Er ótti við hunda lært atferli?

Jórunn Sörensen:

Á Hundalífsblogginu – hundalifspostur.is –  hafa birst pistlar þar sem fjallað er um ótta við hunda. Ótta barna. Ótta fullorðinna. Í þessum pistlum er einnig lýst hvernig fullorðinn, hreint út sagt ákveður að hætta að vera hræddur við hunda og hvernig börnum er hjálpað að losa sig við óttann. Þessir pistlar eru:

  • Er hægt að lækna sig af ofsahræðslu við hunda eftir Jórunni Sörensen
  • Var orðinn leiður á að vera alltaf hræddur, eftir Jóhönnu Svölu Rafnsdóttur
  • Ofnæmið og óttinn eftir Arnfríði Ingu Arnmundsdóttur

Í áranna rás hefur mér orðið ljóst hve viðbrögð foreldra skipta miklu máli í því hvort barn verður hrætt við hunda eða ekki. Miklu máli? Nær væri að segja öllu máli. Bæði það sem sagt er og gert. Ég tek hér nokkur dæmi af reynslunni með mína eigin hunda og börn sem koma á heimilið.

Þegar dætur mínar koma með litlu börnin sín eða dótturdætur með sín litlu börn er þetta ósköp afslappað. Börnin eru vön hundunum frá því að þau liggja í burðarsætinu og hundshaus er yfir þeim. Svo stækka börnin og sum láta tilveru þessara hunda sér í léttum rúmi liggja og skipta sér ekkert af þeim. Hundarnir eru bara þarna. Önnur taka ástfóstri við hundana, kalla þá til sín, klappa þeim og kjassa.

Gott dæmi um jákvæð viðbrögð frá ókunnum gesti sem kom í heimsókn er þegar vinkona dóttur minnar sem var í Íslandsheimsókn með ungan son sinn, kom til okkar. Svartur labradorinn kom fram í forstofu og heilsaði fólkinu. Drengnum brá og þrýsti sér upp að móður sinni. Átti ekki von á að mæta hundi. Móðir hans skellti upp úr. Mitt barn hrætt við hunda – neiiii. Svo gekk hún bara inn í stofu og drengurinn með. Þetta með að barnið gæti verið hrætt við heimilishund var svo víðsfjarri raunveruleikanum að það var ekki einu sinni athyglinnar vert. Enda sá drengurinn það á öllu atfrerli mömmu sinnar að það að hræðast þennan hund var fullkominn óþarfi og slakaði alveg á.

Svo á ég dæmi um hið gagnstæða er af hjónum sem komu með börnin sín í heimsókn. Tek það fram að fjölskyldan á heima í landi þar sem er mikið um hunda. Þau koma inn og börnunum bregður þegar hundarnir birtast. Hvað gerist? Jú – þeir eru rifnir upp í fang og haldið fast utan um þá og svo hljómaði: „Mamma passar þig – hann bítur ekkert“! Árangurinn var auðvitað sá að foreldrarnir voru með skelfingu lostin börnin sín á öxlunum alla heimsóknina. Og sagan endurtekur sig í heimsóknum næstu ára – minningunni um hina stórhættulegu hunda er haldið lifandi með sömu athöfnum og orðum.

En hvern þurfti að „passa“ og hvað með orðið „bítur“? Eiga foreldrar að gefa börnum sínum skyn að þegar þau heimsækja nákomna ættingja að þar sé hundur sem gæti bitið?

Netfangið mitt er: vorverk@simnet.is