Margrét Tryggavdóttir skrifar:
Ímyndum okkur tæki sem bætti líf okkar á ýmsa vegu. Við svæfum betur, blóðþrýstingur lækkaði, hjartað yrði sterkara, ónæmiskerfið öflugra og börnin fengju síður astma og ofnæmi. Streita og þunglyndi minnkaði umtalsvert enda veittu tækin stöðugan félagsskap og þægilega nærveru. Auk þess myndi tækið svínvirka sem öflugt öryggiskerfi. Þá væri hægt að fá sérstakar útgáfur sem hentuðu sem leiðsögutæki fyrir blinda eða hjálpartæki fyrir heimilisfólk með fötlun.
Að eiga slíkt tæki væri þó ekki vandalaust. Þrátt fyrir augljósan þjóðhagslegan sparnað og ávinning myndi hið opinbera leggja sérstakan skatt á tækjaeignina; árgjald sem greitt væri svo sveitarfélögin gætu haft eftirlit með tækjunum og gefið þeim skráningarnúmer. Og ef einhver vildi eiga tvö tæki þyrfti hann að borga tvöfalt árgjald. Reyndar væri alls ekki ljóst að sveitarfélögin notuðu innheimt gjald til eftirlits en mörgum fyndist óþarfi að ræða það nánar. Settar yrðu reglur um meðferð tækisins sem gerðu notkun þeirra erfiðari og flóknari. Fólk mætti ekki fara með þau í strætó eða veitingastaði. Tækin væru heldur ekki vel séð í fjölbýlishúsum og eigendurnir væru svo reglulega úthrópaðir sem annars flokks borgarar og sóðar.
Fjarstæðukennt? Já, fyrri hlutinn, því þrátt fyrir allar heimsins tækninýjungar eru ekki enn til svo fjölhæf tæki. Enda ekki þörf á þeim því til er dýrategund sem bætir heilsu og líf eigenda sinna með áðurnefndum hætti og auðgar líf þeirra. Hundar hafa fylgt mannkyninu í þúsundir ára og samlíf fólks og hunda svo samtvinnað að þróun mannkyns hefði verið óhugsandi án hinna loðnu vina. Hundurinn hjálpaði til við veiðar, gætti barna og búfénaðar, dró sleða og kerrur, varði matarbirgðir fyrir meindýrum, hélt hita á fólkinu sínu, varaði við náttúruhamförum, fann týnt fólk og skepnur og veitti auk þess gleði og félagsskap. Með aðstoð hundsins varð maðurinn að ofurhetju og enn hefur okkur hvorki tekist að finna upp tæki sem geta allt sem hundar geta né fullnýtt alla þeirra eiginleika. Þeir eru enn ómissandi.
„Með aðstoð hundsins varð maðurinn að ofurhetju“
En þrátt fyrir margvíslegan ávinning af hundahaldi, bæði fyrir eigandann og samfélagið (t.d. í formi sparnaðar fyrir heilbrigðiskerfið) þá virðast opinberir aðilar reyna að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að flækja líf hundaeigenda og auka kostnað við hundahald. Meginreglan um að allt sé leyfilegt nema það sé sérstaklega bannað gildir ekki um hundahald. Það þarf ekki sérstakt leyfi til að eignast börn, maka eða hesta en hundur má ekki verða hluti af fjölskyldum í Reykjavík nema með sérstöku leyfi borgarinnar og 20.000 króna árgjaldi.
Nú ætla ég ekki að halda því fram að allir hundar og eigendur þeirra séu til fyrirmyndar. Svo er ekki – en það er ekki bara þeim að kenna. Á Íslandi mega hundar nánast hvergi vera með fólkinu sínu á opinberum vettvangi. Þeir mega ekki koma með í bankann, búðina, pósthúsið eða aðra staði sem við þurfum að sækja. Þeir mega alls ekki ferðast með strætó eða leika sér lausir á grasbala sem ekki er skilgreindur sérstaklega sem hundasvæði (og í mínu sveitarfélagi er ekkert slíkt svæði). Hundar sem fá aldrei að umgangast ókunnuga eða vera í mannfjölda læra ekki að hegða sér í slíkum aðstæðum. Við erum því föst í vítahring. Hundarnir læra ekki að haga sér innan um fólk og manneskjurnar læra ekki að umgangast ókunnuga hunda með þeirri yfirvegun sem nauðsynleg er.
Í löndunum í kringum okkur er lengri hefð fyrir hundahaldi í þéttbýli. Hundar ferðast með strætó og bregða sér á kaffihús án þess að fólk hrynji niður í bráðaofnæmisköstum. Ekki þarf að sækja um sérstakt leyfi til að halda hunda né greiða leyfisgjöld og engir sérstakir starfsmenn sjá um eftirlit með hundunum. Samt gengur þetta yfirleitt ágætlega.
Fjarstæðukennt? Mér finnst það ekki.
https://stundin.is/pistill/langbesti-vinurinn/
Pistilinn er birtur á Hundalífspóstinum með leyfi höfundar