Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is
Að meðaltali er auglýst eftir þremur hundum dag hvern á ýmsum samskiptamiðlum og vefsíðum fyrir hundaeigendur og áhugafólk um hundahald. Í síðasta mánuði var auglýst eftir 115 týndum hundum á þennan hátt og fyrstu vikuna í maí var auglýst eftir 25 hundum. Þetta sýnir samantekt Guðfinnu Kristinsdóttur, sem m.a. situr í stjórn Fé lags ábyrgra hundaeigenda og hefur umsjón með vef- og Facebook-síðunni Hundasamfélagið, sem er eitt stærsta samfélag hundaeigenda hér á landi. „Ég tók eftir því í nóvember að þeim auglýsingum hafði fjölgað mikið þar sem verið var að lýsa eftir hundum eða þar sem fólk hafði fundið hunda. Ég fór síðan að taka þessar auglýsingar saman af ýmsum vef- og samskiptasíðum fyrir hundaeigendur,“ segir Guðfinna og leggur áherslu á að þessi samantekt hennar sé ekki tæmandi listi. Við samantekt hennar kemur ýmislegt í ljós. Til dæmis er laugardagur sá dagur vikunnar sem hundar eru líklegastir til að týnast og næstlíklegast er að þeir týnist á fimmtudögum eða föstudögum. Fæstir hundar týnast aftur á móti á þriðjudögum. Guðfinna segir það hafa komið sér á óvart hversu margir hundar týnist á degi hverjum og í kjölfarið fékk hún hugmynd að smáforriti eða appi sem fengið hefur nafnið Týri. Upplýsingar um hundinn eru skráðar í appið og sleppi hann laus er með því hægt að senda skilaboð á alla í hverfinu sem eru með appið. Appsins er að vænta innan skamms.
Margir týnast um áramótin
Talsverður munur er á fjölda auglýsinga eftir mánuðum að sögn Guðfinnu. Hún taldi 81 auglýsingu eftir týndum hundum í mars, í febrúar voru þær 50, í janúar 95 og auglýst var eftir 105 hundum í desember. Spurð hver gæti verið skýringin á þessum mikla mun segir hún að háar tölur í desember og janúar megi að miklu leyti skrifa á reikning hræðslu við flugelda. Til dæmis hafi tíu hundar týnst einn dag í kringum áramótin og það hafi að sögn eigenda verið vegna flugelda. Guðfinna segir mikið hafa breyst í þessum efnum með tilkomu Facebook. Áður hafi fólk tilkynnt um týnda hunda til lögreglu eða hundaeftirlits og síðan hafi eigandinn leyst hundinn út með tilheyrandi kostnaði, sem er reyndar mishár eftir sveitarfélögum eins og sjá má af meðfylgjandi töflu. Svokallað handsömunargjald er að öllu jöfnu tekið fyrir að handsama hundinn og ofan á það getur lagst kostnaður vegna dvalar eða geymslu hundsins. Samkvæmt vefsíðum nokkurra sveitarfélaga er gjaldið frá rúmum 8.500 krónum upp í 28.700. Þá er sá háttur hafður hjá nokkrum sveitarfélögum að innheimta hærra gjald fyrir „síbrotahunda“ sem eru ítrekað handsamaðir og sums staðar er sú regla að sé hundurinn óskráður þarf einnig að greiða skráningargjald til að fá hann lausan.
Ævintýraþrá ræður för
Guðfinna segir að sjaldgæft sé að hundar séu lengi týndir. Oftast finnist þeir eftir 3-4 tíma og þeir fari oftast ekki lengra en einn kílómetra frá heimili sínu. „Þeir eru nú yfirleitt ekki að hugsa um að strjúka að heiman, heldur snýst þetta oftast um ævintýraþrá eða jafnvel að hitta einhvern annan hund,“ segir hún. „Annars er það alveg ótrúlegt hvað fólk er tilbúið að fara út að leita að týndum hundum fyrir fólk sem það þekkir ekki neitt,“ bætir hún við og nefnir nýlegt dæmi um að þegar auglýst var eftir hundi á Facebooksíðu Hundasamfélagsins hafi um 50 manns farið að leita hundsins; allflestir ókunnugt folk.
Handsömunargjald fyrir hunda
Miðað við fyrstu handsömun skráðs hunds. Í sumum sveitarfélögum er greitt hærra gjald ef hundurinn er handsamaður ítrekað
Reykjavík 28.700
Stykkishólmur 8.595
Fljótsdalshérað 16.000
Skagafjörður 10.350
Hafnarfjörður, Garðabær og Kópavogur 13.000
Árborg 14.512
Snæfellsbær 12.938
Bolungarvík 9.100