Afslappað hundalíf á Laugaveginum

 Þórhildur Bjartmarz

Í góða veðrinu í gær keyrði ég niður Laugarveginn. Það tók talsverðan tíma sem var bara gott því það gaf mér tækifæri til að sjá betur afslappað mannlíf í miðbæ Reykjavíkur. Hundabannskiltin eru sem betur fer horfin en í stað þeirra má sjá hunda á Laugarveginum af öllum stærðum og gerðum. Allir þessir hundar voru rólegir og virtust sáttir við lífið og tilveruna þrátt fyrir mikið áreiti. Svona eins og þeir væru þarna á hverjum degi.

Ein kona var með rottweiler og chihuahua, maður með tvo chihuahua sem fylgdu honum þétt við fætur hans. Tveir menn stóðu og spjölluðu saman, annar var með Vizlu sem var greinilega að byrja að þreytast á aðgerðarleysinu. Eigandinn tók hana þá bara í fangið og hélt spjallinu áfram og tíkin varð sátt. Við Stjórnarráðshúsið  sá ég svo Berner Sennen hund. Þetta var stór og stæðilegur hundur, nánast í sömu hæð og börnin þrjú sem fylgdu honum.  Hann var svo einstaklega glaður á svip og virtist svo stoltur af fjölskyldunni. Það var ekki hægt annað en brosa við þessa sjón.

rvk 14,5,2015 005

Þegar ég fór framhjá Austurvelli var mér hugsað til þess þegar ég sá unga konu handtekna þar í kringum 1980. Þessi kona var með hundinn sinn á göngu þegar lögreglan kom, handtók hana og henti henni inn í Svörtu-Maríu eins og viss gerð af löggubílum voru kallaðir. Hundaeigendur voru jú kallaðir lögbrjótar á þessum tíma. Síðar þegar ég eignaðist hund gerðist ég líka lögbrjótur. Það var ekki óalgengt að lögreglan stoppaði mig á bílnum og benti mér á að bannað væri að vera með hund í Reykjavík. Yfirleitt var þetta ábending en það var einn og einn sem var með leiðindi  eða reiðilestur og þóttist ætla að skrifa kæru. Kærurnar fékk ég hins vegar aldrei en kenndi hununum mínum til öryggis að leggjast við skipun í bílnum. Nú eru það hundarnir sem eru sýnilegir á röltinu á götum miðbæjarins en ekki löggurnar.

Við hundaeigendur erum sem betur fer ekki lengur lögbrjótarnir sem lögreglan þarf að eltast við. Það er einhvern veginn eins og þetta hafi snúist við, hundarnir sjálfsagðir á Laugaveginum en myndi okkur ekki bregða við að sjá lögregluna í fullum skrúða svona á röltinu í miðbænum?

Garðabær 15. maí 2015 thorhildurbjartmarz@gmail.com