Ný reglugerð um velferð gæludýra

Ný reglugerð um velferð gæludýra. Hér birtum við aðeins úrdrátt úr reglugerðinni sem varðar hunda einskonar flýtileið. Hundaeigendur og allir þeir sem starfa í kringum hunda eru hvattir til að lesa og kynna sér reglugerðina í heild sinni.

 1. gr.

Tilgangur og gildissvið.

Tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja velferð og heilbrigði gæludýra með góðri meðferð, umhirðu og aðbúnaði. Leitast skal við að þau geti lifað í samræmi við sitt eðlilega atferli eins og framast er kostur. Í reglugerðinni koma fram lágmarkskröfur um einstök atriði.

 1. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari hafa eftirtalin orð merkingu sem hér segir:

 1. Dýraaðstaða sveitarfélags: Aðstaða til að vista handsömuð dýr á ábyrgð sveitarfélags.
 2. Dýraathvarf: Starfsemi þar sem tekið er á móti heimilislausum dýrum sem dvelja þar þangað til þeim er miðlað á nýtt heimili eða þau eru aflífuð.
 3. Dýradaggæsla: Starfsemi þar sem dýra er gætt að degi til, þ.m.t. þegar umráðamenn þeirra eru fjarverandi.
 4. Dýraendurhæfing: Starfsemi þar sem fram fer líkamleg endurhæfing og þjálfun dýra þar sem byggt er upp og þjálfað þol, styrkur og/eða hreyfigeta þeirra.
 5. Dýrahótel: Sólarhringsgæsla dýra í lengri eða skemmri tíma, í atvinnuskyni.
 6. Dýraleiga: Starfsemi sem leigir, lánar út eða notar gæludýr í þjónustu gegn þóknun.
 7. Dýralæknaaðstaða: Hvers konar aðstaða sem er byggð eða standsett í þeim tilgangi að starfrækja heilbrigðisþjónustu fyrir dýr á ábyrgð dýralækna.
 8. Dýramiðlun: Starfsemi hvort sem er í sjálfboðavinnu eða í atvinnuskyni sem tekur við og miðlar heimilislausum dýrum í tímabundna vistun eða heimili.
 9. Dýrasnyrtistofa: Starfsemi þar sem gæludýr eru snyrt, svo sem böðuð og feldur, fjaðrir eða goggur snyrtur eða klær klipptar. Nær ekki til starfsemi sem fellur undir lög nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.
 10. Dýrasýning: Sýning dýra, annarra en skrautfiska, á almannafæri, svo sem í dýra- og skemmtigörðum, á ræktunar- og dýrasýningum og í verslunum og fyrirtækjum. Notkun dýra við gerð auglýsinga, í fjölmiðlum, í kvikmyndum og á leiksýningum, við aðstæður eða umhverfi sem þeim er ekki eðlilegt, eða flokkast ekki undir hefðbundna notkun viðkomandi dýrategundar.
 11. Flutningsbúr: Búr ætlað til tímabundins flutnings milli staða en ekki varanlegrar geymslu.
 12. Gæludýr: Hundar, kettir, skrautfiskar, nagdýr, kanínur og búrfuglar og önnur hryggdýr (að undanskildum svínum, alifuglum, minkum, sauðfé og geitfé, nautgripum og hrossum) sem haldin eru til afþreyingar, félagsskapar og tómstundaiðju, sem og skrautfiskar notaðir í atvinnuskyni, fuglar notaðir til gagns eins og bréfdúfur og þegar hundar og kettir eru haldnir til gagns svo sem hundar í þjónustu lögreglu, tollgæslu og björgunarsveita, varðhundar, smalahundar, veiðihundar, sleðahundar, leitarhundar, blindrahundar, aðrir hjálparhundar og útihúsakettir.
 13. Gæludýraverslun: Öll verslun með gæludýr að staðaldri í atvinnuskyni.
 14. Ósýnilegt rafgerði: Niðurgrafin leiðsla eða önnur tegund af ósýnilegri rafsendingu sem dýr fær í sig t.d. í gegnum hálsól.
 15. Umfangsmikið gæludýrahald: Gæludýrahald í skemmri eða lengri tíma skv. viðauka I.
 16. Umráðamaður: Eigandi dýrs eða annar aðili sem er ábyrgur fyrir umsjá dýrs.
 1. gr.

Opinbert eftirlit.

Ráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari. Matvælastofnun fer með framkvæmd reglugerðarinnar og hefur eftirlit með að ákvæðum hennar sé fylgt.

Umráðamanni gæludýra ber að tryggja gott aðgengi eftirlitsaðila að öllum gæludýrum og öllum þeim svæðum þar sem gæludýr eru haldin.

 1. gr.

Tilkynning.

