Mark Watson og „Dagur íslenska fjárhundsins“

Þórhildur Bjartmarz:

Að láta drauma sína rætast og gera þá að veruleika á þann hátt sem Mark Watson gerði hér á landi er einstakt.  Að sjá örfáa hunda af fágætu hundakyni í fjarlægu landi og ákveða svo að bjarga kyninu frá því að deyja út segir margt um einstakan mann. Á árunum 1955 – 1960 hefur ekki verið auðvelt að ferðast til afskekktra staða á Íslandi en með ærnum tilkostnaði og brennandi áhuga hóf hann leit að hundum með ákveðnu útliti. Má ætla að margir bændur hafi undrast við að sjá þennan breska heiðursmann standa prúðbúinn á bæjarhlaðinu sem líklega hefur beðið kurteisislega um leyfi til að skoða hundana á bænum.

Í þessari samantekt segir frá manninum sem bjargaði íslenska fjárhundakyninu frá útrýmingu. Þeim sama og veitti Hundavinafélaginu ómetanlegan stuðning í baráttumálum sínum. Mannsins sem hvatti til stofnunar og var heiðursstofnfélagi Hundaræktarfélags Íslands. Ekki nóg með það hann studdi baráttu dýraverndunarsinna á Íslandi, gaf þjóðinni dýraspítala og ómetanlegan menningararf.

Sjálf kynntist ég aldrei Mark Watson og þekki því ekki í raun meginhluta þeirra málefna sem eru í þessari samantekt. Því þykir mér betra að láta samtímamenn hans segja frá og birta frásagnir þeirra eins og þær eru skráðar í gögnum frekar en að túlka þær.

Anna Snorradóttir var góður vinur Mark Watson. Hún gaf Byggðasafni Skagfirðinga kver árið 1989 sem síðar var endurútgefið 2006, í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá fæðingu þessa mikla velgjörðarmanns Skagfirðinga og Íslendinga. Kverið heitir  „Mark Watson og Glaumbær“. Ég vil þakka Sigríði Sigurðardóttur, safnstjóra fyrir að veita mér heimild til að nota efnið en það er aðallega persónulýsingin og svo heimildir um gjafir sem ég nota úr kverinu.

Hilmar Foss var einnig góður vinur Watson. Hilmar skrifaði ítarlega grein um Watson í Árbók Landsbókasafns Íslands árið 1979, ég hef notað nokkuð efni úr þeirri ágætu grein og einnig úr blaðagreinum sem Hilmar hefur skrifað.

Aðrar heimildir eru úr Dýraverndaranum og ýmsum dagblöðum. Í gegnum tíðina hefur mér fundist vanta aðgengilegt efni um allt það sem Mark Watson áorkaði hér á landi.  Ég vona að þessi samantekt gefi góða lýsingu á því.

Á aðalfundi Deildar íslenska fjárhundsins hef ég gert að tillögu minni að fæðingardagur Mark Watson 18. júlí verði gerður að „Degi íslenska fjárhundsins“. Í júlí síðastliðunum ítrekaði ég þessa tillögu í erindi til stjórnar díf og fór þess á leit við deildina að hún kynnti tillöguna á alþjóðlegri ráðsefnu um íslenska fjárhundinn sem haldin var hér á landi í október.

Vonandi verður þessi samantekt til að auka skilning á því hvers vegna ég tel okkur skylt að halda í minningu hugsjónarmannsins Mark Watson. Að mínu mati er ekki hægt að gera það á betri hátt en að gera fæðingardag hans að árlegum viðburði þar sem við vekjum athygli á sögu og tilurð íslenska fjárhundsins.

 

Um manninn

Mark Watson var fæddur 18. júlí 1906 í Bretlandi. Fjölskylda hans var auðug átti búgarð í Skotlandi, sumarbústað í Austurríki og bjó glæsilega í Lundúnum. Mark Watson var vel menntaður, hann nam við bestu skóla Bretlands og einnig á meginlandinu, einkum í París. Hann talaði reiprennandi frönsku og allgóða þýsku. Fyrir heimsstyrjöldina var hann í utanríkisþjónustu lands síns, bæði í París og Washington. Í stríðinu var Watson í flugher Breta. Hann ferðaðist víða um heim og hafði mikinn áhuga á listviðburðum af margvíslegu tagi.

