Háttvirtir kviðdómendur

Þessi grein birtist í Sámi 1. tbl 4 árg. 1981:

Ef til vill eru fegurstu eftirmæli um nokkurn hund, elsta vin mannsins, samin af bandarískum lögfræðingi og senator, að nafni George Graham Vest. Stytta af hundinum var reist á lóð dómshúss í Missourifylki þar sem réttarhöld fóru fram og þar sem þessi fræga ræða var flutt í skaðabótamáli vegna hunds 1869. Minnismerkið er raunar til vegna ræðunnar sem slíkrar sem er minnisvarði um ást sérhvers hundaeiganda og vinar á sérhverjum góðum hundi (stytting á formála í Sámi).

Háttvirtir kviðdómendur. Besti vinur manns í þessum heimi getur snúist gegn honum og orðið óvinur hans. Sonur hans eða dóttir sem hann hefir ung alið af kærleik og umhyggju geta reynst vanþakklát. Þeir sem við treystum fyrir hamingju vorri og góðu nafni geta reynst svikarar við málstað vorn.

Fjármunir manns geta glatast. Þeir gufa upp, ef til vill þegar maður þarfnast þeirra mest. Orðstír manns kann að verða fórnað á einu augnabliki með vanhugsaðri athöfn. Það fólk sem er reiðubúið til að knékrjúpa oss í heiðursskyni þegar gæfan blasir við oss, kann að verða til þess að kasta fyrsta steini illgirninnar þegar þrumuský ólánsins hrannast yfir höfðum vorum. Hann eini eindregni óeigingjarni vinur, sem maður getur eignast í þessu eigingjarna heimi, sá eini, sem aldrei reynist vanþákklátur eða svikull, er hundurinn hans.

Háttvirtir kviðdómendur. Hundur mannsins stendur með honum í auðlegð og fátækt, í farsæld og sjúkleika. Hann er reiðubúinn til að sofa á kaldri grund, þar sem vetrarstormar næða og stórhríð boðar voða, aðeins ef hann fær að vera við hlið húsbónda síns. Hann kyssir höndina sem engan mat hefir að bjóða, hann vill sleikja þau sár og benjar sem hljótast af vegferð mannsins í hrjúfri veröld. Hann tryggir fátækum húsbónda svefnfrið sem væri hann prins.

Þegar allir aðrir vinir hverfa á braut verður hann einn eftir. Þegar auðæfin fljúga út í veður og vind og álit húsbóndans hrynur til grunna er hann jafn staðfastur í ást sinni eins og sólin á vegferð sinni um geiminn. Ef örlögunum þóknast að gera húsbóndann að utangarðsmanni í þjóðfélaginu, heimilislausan og vinasnauðan, þá óskar hinn trúi og tryggi hundur ekki eftir neinum forréttindum öðrum en þeim að fá að fylgja honum til þess að verja hann fyrir hættum og áföllum, berjast við óvini hans og þegar kemur að síðasta leikþætti og dauðinn tekur eigandann í faðm sér og líkami hans er lagður í kalda mold, þá skiptir engu þótt allir aðrir vinir haldi sína leið: Þarna við gröfina má finna hinn göfuga hund þar sem hann liggur með höfuðið fram á lappir sínar, augun sorgbitin en þó opin í fullri árverkni, trúr og tryggur allt til dauðans.

Þýðandi: Pétur Gautur Kristjánsson

  1. janúar 1981

https://www.fieldandstream.com/blogs/hunting/2010/01/case-old-drum-inspiring-story-every-dog-owner-should-know