Íslenskir fjárhundar voru geymdir á Keldum á árunum 1955 til ca 1965. Hundarnir sem Mark Watson fékk víða um land voru geymdir að Keldum og þaðan voru þeir fluttir úr landi. Sagan segir að ráðsmaður á Keldum hafi átt sinn þátt í því að tíkurnar Pollý og Snúlla voru ekki sendar utan. Síðar var ræktað undan þessum tíkum eins og sjá má á skrifum Birgis Kjaran. Er einhver sem þekkir þessa sögu? Ég leita heimilda frá þessum tíma.
Birgir Kjaran sem var einn að stofnendum Hundaræktarfélags Íslands skrifaði góða grein um íslenska fjárhunda í Morgunblaðið tveimur vikum fyrir stofnun félagsins. Greinin er frábær heimild og ég ætla að endurskrifa hluta úr greininni sem fjallar um Klóa, hvolpinn sem Birgir fékk frá Tálknafirði 18. desember 1961.
Úr Lesbók Morgunblaðsins 1969:
Um ætt og uppruna Klóa er þetta helzt að segja, eftir upplýsingum frá Davíð Davíðssyni bónda að Sellátrum, nú oddvita í Tálknafirði, en frá honum er Klói kominn.
Þegar Davíð Davíðsson kom að Sellátrum árið 1940 eða 1941 voru þar tveir hundar. Annar gul tík með svartan kjaft og trýni og svarta hvarma. Mun hún hafa verið frá Stóra-Langadal. En hundurinn var frá Kvígindisfelli. Telur Davíð að kyn þetta hafi borizt vestur af Snæfellsnesi með manni, Ólafi Kolbeinssyni að nafni, sem hafi flutzt vestur um aldamót. Að sögn Davíðs hefur kyn þetta breiðzt út um Tálknafjörð, og er yfirleitt gult að lit (golsótt), jafnvel stöku sinnum hvítt eða mórautt með hvítar tær. Eyru vel uppistandandi, og hringuð rófa. Lundarfar telur hann skemmtilegt, blíðir, nokkuð viðkvæmir, góðir smalahundar og ágætir að elta uppi tófur. Þegar þeir þefi upp tófuspor verði þeir ógn spenntir og erfitt við þá að ráða. Renni bara í slóðina.
Birgir: Hundahald í þéttbýli er erfitt. .. Þess vegna var það einstakt lán fyrir mig að Klói fékk fljótt aðstöðu til þess að dvelja langdvölum að Keldum í Mosfellssveit. Hafa þeir Páll Pálsson, yfirdýralæknir og bændurnir að Keldum og Grafarholti og þeirra fólk reynzt okkur Klóa sérstakar hjálparhellur í þeim efnum.
Enda hefur og nokkuð gagn af hlotizt, því að þar eru tvær tíkur, íslenzkar, sem Mark Watson mun hafa skilið eftir á sínum tíma: Önnur heitir Pollý og er fallega rauðbrún. Hin er svört með hvítan kraga og nefnist Snúlla. Með þeim hefur Klói eignazt trúlega tæpt hundrað hvolpa, sem flestir hafa lifað og dreifzt víða um land, m.a. að Hesti í Borgarfirði og að Hólum. Niðjar þeirra eru og hundar Sveins Kjarvals og sá stofn, sem frú Sigríður Pétursdóttir að Ólafsvöllum á Skeiðum er nú að reyna að rækta. – Svo að mér er nær að halda, að Klói hafi líklega lagt vel sitt að mörkum til viðhalds íslenzka hundastofninum.
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3292629
Ef þú getur gefið ábendingar/upplýsingar þá vinsamlegast hafðu samband : thorhildurbjartmarz@gmail.com
Myndin úr úr bókinni Auðnu stundir eftir Birgi Kjaran