Hilmar Foss lýsti manninum í grein í Morgunblaðinu 1959: Watson er látlaus maður og alúðlegur, notar ekki aðalsmannstitil sinn og lifir hóflegu lífi bóndans og grúskarans.

Watson segir frá í sama viðtali: Ég fékk áhuga á Íslandi þegar í æsku og hefur það jafnan síðan verið draumaland mitt. Mig dreymdi um ævintýri á Íslandi, fegurð þess og forna frægð og tók að skrifa  póstmeistaranum í Reykjavík, en hann var svo vænn að senda mér ýmis póstkort, sem urðu vísir að fyrsta safni mínu af myndum frá Íslandi.

Úr lesbók Morgunblaðsins 1958:

Mark Watson kom í sína fyrstu ferð til Íslands sumarið 1937, hann tók fjölda ljósmynda og hafði sýningu á þeim í Lundúnum.

Árið eftir kom Watson aftur til Íslands og ferðaðist þá á hestum umhverfis landið. Á þessu ferðalagi tók hann ljósmyndir og kvikmynd með litum. Þessi kvikmynd og nokkrar af ljósmyndum hans voru sýndar á íslenzku deildinni á heimssýningunni í New York 1939.

 

Menning:

Mark Watson var Íslendingum örlátur:

Þjóðminjasafninu gaf hann á annað hundrað vatnslitamynda eftir Collingwood, breskan málara sem ferðaðist um Ísland í lok nítjándu aldar, auk annarra listaverka sem hann færði safninu að gjöf.

Hilmar Foss skrifar í Árbók Landsbókasafns Íslands 1979:

Forseti Íslands, dr. Kristján Eldjárn, lét þau orð falla þegar hann var þjóðminjavörður að myndasafn fornleifa- og fagurfræðingsins Williams Gershoms Collingwoods, sem Watson gaf Þjóðminjasafni Íslands, yrði aldrei metið til fjár.

Það var dótturdóttir Collingwoods sem gekk fram í því með Watson að hafa uppi á Íslandsmyndum afa síns. Var það víst ekkert áhlaupaverk, þar sem þær höfðu legið gleymdar í geymslu áratugum saman, að því er bezt er vitað. Watson lét setja 134 þeirra upp á karton, áletra og innramma á hinn smekklegasta hátt, lánaði fyrst Þjóðminasafni til sýningahalds, en gaf því síðar 123 þeirra og arfleiddi það loks að þeim 11, sem hann átti eftir. Auk þess gaf hann safninu 28 óinnrammaðar myndir og skissur Collingwoods.

Verðmætt bókasafn eða 1310 verk gaf hann til Landsbókasafnsins þar á meðal er að finna heildarútgáfu verka Williams Morris, 24 bindi, sem kom út á árunum 1910 – 1915. Þetta er stórmerkt bókasafn, en Watson hafði um langan aldur safnað bókum um Ísland, auglýst víða um heim eftir sjaldgæfum bókum og ekkert til sparað.

Gjafmildi Watsons í garð Íslendinga kom einkum í ljós, er hann kom fyrst að Glaumbæ í Skagafirði. Fékk hann svo mikinn áhuga á að hinum glæsilegu torfbæjarhúsum yrði viðhaldið í upprunalegum stíl að hann gaf þegar ríflega fjárhæð til að svo mætti verða.

Í desember 1938 var Mark Watson gerður að heiðursfélaga í Hinu íslenzka fornleifafélagi.

Mark Watson var heiðraður með Stórriddarakrossi með stjörnu í apríl 1965.

 

Íslensku fjárhundarnir:

Mark Watson var hundamaður. Hann var einn fyrstur manna til að gera sér grein fyrir að íslenska fjárhundakynið var að deyja út. Hann ákvað að gera allt sem hann gat til að bjarga kyninu. Hann (keypti og) lét safna saman hundum sem fundust með útliti íslenskra fjárhunda. Hundarnir voru síðar sendir til Kaliforníu þar sem Mark Watson bjó um árabil.

