Fíkniefnahundinum Nökkva sagt upp

Lögreglan á Vesturlandi þarf að skera niður. Fíkniefnahundinum Nökkva sagt upp.

DV: Eggert Skúlason

Lögreglan á Vesturlandi hefur lagt niður hundateymi sitt, frá og með síðustu mánaðamótum. Þetta staðfestir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri embættisins. „Já, þetta er rétt. Formlega hætti Nökkvi hjá okkur í síðustu viku,“ sagði Úlfar í samtali við DV.

Sparnaðurinn af þessari ráðstöfun felst fyrst og fremst í því að með því að afleggja hundateymið fer umsjónarmaður Nökkva á almennar vaktir. Sá tími sem áður fór í að sinna hundinum og þjálfa nýtist nú að fullu til löggæslustarfa. Laufey Gísladóttir hefur alið Nökkva frá því að hann var hvolpur. „Ég á ekki von á öðru en að ég taki hann til mín þó svo að hann verði áfram skráður á embættið. Kostnaðurinn við hann er ekki svo mikill. Fóður frá áramótum leggur sig á 34 þúsund,“ sagði Laufey í samtali við DV. Henni finnst þetta hræðileg niðurstaða, að Nökkvi sé ekki lengur hluti af liðinu. En Laufey hefur tekið ákvörðun um að gera Nökkva að sínum hundi.

Eiga eftir að kveðjast

Úlfar lögreglustjóri hefur ekki kvatt Nökkva formlega en segist eiga eftir að gera það. „Ég á eftir að strjúka honum og hvísla í eyrað á honum, einhverjum vel völdum orðum.“

Nökkvi hefur staðið sig vel í starfi er samdóma álit þeirra Úlfars og Laufeyjar. Skemmst er að minnast þegar Nökkvi þefaði uppi fíkniefni á umdeildri hátíð á Snæfellsnesi í ágúst. Þar var upplýst um 29 fíkniefnamál á hátíð sem um 200 gestir sóttu. Við leit fundust meðal annars kannabisefni og amfetamín. Við þessa miklu rassíu nýttist hann vel. Tvö ár í röð hefur Nökkvi orðið Íslandsmeistari fíkniefnahunda. Það var árin 2012 og 2013. Hann komst ekki til keppni í fyrra.

Fimm ára

Nökkvi sem er af Labrador-kyni er á sjötta ári og mætti því að ósekju segja að hann ætti að minnsta kosti tvö góð ár eftir sem leitarhundur. „Hann er fimm ára frá því í mars.“ Laufey horfir fram á launalækkun vegna breytinga á sínu starfi. Hún er nú í raun einstæð móðir með tilliti til Nökkva og fær ekki greitt meðlag með honum eins og fylgdi stöðu umsjónarmanns hundsins.

Enn frekari sparnaður er fyrirhugaður hjá Lögreglustjóra Vesturlands. „Við munum fækka um tvo menn á næsta ári. Tveir í liðinu komast á aldur og munu hætta og við ráðum ekki í þau störf,“ segir Úlfar lögreglustjóri. Hann segir einungis tvær leiðir til að spara í löggæslu. Það er að fækka fólki eða draga úr akstri lögreglubíla. Nýja embættið sem hann veitir forstöðu með sameiningu umdæmanna á Akranesi, í Borgarnesi og Stykkishólmi var sett á laggirnar í byrjun árs.

„Við hófum störf með neikvæðan efnahag upp á rúmar 16 milljónir og það er erfitt að vinna á þeim halla. „Þetta er og verður barningur,“ segir lögreglustjórinn. Við gerðum miklar breytingar og tókum upp sólarhringsvaktir í stað þess að vera bara með lögregluþjóna á bakvakt. Með því gerðum við löggæsluna á svæðinu enn sýnilegri. Þetta kostar allt peninga,“ segir Úlfar. Hann horfir til fjárveitingavaldsins um frekari framlög svo efla megi löggæsluna enn frekar.

http://www.dv.is/frettir/2015/10/6/logreglan-vesturlandi-rekur-islandsmeistarann/