Umráðamanni dýrahalds, sem talið er upp í viðauka I, ber að tilkynna Matvælastofnun um fyrirhugað dýrahald eigi síðar en þremur mánuðum áður en áætluð starfsemi hefst. Matvælastofnun skal taka út fyrirhugaða starfsemi innan þriggja mánaða frá móttöku tilkynningar. Ef um tímabundna dýrasýningu er að ræða, er nægjanlegt að tilkynning berist Matvælastofnun tveimur vikum áður en fyrirhuguð dýrasýning skal eiga sér stað. Óheimilt er að hefja starfsemi eða halda dýrasýningu áður en staðfesting Matvælastofnunar liggur fyrir um að skilyrði varðandi húsakost, búnað og þekkingu sem sett eru í reglugerð þessari séu uppfyllt.

 1. gr.

Þekking, hæfni og ábyrgð.

Umráðamenn gæludýra skulu afla sér þekkingar á eðli og eiginleikum dýra sem þeir halda til að geta uppfyllt þarfir þeirra.

Umráðamaður tilkynningarskylds dýrahalds og starfsemi skv. viðauka I skal búa yfir nægjanlegri hæfni og þekkingu á viðkomandi dýrategund. Hann skal hafa þekkingu á:

 1. a) Gildandi lögum og reglugerðum.
 2. b) Atferli, eiginleikum og þörfum þeirra dýrategunda sem umráðamaður heldur eða starfar við.
 3. c) Aðbúnaðarkröfum, umhirðu og meðferð viðkomandi dýrategunda.
 4. d) Hreinlæti, þrifum, sótthreinsun og sorpmeðhöndlun sem fyrirbyggja smitsjúkdóma.
 5. e) Réttri fóðrun viðkomandi tegunda.
 6. f) Réttum viðbrögðum við veikindum eða slysum á dýrunum.

Umráðamaður skal jafnframt sjá til þess að annað starfsfólk sem kemur að umönnun dýranna búi yfir nægjanlegri hæfni og þekkingu á viðkomandi sviði skv. a.–f. lið 1. mgr. til að geta í starfi sínu uppfyllt skilyrði reglugerðar þessarar. Menntun eða námskeið sem er grunnur að þekkingu þeirri sem krafist er, skal vera unnt að skjalfesta.

Þeim sem selur eða gefur gæludýr ber skylda að veita þeim sem tekur við dýrinu upplýsingar um heilsufar, aldur dýrsins og eiginleika tegundarinnar. Veita skal viðtakanda leiðbeiningar um rétta meðferð, umhirðu og aðbúnað dýrsins.

Óheimilt er að fela börnum undir 18 ára aldri og ólögráða einstaklingum einum ábyrgð á dýri og skulu forráðamenn þeirra ábyrgir fyrir meðferð og meðhöndlun dýrsins. Ekki má afhenda eða selja ólögráða einstaklingum dýr nema með skriflegu samþykki forráðamanns og er dýrið þá á ábyrgð hans.

 1. gr.

Almenn umhirða.

Gæludýrum skal ætíð sýnd fyllsta nærgætni. Umráðamaður skal taka tillit til ólíkra þarfa hinna ýmsu tegunda og aldursskeiða að því er varðar fóðrun, umhyggju, hreyfingu, félagsskap og hitastig.

Bannað er að beita gæludýr illri meðferð.

Umráðamanni gæludýrs ber skylda til að halda því hreinu. Feldi, fjaðrahami, klóm, goggi og tönnum skal jafnframt halda í heilbrigðu og eðlilegu ástandi.

Umráðamaður gæludýrs skal fylgjast með heilsufari þess og leita til dýralæknis leiki grunur á að það sé veikt eða slasað. Dauð dýr skal tafarlaust fjarlægja frá lifandi dýrum. Gæta skal þess að gæludýr sé í eðlilegum holdum skv. viðauka III.

 1. gr.

Fóður og vatn.

Tryggja skal sérhverju gæludýri daglegan og greiðan aðgang að næringarríku, heilnæmu og óskemmdu fóðri og hreinu og ómenguðu drykkjarvatni. Viðhafa skal hreinlæti við fóðrun og í fóðuraðstöðu gæludýrs. Sérstaka aðgát skal hafa við fóðrun kvendýra með fangi, mjólkandi kvendýra, ungviðis í örum vexti og aldraðra gæludýra.

 1. gr.

Þjálfun, keppni og útbúnaður.

Við þjálfun, keppni, vinnu til gagns og sýningar skal þess gætt að ofbjóða ekki þoli og þrekidýrs. Verja skal dýr fyrir óþarfa áreiti og koma skal í veg fyrir aðstæður sem gætu valdið óþarfa ótta, óþægindum eða skaða. Fyrir vinnu, keppni og sýningar skal gæta þess að dýr hafi hlotið viðeigandi þjálfun og undirbúning. Gæta skal þess að hávaði á keppnis-, vinnu- eða sýningarsvæði dýra fari að jafnaði ekki yfir 65 dB. Ekki skal nota lasburða eða veik dýr, eða dýr sem komin eru að goti eða með mjög ung afkvæmi við þjálfun, keppni, sýningu eða vinnu til gagns.