Mark Watson bjó í Bandaríkjunum frá 1946 – 1958, hann verzlaði með gömul húsgögn í New York og rak síðan búgarðinn Wensum kennel í Nicasio í Kaliforniu. Mark Watson keypti einnig hesta á Íslandi sem hann lét flytja til Bandaríkjanna.

Í Öldinni okkar frá árinu 1955 er skrifað um útflutninginn:

Tveir hundar af íslenzku kyni voru fluttir til í Kaliforníu. Þetta voru þau Brana af Jökuldal og Bósi úr Skagafirði. (hundarnir voru sendir úr landi 29. nóv)

Í Öldinni okkar frá árinu 1956 segir frá leit af íslenzkum fjárhundum:

Í dag hefja tveir útlendingar og íslenzkur leiðsögumaður leit af fjárhundum með hinum gömlu og góðu íslensku einkennum.

Mark Watson greip til þess ráðs að senda bréf til nokkura hreppsstjóra til að hjálpa við leitina að hundum. Í einu Reykjavíkurblaðanna segir svo:

Brezkur maður, búsettur vestanhafs, reynir að hreinrækta ísl. hundakyn.

Fyrir nokkrum dögum barst hreppstjórum í flestum hreppum á Norður- og Austurlandi dularfullt bréf. Í því voru tvær fallegar litmyndir af bústnum og sællegum hundum, með uppbrett eyru og hringaða rófu, og teiknimynd. Teikningin var af íslenzkum hundum, úr gamalli kennslubók, sem nú er fyrir löngu hætt að sjást.

Útflutningur íslensku fjárhundanna vakti mikla athygli en ekki er hægt að sjá viðbrögð Íslendinga á þessum árum til að bjarga kyninu. Á árunum 1956 – 1960  birtust margar og ítarlegar greinar um útflutninginn í eftirtöldum blöðum:

1956 Dagur: Verða síðustu leifar af gömlum stofni fluttar vestur um haf?

1957 Vísir: Íslenzkir fjárhundar hreinræktaðir vestur á Kyrrahafsströnd

1958 Vísir: Hin síðasta „nýlenda“ Íslendinga vestan hafs

1958 Morgunblaðið: NÝJASTA  „Íslendingabyggðin“ vestan hafs

1958 Íslendingur: Íslenzku hundarnir

1958 Dýraverndarinn: Íslenzki hundurinn

1958 Dýraverndarinn: Vinur íslenzkra hunda vestan hafs og austan

Árið 1957 gaf Mark Watson um bók um íslenska hundakynið. Helgi Valtýsson skrifar um bókina í Vísi og segir hana glæsilega og nýstárlega. Bókin heitir The Icelandic dog 874 – 1956 og í henni telur Watson upp öll gögn sem hann fann um íslenska fjárhundinn. Watson kostaði sjálfur útgáfu bókarinnar en ágóða sölunnar gaf hann Dýraverndunarfélagi Reykjavíkur.

Í Dýraverndaranum 1958 er haft eftir Mark Watson:

Hvort mundi nú ekki skynsamlegt og vel til fallið, að íslenzkir aðilar legðu rækt við leifar hins íslenzka hundakyns? Hvað um Búnaðarafélag Íslands? Það hefur í vaxandi mæli haft forgöngu um varðveizlu ýmissa dauðra minja um búskapar- og lifnaðarháttu hér á landi – og er það vel, en mundi þá ekki eðlilegt og sjálfsagt, að það tæki að sér vernd lifandi minja? Ekki væri heldur fyrir að synja, að þetta gæti orðið íslenzkum bændum beinlínis að gagni.

Íslenzkir fjárhundar af hreinu kyni reyndust um aldir frábærlega vitrir og þarfir þjónar, góðir förunautar og ratvísir með afbrigðum, ágætir til fjárgæzlu, þar sem lögð var veruleg rækt við að venja þá – og sumir mjög duglegir að finna fé í fönn.

Víst er um það, að fullkomið reiðileysi ríkir nú víða í sveitum landsins um val hunda til fjárgæzlu, og mun óvíða á því bóla, að nein viðleitni fari þar fram til skynsamlegs vals, hvað þá kynbóta.

