Kökuþjófurinn hún Sif

Brynhildur Inga skrifar fyrir börn og fullorðna

Það var miðvikudagsmorgunn og húsið angaði af bakstri.  Það stóð mikið til því sonur fóstru minnar ætlaði að fara að gifta sig.  Af og til heyrðist smá væl í hvolpum því Hrifla var með unga hvolpa.  Ég lá bara róleg fyrir framan eldhúsið og beið eftir því að fóstra mín færi út úr eldhúsinu.  Ég þurfti ekki að bíða lengi því nú heyrðist smá væl í einum hvolpinum og fóstra fór til að kanna hvort ekki væri allt í lagi.  Ég veit af gamalli reynslu að hún staldrar alltaf lengi við að horfa á ungviðið.  Ég flýtti mér inn í eldhúsið og viti menn hún var alveg búnin að klára að baka og skreyta fyrstu kökuna, nammi namm þetta var flott terta hjúpuð marsipani og skreytt með dýrindis sykurblómum.

sif 2

Ég hoppaði uppá stólinn við borðið og fékk mér smá bita en mikið svakalega var tertan góð svo ég bara kláraði hana alla og þreif diskinn vel á eftir.  Fóstra tekur ekkert eftir þessu því diskurinn er orðinn svo hreinn hugsaði ég.

Hinir hundarnir fengu ekki svo mikið sem eitt korn enda létu þeir ekki sjá sig í eldhúsinu því fóstra bannar þeim að koma þar inn þegar hún er að baka eða elda mat.  Mér er alveg sama, ég bara get ekki staðist þetta. Þegar diskurinn var orðinn hreinn flýtti ég mér fram og lagðist hjá hinum hundunum.

Nú kom fóstra til baka því ekkert amaði að hvolpunum.  Ég skildi ekki þessi læti í henni.  Þarna stóð hún á miðju eldhúsgólfinu baðandi út höndunum og öskraði „hver stal tertunni“.  Ef ég mátti ekki borða tertuna þá átti hún bara ekki að skilja hana eftir á glámbekk, það er bara svo einfalt.  Ég var sakleysið uppmálað en hinir hundarnir voru svolítið skömmustulegir því þeir vissu hvað ég hafði gert.

Daginn eftir bakaði fóstra aðra köku og aftur fór hún að horfa á hvolpana svo ég læddist inní eldhús.  Allt í einu hrökk ég við þegar fóstra mín æpti „hvað ert þú að gera uppá borði þjófurinn þinn“.  Æj æj, hún náði að standa mig að verki í þetta sinn og ég sem var bara búin að klára hálfa tertuna.

Í dag kallar fóstra mig alltaf þjófóttu tíkina.  Það er nú ekki alveg sanngjarnt því ef hún væri ekki alltaf með tertur, mat og konfekt á borðunum þá myndi ég aldrei stela af borðunum.

Nú hlakkar mig óskaplega til jólanna því þá bakar fóstra nokkrar tegundir af smákökum og það er alltaf til konfekt í skálum.  Ég er viss um að ég get nælt mér í eitthvað gott.

 

sif 1

 

Með kveðju
Brynhildur Inga Einarsdóttir, hundaþjálfari
borg1@centrum.is
www.reykjadals.is