Óheimilt er að nota hvers konar tæki eða tól, eða beita þau dýr sem þjálfa skal, neinum þeim aðferðum eða þvingunum, sem valda þeim sársauka eða hræðslu. Notkun, sala og dreifing á hvers konar útbúnaði sem gefa dýri rafstuð eða valda verulegum óþægindum er bönnuð. Óheimilt er að nota ósýnilegt rafgerði fyrir gæludýr. Notkun, sala og dreifing á hálsólum með gadda eða hvassa kanta innan á ól er bönnuð. Hálsól skal vera úr slíku efni og þannig gerð að hún geti ekki herst að hálsi eða skaðað dýrið á annan hátt.

 1. gr.

Aðgerðir.

Við sársaukafulla aðgerð eða meðhöndlun skal ávallt deyfa eða svæfa gæludýr og veita þeim verkjastillandi meðhöndlun.

Að undanþegnum ófrjósemisaðgerðum og geldingum gæludýra eru skurðaðgerðir til að fjarlægja líkamshluta ekki leyfðar nema af læknisfræðilegum ástæðum. Skurðaðgerðir í tilgangi fegrunar, svo sem að fjarlægja spora og stýfa eyru eða rófu/skott, eru bannaðar.

 1. gr.

Ræktun og æxlun.

Til undaneldis skulu aðeins notuð heilbrigð dýr í góðu líkamlegu ástandi. Dýr skulu ekki notuð til undaneldis fyrr en þau hafa náð til þess líkamlegum þroska. Ekki skal ala undan dýrum sem þekkt er að eru haldin arfgengum sjúkdómum eða með alvarlega skap- eða hegðunargalla sem geta haft áhrif á heilbrigði afkvæma eða skert eðlilegar lífslíkur og/eða lífsgæði þeirra. Ekki skal heldur ala undan dýrum sem vitað er að geti ekki fjölgað sér á eðlilegan hátt.

 1. gr.

Merking og skráning.

Umráðamanni hunda, katta og kanína er skylt að auðkenna öll dýr innan 12 vikna aldurs með einstaklingsörmerki skv. alþjóðlegum ISO-staðli. Samtímis skal örmerkjanúmerið skráð í miðlægan gagnagrunn sem er samþykktur eða rekinn af Matvælastofnun. Umráðamanni ber að tryggja að upplýsingarnar séu réttar á hverjum tíma. Umráðamaður ber allan kostnað af merkingu og skráningu dýra sinna.

Hundar og kettir sem fara út skulu frá fjögurra mánaða aldri bera hálsól með merki þar sem fram koma eigendaupplýsingar svo sem nafn og símanúmer umráðamanns.

 1. gr.

Handsömun.

Strax og umráðamaður dýrs verður þess var að gæludýr sleppur úr haldi skal hann gera ráðstafanir til að finna dýrið og handsama það.

Við handsömun hunda er leyfilegt að nota föngunarbúr, háfa og þar til gerðar föngunarstangir, en einungis ef sá sem fangar hefur hlotið viðurkennda þjálfun að mati Matvælastofnunar, við notkun slíkra stanga. Vitja skal búranna á minnst tólf klst. fresti. Ef ástæða er til að ætla að hitastig utandyra fari undir 5°C eða yfir 20°C skal vitja búranna á minnst þriggja klst. fresti.

Ávallt skal, eins fljótt og auðið er, leitað eftir örmerki dýrs sem fangað hefur verið. Ef ekki næst í umráðamann eða dýrið er ómerkt skal dýr án tafar flutt í dýraaðstöðu sveitarfélags.

 

13. gr.

Flutningar.

Þeir sem flytja gæludýr skulu tryggja að ferðamáti og staðsetning dýrs í farartæki misbjóði hvorki heilsu þess né þoli meðan á ferð stendur og tryggt sé að dýr valdi ekki hættuástandi við akstur. Hafa skal eftirlit með líðan dýrs meðan á ferð stendur til að tryggja velferð þess.

Óheimilt er að flytja veik eða særð gæludýr eða gæludýr komin að goti, nema verið sé að koma dýrinu til og frá dýralækni eða koma dýrinu til bjargar með öðrum hætti.

Sé gæludýr flutt í flutningsbúri skal það vera með heilum botni og vera það rúmt að gæludýrið geti staðið í því, snúið sér við, legið og hvílst. Í botni búrsins skal vera mjúkt og rakadrægt undirlag til að liggja á. Á búrinu skulu vera göt eða rimlar sem tryggja góða loftræstingu og útsýni.

