Jórunn Sörensen:
Nú eru starfandi um 30 dýraspítalar/dýralæknaþjónustur á Íslandi sem sinna heimilisdýrum. Það er fólki jafn sjálfsagt og eðlilegt að fara með dýrið til dýralæknis eins og leita á heilsugæslustöðina með sig sjálft eða aðra fjölskyldumeðlimi.
Það er samt ótrúlega stutt síðan, aðeins örfáir áratugir, að ástandið í málefnum veikra og slasaðra dýra var með öðrum og verri hætti. Hér ætla ég að deila með ykkur nokkrum minningabrotum frá þeim árum þegar ég var formaður Sambands dýraverndarfélaga Íslands.
Á þessum árum voru algengastu viðbrögð dýralækna við veikum eða slösuðum gæludýrum að drepa þau eða „ráðleggja“ það. Dæmin sem ég sjálf hef reynslu af eða frétti um á þessum árum eru ótal mörg og nefni ég hér örfá:
- Ég var á fundi þegar hringt var á staðinn og beðið um mig í símann. Í símanum var örvæntingarfullur maður sem sagði mér að hundurinn hans hefði fótbrotnað og hann hefði haft samband við dýralækni sem hafði bara eitt ráð – að skjóta hundinn.
- Eitt sinn sem oftar var hringt í mig heim. Börn höfðu verið að leika sér með veiðistöng með öngli á færinu, kötturinn stokkið upp og „veitt“ öngulinn sem stakkst í gegnum kinn hans. Ég leitaði ég til móður minnar sem var hjúkrunarfræðingur á slysadeild. Þangað fór fjölskyldan með köttinn og beið á meðan læknir á vakt ásamt hjúkrunarfræðingi svæfðu köttinn og fjarlægðu öngulinn.
- Vinkona mín átti hund sem vaknaði einn morguninn með hausinn útblásinn eins og fótbolta. Þetta var um helgi og hún náði ekki í nokkurn dýralækni. Eftir nokkrar hringingar fékk hún loks lækni til að koma og sinna fárveiku dýrinu. Ekki dýralækni, nei það var auðveldara að ná í sérfræðing í barnasjúkdómum sem starfaði á einu sjúkrahúsanna í borginni en dýralækni.
- Minn eiginn hundur var orðinn mjög gigtveikur. Sérfræðingur í bæklunarlækningum lét taka röntgenmyndir af honum uppi á Borgarspítala. Í framhaldi af því er fróðlegt – og skemmtilegt – að geta þess að Snati minn var hvorki fyrsti né síðasti hundurinn sem fékk þjónustu á röntgendeildinni þar. Eitthvað smávegis var greitt fyrir sem starfsfólk sett í sérstakan sjóð.
- Og margar eru þær tíkurnar sem sérfræðingar í fæðingarhjálp gerðu keisarskurð á þegar þær gátu ekki fætt.
Margir þekkja svipaðar sögur. Þetta var hræðilegt ástand og rann Íslandsvininum Mark Watson svo til rifja að hann gaf Íslendingum dýraspítala með öllum tækjum. Það var í byrjun árs 1973. En því fór fjarri að yfirvöld yrðu þakklát. Ríkið einfaldlega neitaði að taka við gjöfinni. Þá var leitað til Reykjavíkurborgar. Á fundi með þáverandi borgarstjóra um málið upplifði ég viðbrögð sem ég gleymi aldrei. Á fundinum voru, auk borgarstjóra, þáverandi yfirdýralæknir og eiginkona hans sem einnig var dýralæknir, þáverandi héraðsdýralæknir í Reykjavík og svo ég. Á fundinum hlustaði ég á þessa þrjá dýralækna keppast við að sannfæra borgarstjóra um að það þyrfti ekki dýraspítala í Reykjavík. Finnst einhverjum þetta ótrúlegt nú þegar sex dýraspítalar/dýralæknastofur eru starfandi á Höfuðborgarsvæðinu?
Dýraspítali Mark Watson var engu að síður reistur í Víðidal í Reykjavík og fyrstu árin var rekin þar hjálparstöð fyrir dýr á vegum Dýraverndarfélags Reykjavíkur (DR) og undir stjórn Sigfríðar Þórisdóttur sem fyrst Íslendinga lærði dýrahjúkrun. Enginn íslenskur dýralæknir fékkst til þess að starfa á spítalanum í nokkur ár. Þá tók stjórn DR það til bragðs að ráða danskan dýralækni til starfa á spítalann þvert gegn vilja Dýralæknafélagsins. Ég vann sem sjálfboðaliði á spítalanum og dag einn kom íslenskur dýralæknir sem nýkominn var heim frá námi, í heimsókn á spítalann og ræddi einslega við hinn danska starfsbróður sinn. Hvað þeim fór á milli fékk ég ekki að vita – utan eitt atriði. Sá danski spurði hinn íslenska hvort fótbrot katta væru negld hér á landi. Svarið var stutt og laggott: „Við gerum ekki svoleiðis á Íslandi.“
Ég enda þessar hugleiðingar á pistli sem Sigfríð Þórisdóttir skrifaði í 1-2 tbl. Dýraverndarans 1977:
Þessi þriggja mánaða pekingesehvolpur, Konfúsíus, kom alla leið frá Hrútafirði til Reykjavíkur til að láta fjarlægja kindabein er hafði staðið þversum í vélinda hans í fimm sólarhringa. Fjórar góðhjartaðar manneskjur, háls-, nef- og eyrnalæknir, tveir svæfingalæknar, systir frá Landakoti ásamt mér, hjálpuðust að við aðgerðina. Aðgerðin var erfið en eftir 45 mínútna þrotlaus átök tókst að draga beinið upp úr vélindanu í gegnum munninn. Konfúsíus rankaði fljótlega við sér eftir svæfinguna og er núna við bestu heilsu. Beinið reyndst hryggjarliður úr kind.
Þarna skall hurð nærri hælum. Ég vil eindregið benda hundaeigendum á að gefa hundum sínum ekki önnur bein en nautaleggi sem í flestum tilfellum er ekki hægt fyrir hund að flísa niður.
Myndin er ekki af umræddum hundi.