 

Árið 1957 skrifaði Helgi Valtýsson grein um hundahælið Wensum í blaðinu Dagur:

Vestur á Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna geltir hraðvaxandi hópur sviphýrra fjárhunda á íslenzku. Sennilega er þar forsöngvari Bósi frá Höskuldsstöðum eða þá Vaskur frá Þorvaldsstöðum, og eru báðir taldir af hreinu, bláu blóði,  þ.e.a.s. hundablóði. Og það mun einnig Konni frá Lindarbakka.

Og ekki eru þau óefnileg systkinin Glói og Grýla, fyrstu bandarísku borgararnir í þessum fallega hóp, misserisgömul rétt fyrir jólin. Bera þau hreinan ættsvip foreldra sinna, Bósa og Brönu frá Hvanná. Hafa þau sennilega þegar tekið undir á móðurmálinu. Því að ekki er enn töluð enska á Jökuldal .— Og ekki heldur í Hlíðinni, geltir Auli frá Sleðbrjót í Jökulsárhlíð.

Í Nicasíó í Californinu býr maður, Mark Watson að nafni. Þar elur hann nú upp íslenzka hunda á hundahæli sínu, Wensum Kennels. Er hann áhugamaður hinn mesti og feikn alfjölfróður a.m.k. um allt, sem að hundum lýtur.

Mark Watson var hér á ferð sumrin 1955 og 56, fór víða um land og leitaði uppi hreinkynjaða (kynhreina) ísl. hunda. Keypti hann þá 8 hunda alls, fernar samstæður. Var hann vandur að vali og fór að öllu gætilega. Flesta kynhreina hunda fann hann í Breiðdal eystra, og keypti hann þar 4 hunda, og einn í Fossárdal í Berufirði. Síðan 1 á Jökuldal, 1 í Jökulsárhlíð og 1 í Blönduhlíð í Skagafirði.

Hér er rétt að bæta við að síðar fékk Mark Watson tvo hunda frá Tálknafirði . Alls voru hundarnir tíu sem hann flutti til Kaliforníu.

Hilmar Foss: Að Bandaríkjadvölinni aflokinni settist Watson að á búgarði í Suður – Englandi um nokkrra ára skeið og hélt þar áfram hundarækt sinni. Vöktu íslenzku hundarnir hans athygli á hinni miklu sýningu Crufts þegar á árinu 1958.

 

Ræktun á Íslandi 1967:

Úr bókinni „Íslenski fjárhundurinn“ eftir Gísla Pálsson:

Páll A. Pálsson, yfirdýralæknir kom Sigríði Pétursdóttir í samband við Mark Watson. Að áeggjan Watsons fór Sigríður þjár ferðir til Englands. Þar kynnti Watson hana fyrir Jean Lannig ræktanda og dómara og enska hundaræktarfélaginu, The English Kennel Club. Þau skipulögðu fræðslu- og námsáætlun fyrir Sigríði og var hún í fullu námi á meðan á dvölinni stóð.

Sótti Sigríður allar sýningar og fór á milli bestu og þekktustu hundaræktendanna sem höfðu skarað fram úr á sínu sviði. Þessar námferðir fór Sigríður á árunum 1965 – 67 en árið 1967 má segja að hún hafi byrjað sína alvöru ræktun hér heima.

Í síðustu ferðinni til Englands valdi hún hund og tík, sem síðar voru pöruð saman. Watson gaf henni tvo hvolpa undan þessu pari, þau Vask og Brönu of Wensum. Með þeim skilyrðum að hundarnir yrðu settir í sóttkví hér heima leyfði Páll A. Pálsson innflutning.

Eftir kynni Sigríðar af enska hundaræktarfélaginu, The English Kennel Club, vaknaði áhugi hennar á stofnun hundaræktarfélags hér heima sem myndi snúast um íslenska hundinn. Þar sem Watson var öllum hnútum kunnugur í þeim efnum og þekkti til hér heima var ákveðið að stofna hundaræktarfélag sem myndi standa að verndun og ræktun íslenska fjárhundsins.

Í viðtölum við Sigríði Pétursdóttur á Ólafsvöllum kemur sterklega í ljós hversu mikla aðstoð Mark Watson veitti henni fyrstu árin í ræktunarstörfum.