Dvöl hunda, katta og kanína í farartæki á ferð skal ekki vera lengri en sex klukkutímar í senn án hvíldar, en sé ferðatíminn lengri skal veita þeim aðgang að fersku vatni, tækifæri til hreyfingar og að sinna nauðsynlegum þörfum sínum. Fóðrun skal vera minnst á 24 klst. fresti, en oftar ef um ungviði eða dýr með aukna fóðurþörf er að ræða.

Óheimilt er að flytja gæludýr í farangursrými bifreiðar nema hægt sé að fylgjast með líðan þess úr farþegarými meðan á ferð stendur.

Á ferðum með skipum eða bílaferjum sem vara lengur en sex klst. ber að geyma dýrið í búri þar sem umráðamaður getur fylgst með því. Búrið þarf að uppfylla skilyrði sem fram koma í 3. mgr. Ef ferð mun vara lengur en 24 klst. þarf flutningsaðili að tryggja að viðbragðsáætlun sé til staðar ef upp koma alvarleg veikindi eða slys. Á styttri ferðum á sjó skal tryggja öryggi gæludýrs þannig að það geti ekki fallið útbyrðis og sé varið fyrir kulda og bleytu.

Við flutning á gæludýrum í flugvélum skulu gilda reglur samkvæmt 7. lið viðauka II.

Aðeins í undantekningartilvikum og í samráði við dýralækni er heimilt að nota róandi/kvíðastillandi lyf fyrir flutning. Skulu þá fylgja dýrinu skriflegar upplýsingar um tegund lyfs, magn og tímasetningu inngjafar.

 1. gr.

Smitvarnir.

Umráðamanni gæludýrs ber að fyrirbyggja mögulegt smit sjúkdóma eða sníkjudýra. Ef smit kemur upp skal umráðamaður án tafar leita meðferðar fyrir dýr og grípa til aðgerða til að hindra smitdreifingu. Matvælastofnun er heimilt að setja nánari kröfur um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn sjúkdómum svo sem bólusetningar eða lyfjameðhöndlanir ef þörf krefur.

15. gr.

Aflífun.

Dýralæknum er einum heimilt að aflífa gæludýr, nema í neyðartilfellum þegar fullreynt er að ekki næst í dýralækni og ætla má að sjúkdómur dýrs eða meiðsl valdi dýrinu óbærilegum kvölum eða séu banvæn.

Öðrum er þó heimilt að aflífa skrautfiska með koltvísýringi, eða öðru sambærilegu efni, enda hafi þeir aflað sér viðurkenndar þjálfunar að mati Matvælastofnunar um hvernig slík aflífun skal fara fram.

 1. gr.

Aðbúnaður.

Aðbúnaður og aðstaða gæludýra skal hæfa stærð dýrs og hverri tegund með tilliti til hvíldar og hreyfingar. Byggingar, girðingar, búr og aðrar vistarverur skulu vera þannig að vel fari um dýr allt árið um kring. Daglegar vistarverur skulu vera hreinar, hæfilega hlýjar, þurrar, bjartar, vel loftræstar og lausar við dragsúg. Rými dýra skal taka mið af fjölda dýra samkvæmt viðauka II.

Óheimilt er að loka dýr í litlu og/eða gluggalausu rými. Inniaðstaða skal vera vel loftræst og einangruð til að geta haldið hitastigi og loftraka sem hæfir tegundinni.

Gæludýr skulu njóta dagsbirtu eða lýsingar í minnst átta klst. á dag. Stöðugur hávaði skal að jafnaði ekki fara yfir 65 dB.

 1. gr.

Slysavarnir.

Umráðamaður skal tryggja eins og kostur er að vistarverur og umhverfi gæludýrs sé þannig að ekki sé slysahætta fyrir hendi eða að óvinveitt dýr geti ráðist að þeim.

 1. gr.

Aðbúnaður og umönnun hunda.

Umráðamaður hunds skal stuðla að réttri meðferð í samræmi við eðli hans, eiginleika og aldur og ofgera honum ekki á neinn hátt. Einnig þarf að sinna umhverfisþjálfun og félagslegri þörf hans við manninn. Sérhver hundur skal hafa tækifæri til að komast út daglega til að geta sinnt eðlilegum þörfum sínum og fá þá hreyfingu sem er nauðsynleg tegundinni.

Aðbúnaður og aðstaða hunds skal hæfa stærð hans, tegund og aldri með tilliti til hvíldar og hreyfingar. Sé hundur hafður í búri eða stíu skal gætt að lágmarkskröfum skv. 1. lið viðauka II.

Tryggja skal hundi aðgengilegt svefn- og hvíldarpláss sem er laust við raka, dragsúg og hávaða.

Undirlag skal vera þurrt, hreint og mjúkt. Rýmið skal taka mið af fjölda hunda og allir skulu geta legið í legurými samtímis í náttúrulegri stöðu, t.d. flatri hliðarlegu.

