Þórhildur Bjartmarz
Grein um rakkamítil í höfði barns var birt á mbl.is 13. maí sl sjá;http://www.mbl.is/frettir/search/?period=0&category=&sort=1&qs=me%C3%B0+rakkam%C3%ADtil&submit=Leita
Ég sendi fyrirspurn á Náttúrufræðistofnun Íslands;
Eftir að ég las grein í vikunni um rakkamítil í hársverði stúlku leitaði ég á síðunni hjá ykkur að upplýsingum. Er eiginlega ekki viss um að ég sé að skilja þetta rétt. Er verið að tala um 2 afbrigði eða 2 nöfn á sömu pöddunni?
Var stúlkan í fréttinni með rakkamítil ekki skógarmítil?
Erling Ólafsson, skordýrafræðingur svaraði fyrirspurninni;
Sæl Þórhildur,
Þessi mítill er nú kominn í mínar hendur og mun ég reyna að komast í það síðdegis að greina tegundina með vissu. Það er ekki á hvers manns færi að greina þessa mítla til tegunda.
Fljótt á litið sýnist mér um rakkamítil að ræða, sem hefur einnig verið kallaður ameríski hundamítill (heiti sem mér þóknast ekki). Hann hefur borist hingað til lands í fáein skipti með ferðamönnum frá Ameríku. Rakkamítill lifir annars fyrst og fremst á hundum og þvottabjörnum, svo og ýmsum tilfallandi spendýrum.
Rakkamítill og skógarmítill eru sitthvor tegundin, en af þessum blóðmítlum, finnast fjölmargar tegundir í heiminum og hafa níu þeirra dúkkað upp hér á landi. Sumar geta borið sjúkdóma og eru sjúkdómarnir mismunandi eftir tegundum mítla. Þess vegna legg ég áherslu á að fá sem flesta mítla sem mönnum áskotnast í hendur til að greina tegundir með vissu. Það er ákjósanlegt til að vita hvaða sjúkdómseinkennum viðkomandi þurfa að vera á varðbergi gagnvart. Líkur á sýkingum eru þó í raun sáralitlar. En varðbergi skal haldið. auk þess er æskilegt að fá að vita hvar mítlar eru að finnast á landinu, hvernig þeir eru að berast og á hvaða blóðgjafa þeir sækja. Tilkynningar um að mítlar hafi fundist koma að litlu gagni. Það er grundvallaratriði að fá eintökin til að geta skjalfest allt með vissu.
Rakkamítill:
http://www.ni.is/poddur/slaedingar/poddur/nr/14143
Skógarmítill á pödduvefnum:
http://www.ni.is/poddur/nattura/poddur/nr/1009
Erling bætti svo við; þú mættir gjarnan taka fram áhuga minn að fá mítla sem finnast senda til að rannsaka þá frekar.