöðvar; Íþróttastöðvar og íþróttahús; Gæsluvellir; Snyrtistofur; Nuddstofur og sjúkraþjálfun; Sólbaðsstofur; Húðflúrstofur; Samkomuhús s.s. kirkjur, leikhús, hljómleikasalir, söfn og kvikmyndahús; Gististaðir, Veitingastaðir; Sumarbúðir fyrir börn.“

En þetta finnst borgarstjórn Reykjavíkur ekki nóg og bætir við: „Samkomuhús hvers konar og staðir þar sem almenningur hefur aðgang að vegna afgreiðslu og þjónustu.“ (Úr reglum um hundahald í Reykjavík) Þetta merkir í raun að hundaeigandi má hvergi vera með hundinn sinn. Hann má t.d. ekki fara með hann með sér í almenningsfarartæki, verslun, pósthús eða banka.

Eftir höfðinu dansa limirnir og því er þetta neikvæða viðhorf viðhorf yfirvalda til hundahalds í þéttbýli einnig útbreitt meðal almennings og jafnvel meðal einstaka hundaeigenda – þeirra hundaeigenda sem álíta að bara „þeir“ séu nógu góðir en „hinir“ séu það ekki.

 

MARKMIÐ OG KRÖFUR

Hundaeftirlitsmaðurinn sem kallar eftir „þroska“ hundaeigenda kallar einnig eftir því að þeir setji fram „markmið og kröfur“.

Öll þau markmið og allar þær kröfur sem hundaeigendur hafa sett fram um svo hundahald verði með eðlilegum hætti hér á landi eða eins og best gerist í nágrannalöndum okkar, geta ekki hafa farið fram hjá nokkrum manni. Fyrst og fremst hafa þessi markmið og kröfur komið frá félögum hundaeigenda: Hundaræktarfélagi Íslands (HRFÍ) og Félagi ábyrgra hundaeigenda (FÁH).

HRFÍ er áratuga gamalt félag, stofnað 1969. Markmið félagsins eru skilgreind í lögum þess og snúast fyrst og fremst um hreinræktun viðurkenndra hundakynja en einnig er kveðið á um að félagið skuli: „Stuðla að réttri meðferð, aðbúnaði og uppeldi hunda.“ Sem og að: „Stuðla að góðum samkiptum milli hundaeigenda, yfirvalda og almennings.“ Í ársskýrslum félagsins má kynna sér það sem félagið hefur lagt af mörkum til betra lífs fólks með hundum sínum. www.hrfi.is

FÁH er kornungt stofnað 2012 af nokkrum hundaeigendum sem höfðu áhuga á að bæta stöðu hundaeigenda og hunda í borginni. Á þessum fáu árum hefur félagið ekki legið á liði sínu við að freista þess að fá yfirvöld í lið með sér svo hundahald í þéttbýli á Íslandi verði með eðlilegum hætti. Sjá ársskýrslur félagins. www.fah.is

Það skortir því sannarlega ekki á að hundaeigendur sem einstaklingar eða félagsmenn í félögum hundaeigenda setji fram markmið og kröfur. Einföld og sanngjörn markmið um reglur eins og gilda í þeim löndum sem við berum okkur saman við og vel rökstuddar kröfur um að svo megi verða.

 

HVAÐ ER ÞROSKI?

Ef við skilgreinum þroska sem þá færni að ráða við eigið líf og þau verkefni sem hver og einn tekur sér fyrir hendur er það staðreynd að enginn nær þroska/færni án þess að fá tækifæri til þess að takast á við þessi verkefni. Enginn lærir að synda með því að læra sundtökin en sitja síðan bara á bakkanum. Á sama hátt þurfa hundaeigendur að geta tekist á við það verkefni að vera með hundinn sinn við allar almennar aðstæður sem venjulegur borgarbúi.

Eftir 60 ára bann við hundahaldi í þéttbýli voru settar reglur þar sem fólk gat sótt um undanþágu til þess að eiga hund gegn afar ströngum skilyrðum og gegn greiðslu hárrar fjárupphæðar á hverju ári. Þessar reglur áttu að gilda í fjögur ár. Að þeim liðnum var ákveðið að framlengja reglurnar – hundahald var áfram bannað en hægt var að sækja um undanþágu. Árið 2012 var reglunum breytt þannig að í stað þess að 1. grein segði að hundahald væri bannað var það nú leyft með skilyrðum. Til þess að fá orðið „leyfi“ í stað orðanna „bann“ og „undanþága“ sættu hundaeigendur sig áfram við þessar ströngu reglur. Í raun breyttist ekkert. Ég leyfi mér að fullyrða að ef hundahaldi hefðu ekki verið settar þessar afar ströngu skorður væru Íslendingar orðnir þroskaðri hundaeigendur.

Þessi einstrengingslegu boð og bönn ásamt óheyrilegri gjaldtöku af hundaeigendum eru hlutir sem við eigum ekki að sætta okkur við. Ég lýk þessum pistli á spurningunni sem ég setti fram með myndinni á Facebook: „Hvað ætlum við að líða þetta lengi enn?“