Hundurinn minn

Guðfinnur Sigurvinsson, upplýsingafulltrúi svarar:

Hvað heitir hundurinn þin?

Hundurinn minn heitir Mikki og er af tegundinni havanese, það er kenndur við Havana, höfuðborg Kúbu, en þetta er þeirra þjóðarhundur. Mikki kom úr goti í Berlín þann 8. desember 2007 og verður því 9 ára í lok árs.  

Af hverju valdir þú þetta kyn?

Það er frábært geðslag Havanese-hundanna sem heillaði fyrst og fremst, þeir eru í senn kátir og ljúfir. Reglulega góðir félagar.  Svo finnst mér stærðin mjög passleg og það er auðvelt að fá pössun fyrir svona hund. Svo spillir ekki að hann fer ekkert úr hárum og veldur ekki ofnæmi.

Hversu lengi hefur þú átt hund/hunda?

Mikki er fyrsti hundurinn sem ég eignast, ef frá er talinn hundurinn Tryggur sem ég átti í bernsku en bjó samt í sveitinni þar sem ég var í vist á sumrin. Tryggur var dæmigerður íslenskur sveitahundur og mér þótti mjög vænt um hann.

Hvernig lýsir þú samskiptum þínum/fjölskyldunnar og hundsins?

Mikki er miðpunktur heimilisins og við Símon eiginmaður minn erum duglegir að fara með hann út í gönguferðir og eins finnst okkur mjög gaman að hafa það notalegt með hundinum heima. Við búum í fjölbýlishúsi og nágrannar okkar sýndu ósk okkar um hundahald mikinn skilning sem er mjög þakkarvert og það hafa engin vandamál komið upp. Þvert á móti er Mikki hrókur alls fagnaðar í sameigninni og tilefni skemmtilegra samræðna.

 Er lífið betra með hundum?

Já, tvímælalaust. Hundar hafa fallega sál og það er mannbætandi að vera með þeim og hugsa um þá. Hundurinn okkar er dagleg uppspretta gleði og hláturs og gefur okkur félagsskap sem er mjög dýrmætur. Þá er heilsubætandi að eiga hund, það tryggir að maður stundar reglulega útivist í formi gönguferða og ekki veitir nú af í nútímasamfélagi.

Er eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri?

Ég hef verið gagnrýninn á það hversu harkalega mér finnst borgarsamfélagið taka á hundahaldi og sníða okkur þröngan stakk með alls kyns óþarfa reglum, helst um hvar dýrin mega ekki vera og það er mjög víða. Samfélagið batnar ekki, að mínu viti, við það að verða gjörsamlega „sterílt“. Hitt er svo annað mál að mér finnst líka að sá hluti hundaeigenda sem sýnir nábýlinu tillitsleysi, eins og með því að hirða ekki upp eftir hundinn sinn eða lofa þeim að gelta viðstöðulaust úti í garði klukkustundunum saman, eigi að hugsa sinn gang. Hundahald er gefandi en því fylgir ábyrgð og það krefst vinnu. Ég verð leiður að hirða upp eftir annarra manna hunda því ég veit að þar fór einhver úr okkar eigin hópi sem kýs í raun að vinna gegn okkur með því að ýta undir gremju í garð hundaeigenda og að þrengt verði enn frekar að okkar ferfættu vinum. Ég get ekki skilið hvernig fólk sem telur sig hundavini hefur það í sér.