mbl.is Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.is
Mjóhundar eru kannski ekki það sem kemur fyrst upp í hugann hjá fólki sem ætlar að fá sér hund. En þeir eru einstaklega félagslyndir og fara vel á heimili. Gunnur Sif heillaðist af persónuleika Whippet-mjóhunda þegar hún kynntist þeim í Noregi.
Mjóhundar eru kannski ekki það sem kemur fyrst upp í hugann hjá fólki sem ætlar að fá sér hund. En þeir eru einstaklega félagslyndir og fara vel á heimili. Gunnur Sif heillaðist af persónuleika Whippet-mjóhunda þegar hún kynntist þeim í Noregi. Hún hefur ræktað þá hér á landi undanfarin tólf ár. Og hefur ánægju af.
Ég bjó í Noregi í sex ár þegar maðurinn minn var þar í framhaldsnámi og snemma á því tímabili keypti ég „Airedale terrier“-hund af ræktanda í Stavangri sem einnig var slökkviliðsstjóri þar í bæ. Slökkviliðisstjórinn var mjög drífandi manneskja, hann dró mig á hundasýningar og lánaði mér hunda til að prufa. Þá heillaðist ég af mjóhundum, enda eru þeir ótrúlegir persónuleikar, maður tengist þeim sterkum böndum,“ segir Gunnur Sif Sigurgeirsdóttir sem ræktar mjóhunda af tegundinni Whippet.
„Ég eignaðist minn fyrsta mjóhund í Noregi og lagði á mig langt ferðalag þvert yfir Noreg til að sækja hann á sínum tíma. Þetta var tíkin Skutla og manninum mínum leist ekki meira en svo á blikuna þegar við komum á heimilið þar sem hundarnir voru, honum fannst þeir svo mjóir og feldlausir með starandi augu. Hann bað mig vinsamlegast um að fylla ekki húsið okkar af slíkum skepnum. En Skutlu litlu tókst að heilla okkur bæði upp úr skónum á þessari átta klukkutíma leið sem við ókum með hana heim til Stavanger,“ segir Gunnur og bætir við að þær séu ekki nema þrjár sem rækta þessa tegund á Íslandi, en hún var sú fyrsta sem kom með slíkan hund til landsins þegar fjölskyldan fluttu til Íslands með Skutlu fyrir þrettán árum.
Fólk starði á töltandi hund
Fyrstu árin eftir heimkomu bjuggu þau í Neskaupstað því þar hafði maður Gunnar fengið stöðu sem læknir. „Fólk starði þegar ég fór út að ganga með Skutlu, það áttaði sig ekki alveg á þessari skepnu sem nýja fólkið í bænum hafði komið með. Skjólstæðingar mannsins míns á heilsugæslunni spurðu hann um þessa undarlegu skepnu sem tölti eins og hestur á eftir konunni hans í göngutúrum,“ segir Gunnur og hlær.
„Sumir sögðu hreint út að þeim þætti þetta forljót skepna. Fólk stoppaði mig jafnvel þegar ég var í göngutúr með Skutlu og skammaði mig fyrir að gefa hundinum ekki að borða, en þessari hundar eru grannholda enda miklir hlaupahundar. Þeir eru byggðir eins og þotur, til að hlaupa sem hraðast, með stóran djúpan brjóstkassa og stærri lungu og stærra hjarta en aðrir hundar. Whippet-hundur hefur mælst á tæplega sjötíu kílómetra hraða á sprettum,“ segir Gunnur og bætir við að margir hafi líka verið jákvæðir og áhugasamir um hundinn hennar í Neskaupstað. „Norðfirðingar mega eiga það að núna eru hvergi annarsstaðar á landinu utan höfuðborgarsvæðisins eins margir Whippet-mjóhundar og einmitt þar í bæ.“
Hefur fengið ellefu got
Í dag eru um hundrað Whippet-hundar á Íslandi. Gunnur á núna þrjár fullorðnar tíkur, Skútu, Wenus og Eldingu, og auk þess einn rakka, Funa, en hann kom sem eini hvolpur úr sæðingu með fryst innflutt sæði frá Svíþjóð. Á heimilinu eru líka sjö hvolpar, úr tveimur gotum þeirra Skútu og Wenusar, átta vikna og tíu vikna gamlir.
„Þeir voru fleiri, það eru nokkrir farnir á ný heimili. En ég hef fengið ellefu got síðan ég flutti heim, fyrstu hvolparnir sem fæddust hér á Íslandi verða tólf ára núna í desember. Skutla mín varð aldrei mamma, hún varð bráðkvöldd áður en ég náði að nota hana til undaneldis. En vinkona mín í Noregi sem ég hafði keypt Skutlu af, hún gaf mér afburða undaneldistík hálfu ári eftir að ég missti hana, og úr þeirri tík kom fyrsta gotið á Íslandi.“
Föður hvolpanna fékk Gunnur lánaðan frá Noregi og er hann farinn aftur heim. „Ég hef flutt inn tvo rakka og fjórar tíkur og einnig tekið inn tvo lánsrakka að utan til að byggja upp stofninn hér á landi. Eldingu flutti ég til dæmis inn frá Noregi, til að eiga tík sem væri óskyld Venus og Skútu.“
Í hverju goti hefur Gunnur verið með þema í nafngiftinni á hvolpunum. Í málmgotinu núna eru Kóbalt, Kopar, Palladín, Títan, Platína og Iridín, en í stjörnugotinu eru Pollúx, Kanópus, Síríus, Óríon, Kastor, Antares og Lýra. Stjörnugotið er fjórði ættliður Gunnar undir ræktunarnafninu Leifturs.
Gunnur segir Whippet-hunda fara vel á heimili, það þurfi ekki að hafa mikið fyrir þeim, það sé engin lykt af þeim og engin feldhirða því hárin eru mjög snögg.
„Þetta eru félagslyndir hundar og hreinlegir, þeir eru rólegir inni og þeim finnst gott að sofa til hádegis. Þeir eru þægir í bandi í göngutúrum en miklir sprelligosar þegar þeim er sleppt lausum, enda hlaupahundar í eðli sínu. Maður verður að hafa skilning á því hvernig hundurinn er, leyfa honum að fá útrás fyrir eðli sitt, þetta eru veiðihundar og þeir elska að taka þátt í svokölluðu beituhlaupi. Við erum með beituhlaupsvél sem tengd er við bíl, og í henni er strengur á hjóli og þráðurinn spólast hratt inn og á endanum eru plastræmur sem hundarnir reyna að ná. Eigendurnir sleppa hundunum þegar græjan fer af stað og hundarnir elta á gríðarlegum hraða. Það er keppt í beituhlaupi erlendis og þá er dæmt eftir úthaldi, snerpu og öðru slíku. Hundunum finnst þetta mjög gaman, þeir byrja að góla um leið og þeir heyra í vélinni.“
Gunnur heldur úti vefsíðu um ræktun hundanna: www.whippet.is
http://www.mbl.is/greinasafn/grein