Ísabella og hundarnir

Sigrún Guðlaugardóttir:

Ísabella Eir er 6 ára stúlka. Ein af þremur á landinu með Smith-Magenis heilkenni (SMS) sem er þungt og fjölþætt heilkenni. Helstu einkenni SMS eru miklar svefntruflanir, skertur vitsmuna- og tilfinningaþroski, seinkaður málþroski, gífurleg hegðunarvandamál og sjálfskaði.

Ég gerðist stuðningsforeldri fyrir hana þegar hún var rúmlega 3 ára, til að hvíla illa sofna fjölskyldu sem var að takast á við algjörlega ókunnan heim. Allar götur síðan hef ég orðið vitni að ótrúlegum atvikum og augnablikum sem hafa skilið mig eftir agndofa. Að horfa á hundana mína sem eru óþjálfaðir og skemmtilega óþekkir labradorar, ganga inn í hlutverk hjálparhunda. Loki (5 ára) er fremstur í flokki og hefur verið fyrirmynd fyrir hina, enda átti ég bara hann þegar Ísabella fór að koma til mín.

1978872_10152803994197863_6157571834534682738_n10384606_10152563438912863_2499606961763494430_n

Ísabella er mjög hvatvís með hamlandi ADHD og á erfitt með að finna í sér ró. Hún krefur mann um mikla athygli og þarf stöðugt eftirlit. Hundarnir á heimilinu sækja í að vera nærri henni, sú nálægð róar hana nægilega til að stoppa lengur en hún gerði ella og horfa t.d. á teiknimynd. Ég hef aldei gefið skipanir eða ætlað hundunum að vera nærri Ísabellu, það gera þeir af sjálfdáðum.

Svefn er mikið vandamál hjá Ísabellu og þrátt fyrir lyf til að aðstoða á hún til að vakna oft á nóttu, er hún alvöknuð mjög snemma og er mjög þreytt á daginn. Þegar hún byrjaði að koma til mín kom í ljós að þau vandamál virtust minnka þegar hún dvaldi hjá mér. Í raun svaf hún svo vel að mamma hennar spurði mig einu sinni í gríni hvort ég væri ekki bara að skrökva með nætursvefninn og daglúrana. Ég á engin vísindaleg gögn til að útskýra þetta bara sterka sannfæringu mína fyrir því að róin sem hundarnir færa henni sé ástæðan.

Óumbeðinn gengur Loki inn í aðstæður sem manneskja gæti ekki gert án þess að ástandið myndi stigmagnast. Sem dæmi var það eitt kvöldið sem Ísabella var aðframkomin af þreytu og þrátt fyrir að vera búin að fá svefnlyf virtist upptrekktur skrokkurinn ekki ætla að leyfa svefn. Hún klifraði og veltist um á sófanum en þar var hún vön að sofna. Loki sem hafði legið á gólfinu stóð allt í einu á fætur, stökk upp í sófa og lagðist ofan á barnið, þó án þess að valda henni  óþægindum. Innan tveggja mínútna var barnið sofnað, það þurfti bara að stöðva skrokkinn svo svefninn kæmist að. Hefði ég tekið upp á því að leika þennan leik hefði þetta að öllum líkindum endað með stóru skapofsakasti. En hún mótmælti hundinum ekki.

 

16198_10153142497217863_2709044076840665213_n11156410_10153262367897863_7497975279500111951_n

Fyrir barn eins og Ísabellu er ekki auðvelt að eignast vini á sínum aldri. Hana skortir alla hæfni til að leika með öðrum og setur nánast allt upp í sig og nagar. Samskipti hennar við ,,heilbrigð“ börn einkennast af: ,,Ekki, Ísabella…“ og ,,Nei, Ísabella…“  Í hundunum á hún vini sem sýna henni óskilyrta, óhrædda ást og hlýju á jafningjagrundvelli.

Skapofsaköst Ísabellu er tíð og misþung. Hundarnir skynja hversu stórt kastið er hverju sinni. Í mildum köstum fara þeir til hennar og stugga við henni með trýninu eða sleikja áður en það nær að stigmagnast og er hún oftast orðin hlæjandi eftir augnablik. Í stórum köstum draga þeir sig í hlé. Hundarnir hafa afstýrt ótal köstum á mínu heimili.

Margmenni og mikið áreiti eru sérlega erfiðar aðstæður fyrir Ísabellu. Hún og Loki hafa tvisvar tekið þátt í barnaflokki ungra sýnenda án vandræða, sem er ótrúlegt afrek. Uppfull af stolti hefur Ísabella hlaupið með hundinn, vin sinn líkt og þau hafi ekki gert neitt annað í lífinu. Loki stóð eins og stytta á meðan Ísabella sýndi dómaranum tennur, eyru, nef og augu (þótt þess hafi ekki verið óskað frá henni.) Á milli hlaupa biðu þau saman en að bíða er ekki sterkasta hlið Ísabellu. Stoltið sem ég fann fyrir er ólýsanlegt, að fá að sjá barnið ,,mitt“ standa jafnfætis við önnur börn og hundinn minn gera það að veruleika.

Loki hefur sannað fyrir mér að hjálparhundar eru ekki endilega bara þeir hundar sem hafa farið í gegnum langa og stranga þjálfun. Það er sumum hundum einfaldlega í blóð borið. Glaumur (2 ára) lærði af Loka og þeir hafa í sameiningu auðgað líf Ísabellu með vináttu sinni og skilningi. Nýlega fjölgaði á heimilinu þegar Frami (4 mánðaða) kom til okkar og hef ég fulla trú á að þeir eldri verði honum lærifeður og fyrirmyndir.

,,Englar fljúga ekki, þeir ganga“

 

603712_10152617518057863_4851134809096796159_n11179970_10153269292502863_6811561919169163225_n