Ekki skal skilja hund eftir einan og eftirlitslausan að jafnaði lengur en átta klst. í senn nema í undantekningartilvikum. Aðeins er heimilt að tjóðra hund ef nauðsyn ber til og þá einungis undir eftirliti í skamman tíma og þannig að hundinum stafi ekki hætta af.

Fóðra skal hund minnst einu sinni á dag. Ungviði, hunda með aukna orkuþörf og mjólkandi tíkur skal fóðra oftar. Tryggja skal að hundur sé í eðlilegum holdum miðað við tegundina skv. A-lið viðauka III.

 1. gr.

Pörun og undaneldi.

Óheimilt er að nota tík til undaneldis nema hún sé heilbrigð og hafi náð til þess líkamlegum þroska, að jafnaði við annað lóðatímabil og ekki yngri en 18 mánaða. Tryggja skal að tík fái nægjanlega hvíld milli gota, að jafnaði 1-2 lóðatímabil. Tík sem hefur tvisvar gengist undir keisaraskurð má ekki nota áfram til undaneldis.

Óheimilt er að nota hund í ræktun sem þekkt er að haldinn sé arfgengum sjúkdómi, með alvarlega skap- eða hegðunargalla eða aðra eiginleika sem haft geta áhrif á heilbrigði afkvæma, skert eðlilegar lífslíkur og/eða lífsgæði þeirra.

Óheimilt er að þvinga fram pörun þar sem tíkin sýnir augljós merki um óþægindi eða hræðslu.

 1. gr.

Hvolpafullar eða mjólkandi tíkur og ungviði.

Hvolpafullri tík skal útbúa viðhlítandi hvíldarpláss í rólegu umhverfi sem hún getur lagað sig að tímanlega fyrir got. Skylt er að fylgjast náið með sérhverri hvolpafullri tík sem komin er að goti. Þá skal hafa reglulegt eftirlit yfir daginn með nýgotinni tík fyrstu tvær vikurnar eftir got og skal hún ásamt hvolpum sínum njóta næðis þann tíma.

Mjólkandi tíkur skulu hafa aðgang að legurými sem er óaðgengilegt fyrir hvolpana. Í undantekningartilfellum og þá aðeins vegna óviðráðanlegra aðstæðna, er heimilt að aðskilja hvolp frá tík áður en hann hefur náð átta vikna aldri.

Umráðamaður skal sinna hvolpi daglega til að venja hann við samskipti við manninn og fjölbreytt umhverfi.

Hvolpur yngri en 16 vikna skal ekki skilinn eftir einn og án eftirlits lengur en þrjár klst. í senn.

 1. gr.

Flutningur og aðbúnaður hunda í flutningstæki.

1. Óheimilt er að geyma hund í flutningsbúri eða í flutningstæki, nema í eftirfarandi tilvikum:

Á hundasýningum, hundakeppnum og hundaprófum, vinnu til gagns og við þjálfun fyrir framangreind tilvik. Útsýni úr búri skal hindrað frá tveimur hliðum. Hundur skal viðraður minnst á þriggja klst. fresti yfir daginn. Á keppnis- og þjálfunarstöðum eða á ferðalögum er heimilt að geyma hund í búri eða lausan í flutningstæki yfir nótt ef hitastig leyfir skv. 2.mgr. en að hámarki í átta klst.

 1. Við flutning milli staða skal dvöl hunds í búri í kyrrstæðu ökutæki ekki vara lengur en þrjár klst. nema ef um er að ræða tilvik skv. 1. tl. Að öðru leyti gilda skilyrði skv. 13. gr.
 1. Tímabundið þegar sérstakar aðstæður krefjast þess, en þó aldrei lengur en þrjár klst.

Hund skal ekki skilja eftir í eða á flutningstæki án eftirlits ef hitastig getur farið yfir +25ºC eða undir -5ºC. Aldrei má skilja hund einan eftir í flutningstæki ef hann sýnir merki um vanlíðan.

Óheimilt er að flytja hund á opnum palli flutningstækis á þjóðvegum og í þéttbýli, nema þá stutta vegalengd.

Við flutning skal hundur vera í búri með tryggum festingum eða hundurinn bundinn með bringubeisli sem er tryggilega fest í ökutæki. Hundategundir skv. 1. mgr. 23. gr. er heimilt

að flytja lengri vegalengd á palli ökutækis ef þeir eru undir reglulegu eftirliti og hafðir í búrum sem veita gott skjól. Búrin skulu uppfylla almennar kröfur um flutningsbúr skv. 13. gr.

 1. gr.

Útivist og útigerði.

Hundur í útigerði skal hafa aðgang að svæði í útigerði sem veitir birtu, skugga og skjól fyrirvindi og úrkomu. Útigerði skulu uppfylla lágmarkskröfur sem koma fram í 1.2 tl. 1. liðar viðauka II.

