Lúsugir og sí- skítandi hundar landsins

Þessi grein birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 4. sept

Guðný Hrönn gudnyhronn@mbl.is:

Í hvert skipti sem ég fer til útlanda velti ég því fyrir mér hvernig er að eiga hund í Reykjavík í samanburði við aðrar borgir. Niðurstaða mín er sú að hér á Íslandi er þetta alveg vandræðalega smáborgaralegt þar sem almennt viðhorf gagnvart hundum er neikvætt og þeir eru óvelkomnir á flesta staði.

Í síðustu utanlandsferð minni naut ég lífsins í Berlín. Ég fór í almenningsgarða, út að borða, á kaffihús, á söfn, í fataverslanir og notaði almenningssamgöngur eins og gengur og gerist. Á öllum þessum stöðum rakst ég á stillta og prúða hunda, stóra sem smáa, sem fylgdu eigendum sínum eins og skuggi og virtust njóta þess í botn. Enginn þeirra var að skíta upp um alla veggi, enginn meig á skóinn minn, enginn glefsaði að mér og enginn þeirra gelti, að undanskildum tveimur hvolpum.

Í Berlín, og í öðrum sambærilegum borgum, er hundum gefið tækifæri á að læra að umgangast aðra hunda og eins fá þeir tækifæri á að venjast margmenni. Ungum hundum, sem enn eru að læra á umhverfi sitt, er sýnd þolinmæði og enginn kippir sér upp við geltandi hvolp. Hvergi er hundaskít að sjá en fólki er einmitt treyst fyrir því að hirða upp eftir hundinn sinn og að kenna hundunum sínum góða hundasiði (annað en hér á landi).

Af einhverjum ástæðum virðist það heppnast vel að leyfa hundaeigendum að taka loðinn vin sinn með sér hingað og þangað í þeim borgum sem ég hef heimsótt og búið í í gegnum tíðina. En það gengur víst ekki hér heima af ýmsum ástæðum.

Hundar skíta og míga út um allt, hundar bíta, hundar slást við aðra hunda, hundaeigendur kunna ekkiað hirða upp hundaskít og fólk er með ofnæmi. Þetta eru nokkrar af þeim dapurlegu ástæðum sem maður heyrir stundum nefndar þegar hundahald á Íslandi er rætt.

Mín skoðun er sú að einhver furðuleg hystería ríki gagnvart hundum í samfélagi okkar. Það væri líklegast betur tekið í það ef ég myndi sprauta mig með heróíni í augað á einhverju fínu veitingahúsiborgarinnar heldur en ef ég kæmi inn með hundinn minn. Svo má ekki gleyma því að hundar eru bannaðir í strætó og umræðan verður súrrealísk um leið og einhver stingur upp á að breyta þessum úreltu reglum. Og það er ekki ýkja langt síðan hundar voru bannaðir á Laugaveginum og víðar í miðbænum. Algjörlega glórulaust.

Þetta almennt neikvæða viðhorf gagnvart hundum og öðrum gæludýrum er svo bersýnilegt fyrir þá hundaeigendur sem eru á leigumarkaðnum. Þegar íbúðir eða hús eru auglýst til leigu er oftar en ekki skrifað í „caps lock“ að gæludýr séu bönnuð, alveg óháð stærð eða tegund. Væri ekki eðlilegra að hafa það sem samkomulagsatriði þegar möguleiki er á? Himinháa tryggingin sem leigjendur þurfa yfirleitt að borga ætti svo að geta dekkað skemmdirnar ef gæludýrið tæki upp á því að naga upp flísarnar af íbúðinni eða krafsa sig í gegnum allar hurðir heimilisins.

Af hverju getum við ekki slakað aðeins á og reynt að vera pínu eðlileg? Æi, eða ég skipti um skoðun. Þegar ég hugsa þetta betur fatta ég að allir hundar sem ég þekki eru lúsugir, með krónískan niðurgang, árásargjarnir, sífellt geltandi og slefandi og bara almennt óþolandi. Einmitt.

mbl.is

 

Hamborg sept 2015 087   Hamborg sept 2015 096   Hamborg sept 2015 086

 

myndirnar tók Þórhildur í verslunum í Hamborg , Þýskalandi