Dagur í lífi þjónustuhunds
Skrifað af Gunnhildi Jakobsdóttur iðjuþjálfa
Skotta er rúmlega fjögurra ára gömul flatta tík sem býr með fjölskyldu sinni í Reykjavík. Auk þess að vera heimilishundur þá er hún hluti af starfsmannateymi Æfingastöðvarinnar sem er stofnunin sem sinnir sjúkra- og iðjuþjálfun barna og ungmenna. Þar starfar hún sem þjónustuhundur iðjuþjálfa. Eigandi hennar er iðjuþjálfi að mennt auk þess að hafa hlotið menntun frá Landbúnaðarháskólanum í Noregi í samstarfi við International Center of Anthrozoology (ICofA) um íhlutun með aðstoð hunda (e. Animal Assisted Interventions -AAI). Að lokinni sérhæfðri þjálfun þá stóðst Skotta skapgerðarmat og úttekt frá ICofA og telst því vottaður þjónustuhundur, sá fyrsti hér á landi svo best sé vitað. Þá hefur Skotta einnig tekið þátt í hlýðniprófum og sýningum á vegum Hundaræktarfélags Íslands með góðum árangri. Skotta starfar tvisvar í viku á þriðjudögum og fimmtudögum í útibúi Æfingastöðvarinnar í Íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði þar sem hún hefur tilskilin leyfi frá Heilbrigðiseftirlitinu.
Með þessari samantekt er ætlunin að gefa innsýn inn í hefðbundna viku í lífi þjónustuhunds og verður því ekki farið yfir það mikilvæga og ítarlega ferli sem liggur að baki á undirbúningi og þjálfun þjónustuhunds. En í lokin má sjá heimasíður sem mælt er með fyrir áhugasama um AAI.
Mánudagur
Skotta eyðir mánudögunum heima í rólegheitum og færir sig milli staða í húsinu til að dorma á. Í lok dags fer hún út að hlaupa með Garðari og fyrir kvöldmat fær hún sína vikulegu snyrtingu: bað, blástur, klipping og klóaklipping. Er það gert til að draga úr ofnæmisvökum (prótein í húð, feldi, munnvatni og þvagi dýra).
Þriðjudagur
Á þriðjudögum mætir hún í Hafnarfjörð þar sem hún hittir 4 börn yfir daginn. Skotta er afar félagslynd og nýtur sín vel í nærveru barna. Skotta liggur á mottunni sinni í salnum og dillir skottinu sínu á meðan að Gunnhildur tekur á móti barninu og það hengir af sér og sprittar sig. Þátttaka hennar í tímunum er mismunandi og stjórnast af markmiðum hvers og eins í iðjuþjálfun. Hlutverk hennar getur verið allt frá því að hún sé einungis til staðar í sama rými og barnið (liggjandi á mottunni), til að hún taki virkan þátt í meirihluta tímans. Virk þátttaka getur falið í sér að sækja og skila einhverju til barns eða aðrar æfingar eða trix.
Skotta er afar hrifin af nammibitum eins og flöttum er von og vísa og hefur gaman af því að læra nýja færni. Færni hennar í dag samanstendur m.a. af að: sitja, liggja, koma þegar kallað, hoppa, ganga við hæl, fara gegnum göng, sækja og skila, fella keilur, dansa, hlaupa í kringum keilu, hlaupa að hlut og setjast, leita að földum hlut, fara á milli fóta hjá barni og leggja höfuð sitt á teppi (sem er t.d. staðsett í kjöltu barns á meðan á samtali stendur). Þessar æfingar og trix gefa iðjuþjálfanum einstakt tækifæri til að efla þátttöku og ánægju barnsins í verkefnum tímans, sem sum teljast seint áhugaverð. Með tímanum myndar Skotta tengsl við börnin sem er fallegt að verða vitni að. Auk þess að geta gert verkefni tímans meira áhugaverðar þá má einnig sjá jákvæð áhrif á sjálfstraust barna þegar þeim tekst að fá stóran svartan hund til að gera hinar ýmsu þrautir og trix að þeirra beiðni. Þá hafa þau haft það verkefni að skipulagt þrautabraut sem þau stjórna henni í gegnum.
Börn eins og við fullorðnu eru mjög ólík og bregst Skotta ólíkt við þeim. Skotta bregst betur við yfirvegaðri framkomu, blíðlegu tali og að farið sé mjúkum höndum um hana heldur en kjánalátum og höstugum skipunum sem eru sögð í belg og biðu. Í þannig aðstæðum á hún það til að horfa og leita undan. Þannig gefst einstakt tækifæri til umræðu og æfinga í samskiptum ekki bara við dýr heldur mannfólkið líka.