Undirlag í útigerði skal vera þannig að þar safnist ekki vatn eða for og dýr geti óhindrað gengið um.

Ef ekki er beinn aðgangur að innirými skal vera legurými í útigerði, sem helst þurrt í úrkomu. Legurými í útigerði skal vera upphækkað og nógu stórt þannig að hundur geti legið í náttúrulegri stöðu, t.d. flatri hliðarlegu og ef fleiri en einn hundur er í útigerði skulu þeir allir geta nýtt legurýmisamtímis.

Óheimilt er að nota ósýnilegt og sýnilegt rafgerði í útigerðum, þó er heimilt að nota sýnilegt rafgerði ofan á útigerði sem öryggisbúnað.

 1. gr.

Hundar sem eingöngu eru haldnir utanhúss.

Einungis hundategundir sem eru til þess ræktaðar og hafa til þess líkamlegt atgervi og hafa fengið hæfilega aðlögun svo sem hreinræktaðir sleðahundar eða blendingar af slíkum tegundum sem eru með fullþróaðan vetrarfeld, þ.e. þéttan undirfeld og vatnsfrávísandi/vatnsfráhrindandi yfirfeld ásamt þéttum feldi undir bógum, bringu, kvið og rakkar einnig á forhúð og pung, má halda utanhússallan sólarhringinn. Æskilegt er að holdafar hunds sem eingöngu er haldinn utanhúss sé í holdastuðli 5 samkvæmt A-lið viðauka III. Óheimilt er að halda hund eingöngu utanhúss sé hann í holdastuðli 3 eða lægra. Útigerði fyrir hund sem eingöngu er haldinn utanhúss skal að lágmarki uppfylla sömu stærðarkröfur og innibúr og stíur skv. 1.1 tl. 1. liðar í viðauka II. Hund skal viðra utan útigerðis minnst einu sinni á sólarhring, til að tryggja hæfilega hreyfingu og félagslega og umhverfislega örvun.

Hundur sem eingöngu er haldinn utanhúss skal hafa aðgang að hundahúsi þar sem hann er haldinn að staðaldri sem veitir skjól fyrir vindi, sól og úrkomu. Gólfflötur hundahúss skal vera upphækkaður frá jörðu og legurými hundsins haldið þurru og mjúku. Stærð hundahúss skal uppfylla lágmarkskröfur skv. 1.3 tl. 1. liðar viðauka II.

Aðeins er heimilt að tjóðra hund ef nauðsyn ber til og þá einungis undir eftirliti í skamman tíma.

Þó er heimilt að tjóðra þá hunda sem uppfylla skilyrði 1. mgr., sem eru eingöngu eða aðallega notaðir sem sleðahundar og eru til skamms tíma haldnir á öðru svæði en þeir eru haldnir að staðaldri.

Þó skal þeim tryggt skjól með þurru legurými. Tjóðrun má þó aldrei vara lengur en 3 mánuði ársins samanlagt. Tjóðrun skal framkvæmd með varanlegu efni, svo sem keðjum sem ekki skaða hundinn.

Keðjurnar verða að vera af þyngd og gerð sem hæfir stærð hundsins. Lengd keðjunnar skal vera minnst 1,8 m og ávallt yfir yfirborði eða snjó á hverjum tíma og með snúningslið við festingu og hálsól sem leyfir 360 gráðu snúning. Bannað er að nota hálsól úr járni eða hálsól sem getur hert að hálsi hundsins. Hundur sem er tjóðraður skal leysa frá keðjunum daglega og í að minnsta kosti 10klst. á viku, til að tryggja hæfilega hreyfingu og félagslega og umhverfislega örvun.

Tíkur með hvolpa og hvolpa undir 6 mánaða aldri skal ekki halda einungis utanhúss yfir vetrarmánuðina þ.e. frá 31. október til 30. apríl.

 1. gr.

Aðbúnaður.

Búr, gerði og stíur skulu vera þannig útbúin að dýr geti ekki sloppið út. Ekki skal hafa dýr saman ef hætta er á að þau valdi hvert öðru skaða. Ekki skal hafa saman í sama rými eða hóp fleiri fullvaxta dýr en 10 hunda eða 15 ketti. Taka skal tillit til aldurs og tegundar. Stærð og gerð vistarvera skulu uppfylla lágmarkskröfur fyrir viðkomandi dýrategund skv. viðauka II.

Vistarverum dýra skal haldið þurrum og hreinum. Loftræsting skal vera góð í vistarverum dýra og koma skal í veg fyrir dragsúg.

