Palli litli

Jórunn Sörensen

Það getur ýmislegt komið upp í ræktunarstarfi. Til dæmis að þegar tíkur fara í keisaraskurð að þær hafni hvolpunum sínum. Þetta gerðist þegar Palli litli kom í heiminn. Mamman hans, border terriertíkin Ronja, vildi ekki líta við honum hvernig sem að var farið. Eftir viku ákvað ræktandinn í samráði við dýralækni að leita eftir fósturmömmu fyrir hann.

Í Hafnarfirði var bedlingtontíkin Zilvur með tvo hvolpa og eigandi hennar, Elma Cates, sagði það sjálfsagt að Palli kæmi í hvolpakassann hjá Zilvur og hennar hvolpum. Það þarf ekki að orðlengja það að Palla var tekið af mikilli ástúð og alúð. Ekki bara af Zilvur og hennar hvolpum heldur af öllum hundunum á heimili Elmu. Gömlum íslenskum fjárhundum, fullorðnum bedlington og hálfvöxnum bedlington. Og á heimilinu eru ekki bara hundar heldur einnig mörg börn. Allt þetta stóra lið hugsar um Palla eins og hann hafi fæðst hjá þeim.

Bedlingtonhvolparnir eru fæddir 30. október en Palli 11. nóvember þannig að það var bæði nokkur aldursmunur og mikill stærðarmunur á hvolpunum. En Palli er sterkur og ákveðinn hundur eins og hann á kyn til og lætur ekki sitt eftir liggja að ná í sér sína næringu og athygli.

Aðlögun Palla í hvolpakassanum gekk upp á svipstundu en það var ekki sjálfsagt. Aðspurð sagði Elma: „Palli sá eiginlega um þetta sjálfur, hann var svo sterkur og ákveðinn í að komast á spena. Hann þurfti enga hjálp frá okkur“.

En af hverju gotkassi og fósturheimili? Það er gífurlega mikilvægt að hvolpar sem koma í heiminn fái rétta örvun frá móður og systkinum. Það hefði orðið ólíkar fyrstu vikur í lífi Palla ef hann hefði verið aleinn með móður sem vildi hann ekki og síðan það líf sem hann fékk með ástríkri fósturmóður og tveimur fóstursystkinum.

Margir halda að ræktendur starfi einir og hafni öllu samstarfi. Það er alfarið rangt og þessi frásögn segir okkur ekki síst hve mikilvægt það er þegar ræktendur standa saman og hjálpast að þegar á bjátar. Það eru til margar svona frásagnir þar sem ræktendur taka hvolpa í fóstur þegar svona stendur á. Í tilfelli Palla voru fleiri ræktendur sem voru tilbúnir til að taka hann að sér.

Það var gaman að koma til Elmu og fósturheimili Palla og sjá þennan litla nagla á spena, leika sér við systkinin og heilsa upp á gesti. Takk fyrir að leyfa okkur að segja frá og mynda Palla og fjölskyldu hans. Vonandi gefst okkur tækifæri til að fylgjast síðar með Palla .

 

  

        

Það er rétt að taka það fram að allir hvolparnir þrír eiga nú þegar sín framtíðarheimili