Hundur Jóhönnu kom vini hennar til bjargar: „Það næsta sem gerðist var ekkert minna en magnað“
Björgunarhundurinn Morris aðstoðaði bandarískan mann sem þjáist af áfallastreituröskun – fellur í yfirlið allt að fjórum sinnum á dag
Björgunarhundurinn Morris sýndi fádæma hugprýði á dögunum þegar hann kom manni til aðstoðar sem er illa haldinn af áfallastreitu. Maðurinn, sem er bandarískur og heitir Patrick Welsh, var að heimsækja vinkonu sína hérlendis, Jóhönnu Þorbjörgu Magnúsdóttur, þegar hann féll í yfirlið inná baðherbergi á heimili hennar og vissi ekki í þennan heim né annan.„Patrick er fyrrverandi hermaður og mjög illa haldinn af áfallastreituröskun eftir endurtekna höfuðáverka og veru sína í hernum. Það lýsir sér í því að hann missir meðvitund allt að fjórum sinnum á dag og má líkja því við flogaköst. Þegar hann missir meðvitund þá má enga ekki undir neinum kringumstæðum snerta hann því hann upplifir sig eins og hann sé staddur í sandgryfjunum að berjast fyrir lífi sínu,“ segir Jóhanna.
Missti meðvitund inni á baðherbergi
Hún segir að Patrick njóti aðstoðar þjónustuhunds í Bandaríkjunum og með samvinnu lækna, sálfræðinga og hundaþjálfara lært að þegar hundurinn sýnir ákveðna hegðun þá man hann smátt og smátt að hann er heima hjá sér og öruggur. Patrick gat ekki flutt hundinn með sér hingað til lands útaf úreltum einangrunarkröfum hérlendis og var því nokkuð órólegur. Svo fór að hann missti meðvitund inni á baðherbergi. „Þessum degi mun ég aldrei gleyma og hef þó séð ýmislegt,“ segir Jóhanna. Hún segir að kærasta Patricks hafi reynt að kalla til hans að hann væri öruggur, væri á Íslandi og allt væri í lagi.
„Byrjaði að sleikja hann í framan“
Svo fór hinsvegar að þeim datt snjallræði í hug. „Við prufuðum að sækja Morris og það næsta sem gerðist var ekkert minna en magnað. Morris lagðist hjá honum og haggaði sér ekki. Skyndilega byrjar Patrick að öskra í sífellu „hvar er ég, hvar er ég” og þá var ég viss um að Morris yrði hræddur og myndi forða sér,“ segir Jóhanna. Svo fór hinsvegar ekki. „Morris lagðist þá ofan á Patrik og byrjaði að sleikja hann i framan og því meira sem Patrick öskraði því meira sleikti Morris hann í framan. Eftir smá stund vaknar Patrick og áttar sig á því hvar hann sé staddur og stendur á fætur, segir Jóhanna. Að hennar sögn reis þá Morris á fætur, dillaði rófunni og fór að leika sér með boltann sinn eins og ekkert væri eðlilegra. Patrick og hinn aldni björgunarhundur hefðu verið óaðskiljanlegir það sem eftirlifði ferðarinnar og hermaðurinnn fyrrverandi missti aldrei aftur meðvitund í ferðinni.
DV Björn Þorfinnsson