Þegar barnið hefur kvatt þá er stund fyrir leik í salnum sem er góð leið til spennulosunar. Skotta á sitt uppáhalds dót sem er þá dregið fram til að togast á með, eltast með og naga. Á milli tíma hvílir hún sig í bæli inn á skrifstofu eða dundar sig við nagbein. Í hádeginum er tekin smá göngutúr á kaffihúsið Palette þar sem er sótt samloka.
Strax að loknum vinnudegi er brunað beina leið út í hraun þar sem hún fær að hlaupa frjáls í góðan tíma.
Miðvikudagur
Miðvikudagar eru hvíldardagar, þá er hún heima og sefur nær allann daginn og í lok dags sér hún til þess að Garðar skokki sína kílómetra á meðan hún fær lausahlaup í skóglendi.
Fimmtudagur
Fimmtudagar er aftur vinna í Hafnarfirði. Þá tekur hún þátt í tímum 2-3 barna. Þegar ný börn koma þá lesa þau yfir hundareglurnar fimm og samþykkja þær. Í lok tímans kveðja þau hana ýmist með handabandi, gefa “five” eða klappa henni bless. Eins og á þriðjudögum þá brunum við beint á útivistasvæði þar sem hún fær að vera frjáls til að hlaupa og þefa.
Þegar heim er komið heilsar hún upp á alla heimilismeðlimi og tekur svo beina stefnu upp í þvottahús þar sem hún leggst á staðinn sinn og kemur oft ekki niður aftur fyrr en um kvöldmatarleytið.
Helgin
Á föstudögum byrjar dagurinn í reiðhöll þar sem er tekin æfing með hundavinkonum þar sem er æft er fyrir hlýðnipróf. Um helgar er yfirleitt farið í fjallgöngur eða utanvegahlaup í nágrenni Reykjavíkur.
Samantekt
Hér hefur verið farið yfir hefðbundna viku í lífi Skottu þjónustuhunds heima fyrir og í vinnunni. Nærvera Skottu veitir mikið gagn, hún ýtir undir þátttöku í tímunum, gefur einstakt tækifæri til speglunar við félagslega hegðun og síðast en ekki síst veitir hún skemmtilega tilbreytingu í oft einsleitum aðstæðum.
Hundar sem taka þátt í íhlutun eru undir töluverðu álagi og því afar mikilvægt að til starfsins veljist einstaklingar sem þola það álag og að eigendur þeirra hafi þekkingu á bakgrunni þess að styðjast við dýr í meðferð, atferli hunda og verklagsreglna til að koma í veg fyrir og takast á við ýmis atvik sem upp geta komið. Skotta stóðst skapgerðarmat og verklegt próf þar sem hún var sett í aðstæður sem taldar eru geta endurspeglað raunverulegar aðstæður. Eitt af því sem kom hvað mest á óvart í náminu var að heyra af rannsóknum á áhrifum þess að þvinga hunda í samneyti við ókunnugar manneskjur. Niðurstöður leiddu í ljós að slíkar aðstæður valda hundum mikillar streitu. Er það í algerri andstöðu við upplifun þeirra af því að vera í samneyti við kunnugan einstakling á forsendum hundsins, sem veitir hundinum ró og vellíðan. Í þessu felst m.a. munurinn á hjálpar- og leiðsöguhundum annarsvegar og þjónustuhundum hinsvegar. Þetta sé ég skýrt í mínu starfi, þ.e. muninn á hegðun hennar og líkamstjáningu þegar hún á í samskiptum við börn í fyrsta skiptið miðað við þegar líður á. Augljóst er að fyrstu kynni reyna meira á hana. Þetta er vitneskja sem vert er að hafa í huga þegar vilji er til að styðjast við hunda í starfi með börnum, fullorðnum og öldruðum í hinum ýmsum geirum.
Eftirfarandi síður veita frekari upplýsinga um AAI (íhlutun með aðstoð dýra):
Regnhlífarsamtök stofnana sem hafa með rannsóknir á og vinnu sem felur í sér samskipti manna og dýra https://iahaio.org/
Alþjóðleg samtök sem hafa það að markmiði að búa til samfélaga fagfólks sem styðjast við dýr í starfi sínu. Samtökin leitast við að efla menntun og færni þátttakenda á sviði AAI, fræðslu fyrir almenning og eru virk í alþjóðlegu rannsóknastarfi
Grunnnám í Landbúnaðarháskólanum í Noregi um íhlutun með aðstoð dýra https://www.nmbu.no/studier/evu/kurs/node/40611
Sérhæft nám í Landbúnaðarháskólanum í Noregi um íhlutun með aðstoð hunda
https://www.nmbu.no/studier/evu/kurs/node/8968