 

Stofnun Hundaræktarfélags Íslands:

Í Morgunblaðinu 5. október 1969 er svohljóðandi fréttatilkynning (úrdráttur, aths. félagið var stofnað 4. september):

Hinn 4. þ.m. komu um 30 áhugamenn um hundarækt saman í Bændahöllinni og stofnuðu með sér félagsskap, er ber nafnið Hundaræktarfélag Íslands.

Markmið félagsins er að vera landssamtök um ræktun íslenzka hundsins, sem er í bráðri hættu að verða aldauða vegna íblöndunar annarra kynja.

Á stofnfundinum var samþykkt að sýna Íslandsvininum Mark Watson þá virðingu að gera hann að heiðursstofnfélaga, en hann hefur m.a. haft frumkvæði að verndun íslenska fjárhundsins og skrifað um hann bók.

Tvö félög hundaeigenda voru stofnuð árið 1969. Hundavinafélagið var stofnað í júlí og Hundaræktarfélag Íslands í september. Frá árinu 1924 til ársins 1984 var bannað að halda hunda í Reykjavík og flestum þéttbýlisstöðum landsins. Markmið Hundavinafélagsins var að berjast fyrir réttindum hundaeigenda í þéttbýli og fá banninu hnekkt.

 

Fyrstu hundasýningar HRFÍ og Hundavinafélagsins

Fyrsta hundasýningin á Íslandi var haldin 1973 í Eden í Hveragerði með stuðningi Mark Watson. Dómarinn var breskur Mrs. Jean Lanning en hún átti íslenska fjárhunda frá Watson. Hann styrkti sýninguna greiddi fargjald dómarans og gaf verðlaun.

Næsta hundasýningin var haldin fimm árum síðar, haustið 1978 með stuðningi Watson sem aftur greiddi fargjald breska dómarans Mrs. Jean Lanning.

 

„Hundurinn minn“ leiðavísir um meðferð hunda kom út 1973

Mark Watson taldi þörf á að fræða íslenska hundaeigendur í meðferð og uppeldi hunda. Hann skrifaði og gaf út bæklinginn „Hundurinn minn“ á eigin vegum.

Halldór Þorsteinsson þýddi bókina og Barabara Árnason teiknaði myndir. Formála skrifaði Jakob Jónasson, læknir og þáverandi formaður Hundavinafélagsins:

Fjöldi hunda á Íslandi fyrr á öldum ber þess auðsætt vitni, að Íslendingum hefur þótt vænt um hunda sína og kunnað að meta gildi þeirra sem félagsveru engu síður en þarfadýrs.  Á tilteknu tímabili sögunnar varpaði sullaveikin nokkrum skugga á afstöðu Íslendinga til hundsins, þar sem honum var að ósekju kennt um þessa hörmulegu plágu, þótt sökin væri að sjálfsögðu manna sjálfra. Sullaveikinni hefur nú löngu verið útýmt úr landinu, og nútímadýralæknisfræði ræður yfir aðgerðum, sem hindrað geta tilkomu hennar á ný.

Höfundur þessarar bókar, Englendingurinn Mark Watson, er einn veglyndasti, núlifandi Íslandsvinur, sem gefið hefir Íslendingum ágætari menningarverðmæti en nokkur annar útlendingur.

Mark Watson hefur verið öflugur stuðningsmaður Hundavinafélags Íslands og ekkert látið sitt eftir liggja til að veita málstað þess brautargengi.

Hundavinafélag Íslands þakkar þessum merka manni og velunnara félagsins skref hans í þágu íslenzkra hundaeiganda í þeirri fullvissu, að bók þessi muni veita þeim margan nauðsynlegan fróðleik og stuðla þannig að aukinni „hundamenningu“ á Íslandi.

 

Dýraverndarinn Mark Watson:

Í árskýrslum Sambands dýraverndunarfélaga Íslands SDÍ kemur víða fram hversu mikill dýravinur Mark Watson var: Eftirtaldar bókanir eru í Dýraverndaranum sem er blað SDÍ:

 Í Dýraverndaranum 1973:

Í janúarmánuði s.l. skoðaði dýravinurinn Mark Watson hundabú Carlsens við Leirtjörn. Hafði hann síðan samband við stjórn S.D.Í. og benti á mjög slæman aðbúnað dýranna.