Lofthita og raka skal haldið sem næst kjörstigi fyrir hverja dýrategund. Rakastig skal að jafnaði vera á bilinu 40-70%. Stöðugur hávaði í vistarverum dýra skal vera innan við 65 dB þannig að hann hafi ekki skaðleg áhrif á heilsu dýra. Spendýr og fuglar skulu njóta dagsbirtu á því tímabili sem birtugætir.

Sérstök aðstaða skal vera fyrir þau dýr er kunna að veikjast eða eru lasburða, sem og fyrir lóðatíkur og breimalæður. Jafnframt skal vera aðstaða til einfaldrar skoðunar og umhirðu, böðunar og feldhirðu þeirra dýra er þess gætu þurft.

Sé aðstaða fyrir óskiladýr skal hún vera í sérrými og aðskilin frá vistarverum annarra dýra.

Geyma skal fóður þannig að gæði þess og heilnæmi haldist.

Fyrir hunda skal vera sér útigerði við hvert búr eða stíu. Matvælastofnun getur þó samþykkt annað fyrirkomulag svo fremi sem slíkt tryggi útiveru dýra. Útigerði skulu vera á skjólgóðum og björtum stað. Útigerðum skal haldið þrifalegum. Í útigerðum skal hafa hrein legurými og koma í veg fyrir að yfirborð þeirra vaðist upp.

 1. gr.

Almenn umhirða.

Hundar skulu hafa aðgang að útigerði og/eða viðraðir utan útigerða minnst einu sinni á dag til að tryggja hæfilega hreyfingu og félagslega og umhverfislega örvun í samræmi við þörf hverrar tegundar.

Leiki grunur á að dýr sé veikt eða lasburða skal umráðamaður tryggja að dýr fái viðhlítandi skoðun og meðferð, eða aflífun hjá dýralækni.

 1. gr.

Skráningar og afhending/sala.

Rekstraraðili eða umráðamaður á hans vegum skal hafa reglulegt eftirlit með þeim dýrum sem eru í umsjá hans. Eftirliti skal haga eftir aldri dýra og ástandi. Halda skal skrá um sérhvert dýr í aðstöðunni þar sem fram koma upplýsingar um tegund, kyn, aldur, lit og varanlegt auðkenni, upplýsingar um heilsufar, allar lyfjameðferðir sem og fyrirbyggjandi aðgerðir, fóðrun og daglega útiveru og viðrun, umhverfisþjálfun, pörun, afkvæmi og fjölda þeirra og annað er viðkemur velferð dýrsins.

Ef dýr deyr eða það er aflífað skal skrá ástæðu þess ef þekkt er. Eftirlitsaðili skal hafa aðgang að skrám sem halda skal skv. 1. mgr. og skulu þær varðveittar í minnst þrjú ár.

Öllum dýrum, sem eru seld eða miðlað til nýrra umráðamanna, skulu fylgja upplýsingar um eiginleika viðkomandi dýrategundar, þarfir hennar og umhirðu, aldur dýrs, heilsufar, lyfjameðferðir og upplýsingar um fyrirbyggjandi aðgerðir. Ef þekkt er að upp hafa komið sjúkdómar eða smit í nánasta umhverfi dýrs er gætu varðað heilbrigði þess, er skylt að upplýsa um slíkt til umráðamanns og hvernig ber að bregðast við. Upplýsingarnar skulu vera skriflegar, eða á rafrænu formi á netsíðu ef viðtakandi staðfestir að hann geti nýtt sér rafrænt form.

 1. gr.

Smitvarnir.

Aðstaða og efnisval í innréttingum skal vera þannig hannað að þrif og sótthreinsun sé auðveld og smithætta af sjúkdómum eða sníkjudýrum milli dýra sé takmörkuð. Þrífa skal vistarverur dýra, þ.m.t. útigerði, daglega og sótthreinsa reglulega. Skrifleg lýsing á verklagi við þrif og sótthreinsun þar sem fram kemur m.a. tíðni og hvaða aðferðir og efni eru notuð skal vera til staðar í aðstöðunni. Þrif og sótthreinsun skal skráð. Ekki má nota efni sem geta valdið dýrum vanlíðan eða heilsutjóni. Viðbragðsáætlun skal liggja fyrir ef upp kemur grunur um smitsjúkdóm.

 1. gr.

Slysavarnir.

Allur útbúnaður skal vera þannig gerður að dýr slasi sig ekki eða að hann valdi þeim heilsutjóni.

Gólf skulu ekki vera hál. Húsnæði þar sem dýr eru vistuð skal búið virkum eldvörnum svo sem reykskynjara og slökkvitæki. Matvælastofnun getur gert kröfu um að vistarverur dýra þar sem stunduð er tilkynningarskyld starfsemi eða dýrahald séu búnar sjálfvirkum viðvörunarbúnaði tengdum loftræstingu, hitastigi, vatnsflæði eða eldvörnum, ef það er nauðsynlegt til að tryggja öryggi dýranna.