Stjórn S.D.Í. gerði ítrekaðar tilraunir til að fá fram úrbætur á staðnum hjá Búnaðarfélagi Íslands. Mark Watson gaf rúmlega 60 þúsund krónur til uppbyggingar á hundabúinu. Þá peninga neitaði Búnaðarfélagið að þiggja, svo og hundafóður, sem einnig átti að færa því að gjöf. Hins vegar lofaði Búnaðarfélagið að nýir hundakofar yrðu reistir. Að ósk Watson var peningagjöf hans, sem renna átti til hundabús Carlsens, þá ráðstafað þannig að kr. 30 þús. fóru til Hundavinafélagsins en afgangurinn rennur til dýraspítalans.

 Í Dýraverndaranum 1973: Frá Aðalfundi Dýraverndurnarfélags Reykjavíkur.  Formaður félagsins sagði frá því að félaginu hafði borist gjafir frá Mark Watson, lítið aflífunartæki og nokkrar kattagildrur.

 Í Dýraverndaranum 1976 er árskýrsla Dýraverndunarfélags Akureyrar. Í skýrslunni er kemur fram að dýravinurinn Mark Watson hafi sent félaginu peningagjöf og jafnframt hafi hann lýst ánægju sinni yfir að stofnað hafi verið dýraverndurnarfélag á Akureyri.

 

Dýraspítali Watson – úr ársskýrslu SDÍ 1973:

Í byrjun árs 1973 gaf Watson, Íslendingum dýraspítala með öllum búnaði. Ætlaði hann í fyrstu að S.D.Í. ásamt Hundavinafélaginu og Dýraverndunarfélagi Reykjavíkur yrðu móttakendur gjafarinnar.

Seinna hvarf hann frá því ráði vegna þess, hve illa félögin voru á vegi stödd fjárhagslega, en hann vildi umfram allt, að rekstur spítalans yrði tryggður. Hann reyndi að fá ríkið til að taka við gjöfinni en án árangurs, sem frægt var.

Sjálfseignarfélag var stofnað um rekstur spítalans. Það voru sex aðilar sem áttu spítalann og báru ábyrgð á rekstri hans. Reykjavíkurborg gaf lóð undir spítlalann, byggði grunninn og lagði allar leiðslur á sinn kostnað.  

Mark Watson var spurður um Dýraspítalann í Vísi sama ár:

Hvers vegna datt þér í hug að gefa Íslendingum dýraspítala? Watson svaraði:  „Mér rann til rifja að vita af öllum þeim dýrum, sem vinir mínir og kunningjar áttu, og ekkert var hægt að gera fyrir af því að ekki var til hér dýraspítali“. 

 

Fyrsti heiðurfélagi Sambands dýraverndunarfélaga Íslands:

Á stjórnarfundi, sem haldinn var 22. marz 1973 samþykkti stjórnin að gera Mark Watson að heiðursfélaga S.D.Í. fyrir ómetanleg störf í þágu dýraverndar á Íslandi. Er hann fyrsti heiðursfélagi og eini heiðursfélagi S.D.Í.

 

Aðalfundur Dýraverndunarfélags Reykjavíkur 1973:

Aðalfundur D.R. haldinn 6. maí 1973, flytur hr. Mark Watson innilegar þakkir fyrir höfðinglegar gjafir, og þá eigi sízt dýraspítlala, hinn fyrsta, sem reistur verður á Íslandi. Gott er af góðum gesti að þiggja. Og í gjöfum þínum og öðrum stuðningi mun nafn þitt geymast og verða skráð meðal þeirrra, er strærst og óeigingjarnast hafa unnið að íslenzkum dýraverndunarmálum.

 

Úr skýrslu Dýraverndunarfélags Reykjavíkur lesin á aðalfundi SDI 1974:

En Watson, þessum gjöfula og göfuga dýra- og Íslandsvini verður aldrei fullþakkað. Og honum ber að þakka betur en gert hefur verið. Svo dýrmætar gjafir hefur hann fært þjóðinni, svo ósvikna vináttu hefur hann sýnt í verki, að það væri meiri sómi okkar en honum, að gera hann að heiðursborgara.

 

Í Árskýrslu SDÍ 1973 segir frá Degi dýranna:

 Af tilefni dagsins var hálftíma þáttur var í útvarpinu. Á meðal dagskráliða ræddi Hilmar Foss við Mark Watson í síma um dýraspítalann.

 Um kvöldið var skemmtun í Austurbæjarbíó. Meðal skemmtiatriða var sýnd kvikmynd, sem Mark Watson hafði gefið. Myndin var um ýmis samskipti manna við dýrin og lýst góðri og slæmri meðferð í uppeldi og hirðu dýranna. Heiðursgestir á skemmtuninni voru forsetahjónin.

 

Aðstoð við dýrahjúkrunarnám:

 Árið 1973 hafði Sigfríð Þórisdóttir samband við S.D.Í og óskaði eftir aðstoð félagsins við að komast í dýrahjúkrunarnám.  Formaður S.D.Í. hafði samband við Mark Watson sem sýndi ómetanlega aðstoð og kom Sigfríð fljótt að í námi við hinn þekkta dýraspítala dr. Singelton í Englandi.

Dr. Singelton var félagi í konunglega dýralæknafélaginu. Watson kom því að framfæri við dr. Singleton að Sigfríð yrði að fá bestu menntun sem völ væri á. Mikil þörf væri á dýrahjúkrun á Íslandi og Sigfríð segir svo frá sjálf að hún hafi lært skurðhjúkrun og fékk að vera viðstödd aðgerðir sem aðrir nemar tóku ekki þátt í.

 

Dýraverndarinn 1970: Bókin „The Icelandic Dog“ endurútgefin

Íslandsvinurinn og dýravinurinn Mark Watson í Lundúnum gaf út fyrir nokkrum árum rit um íslenzka hundinn, og heitir það The Iceland Dog 874—1956. Var nokkru af upplaginu dreift hér á landi, og gaf höfundur Dýraverndunarfélagi Reykjavíkur allt söluverðið.

Nú hefur ritið verið ljósprentað og höfundur hefur umritað formálann. Óskar hann þess, að ritið komizt í sem flestra hendur, sem hafa áhuga á íslenzka fjárhundakyninu, og enn gefur hann D. R. andvirðið. Ljósprentaða útgáfan fæst í skrifstofu Hilmars Foss, Hafnarstræti 11 í Reykjavík, meðan upplag endist. Þessarar bókar var vandlega getið í Dýraverndaranum og það oftar en einu sinni.

 

The Honourable Richard Mark Watson lést í marz 1979 á heimili sínu í Eaton Place í Lundúnum.

Í lokaorðum Önnu S. Snorradóttir í heftinu „Mark Watson og Glaumbær“ segir hún: Engum erlendum manni hef ég kynnst, sem unni landi okkar og þjóð á jafn fölskvalausan hátt og hann.

Hilmar Foss skrifaði í Árbók Landsbókasafns Íslands:

Mark Watson var hár maður vexti, fríður sýnum og virðulegur mjög. Allt fas hans bar vott prúðmennsku, áræðni og dugnaði. Hann var kvikur, en gætinn í hreyfingum og mönnum leið vel í návist hans.

Hann hefur verið stórgjöfull maður við Íslendinga og á þann veg, að naumast verða gjafir hans metnar til fjár. Eru þá ótaldar gjafir hans og fjárstuðningur við félagasamtök og einstaklinga hér á landi, sem hann vildi styrkja til ýmiss konar nytsamlegra starfa á sviði lista- og líknarmála.

Alla tíð var hann sjálfum sér samkvæmur, sparsamur og nýtinn, þótt hann byggi jafnan rausnarlega og ætti lengst af tvö heimili, eitt í sveit og annað í borg. Eyðsla hans var aðallega fólgin í örlæti við aðra. Á stundum kvartaði hann undan því að geta ekki látið af hendi rakna eins mikið og hann óskaði í líknar- og mannúðarskyni eða til lista- og menningarmála.

Garðabær 29. nóvember 2015

Þórhildur Bjartmarz

Fljótlega munum við birta enska þýðingu á þessari grein