Tryggja skal að dýr í gæslu valdi ekki hvert öðru skaða. Gerði, stíur og búr skulu þannig útbúin að dýr geti ekki sloppið og óvinveitt dýr komist inn.

 1. gr.

Dýraendurhæfing, dýralæknaaðstaða og dýrasnyrtistofur.

Tryggja skal að húsnæði henti starfsemi sem þar fer fram og öryggi þeirra dýra sem ætlað er að þiggja þjónustu. Aðstaða skal vera hönnuð þannig að lágmarka megi áreiti og álag á dýrin á bið- og þjónustusvæði og að dýr sem komið er með til þjónustu geti ekki valdið hvert öðru skaða. Skrá skal tilfelli ef dýr skaðast eða dýr deyr óvænt undir meðhöndlun. Skrárnar skal varðveita í minnst þrjú ár og skulu þær vera aðgengilegar eftirlitsaðilum.

Aðstaða og efnisval í innréttingum skal eftir því sem við á uppfylla kröfur samkvæmt 39. gr.

Hafa skal eftirlit með gæludýri sem þjálfað er á vatnsbretti eða í sundlaug og gæta skal sérstakrasmitvarna. Skylt er að halda skrá yfir notkun slíkrar þjálfunaraðstöðu eða þjálfunartækja, þar sem skráð er grófhreinsun vatnsins, með klórun eða annarri efnameðhöndlun til að halda bakteríuvexti í lágmarki. Skráin skal varðveitt í minnst þrjú ár og vera aðgengileg eftirlitsaðila.

 1. gr.

Dýraleiga.

Rekstraraðili eða umráðamaður á hans vegum skal hafa náið og reglulegt eftirlit með þeim dýrum sem eru í umsjá hans. Eftirliti skal hagað eftir aldri og ástandi dýrs. Halda skal skrá um sérhvert dýr í aðstöðunni þar sem fram koma upplýsingar um tegund, kyn, fæðingardag, lit og varanlegt auðkenni ásamt heilsufarsupplýsingum. Halda skal skrá um sérhvert dýr í aðstöðunni, um heilsufar, allar lyfjameðferðir og fyrirbyggjandi aðgerðir, fóðrun, pörun, afkvæmi og annað er viðkemur velferð dýrsins. Halda skal skrá yfir daglega tímalengd útiveru, gerð og tímalengd hreyfingar, notkun og/eða útleigu hvers dags.

Eftirlitsaðili skal hafa aðgang að skrám sem halda skal skv. 1. mgr. og skulu þær varðveittar í minnst þrjú ár.

 1. gr.

Dýrasýningar.

Gæludýr sem taka þátt í hvers konar dýrasýningu skulu hafa hlotið viðeigandi þjálfun til að koma í veg fyrir ótta og streitu. Ef dýr sýnir merki um viðvarandi hræðslu ber að taka það úr sýningu. Óheimilt er að nota dýr í sýningu valdi það dýrinu hræðslu eða sársauka.

Óheimilt er að sýna dýr sem er komið nálægt goti eða með afkvæmi yngra en 3ja vikna ef velferð dýrsins eða afkvæmisins er ógnað með sýningu þess. Þá skal þess gætt við sýningu slíkra dýra að þau komist í eða geti verið í skjóli frá áreiti á sýningartíma þegar þeim hentar. Ekki er heimilt að hafa dýr til sýnis í verslunargluggum, verslunarmiðstöðvum eða á öðrum sambærilegum stöðum ef það getur valdið ótta eða streitu hjá dýrunum.

 1. gr.

Gæludýraverslanir.

Staðsetja skal ólíkar tegundir dýra í gæludýraverslun þannig að staðsetningin valdi þeim sem minnstu álagi og streitu. Tryggja skal að dýr geti matast, hvílst og gert þarfir sínar. Rúmgóðséraðstaða, aðskilin frá verslunarrými, skal vera fyrir dýr komin að goti og með ung afkvæmi. Leiki grunur á að dýr sé veikt eða lasburða skal slíkt dýr einnig vera í séraðstöðu aðskilið frá verslunarrými og öðrum dýrum. Skal umráðamaður með dýrahaldi verslunarinnar tryggja að dýr fái viðhlítandi skoðun og meðferð, eða aflífun hjá dýralækni.

Líta skal til dýra minnst einu sinni á sólarhring þá daga sem verslunin er lokuð.

Gæludýraverslunum er óheimilt að sýna, selja eða afhenda hunda eða ketti. Ennfremur er þeim óheimilt að sýna, selja eða afhenda lasburða eða veik dýr, dýr komin að goti eða með mjög ungafkvæmi.

Nr. 80  21. janúar 2016

ATH: Þetta er aðeins úrdráttur – reglugerðin í heild:

http://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/atvinnuvega–og-nyskopunarraduneyti/nr/0080-2016