18. júlí 2017

Jórunn Sörensen:

Nú hefur Dagur íslenska fjárhundsins verið haldinn í annað sinn. Í undirbúningshópnum að þessu sinni voru: Anna Kristtín Gunnarsdóttir, Brynhildur Bjarnadóttir, Jórunn Sörensen, Linda Laufey Bragadóttir, Magnea Harðardóttir, Sólrún Lilja Ragnarsdóttir og Þórhildur Bjartmarz.

Þórhildur boðaði til fyrsta fundar hópsins í Café Meskí 4. maí sl. Eftir það var fundað reglulega og hugmyndir að þema dagsins þetta árið sem og dagskrá rædd. Anna Kristín átti hugmyndina að því að þema dagsins í ár yrði nútímahlutverk íslenska fjárhundsins. Lýst var eftir frásögnum á Facebook-síðu dagsins og gerðar tillögur að dagskrá. Ákveðið var að nota sömu veggspjöld og póstkort og fyrir ári en þau voru ætluð til notkunar til tveggja ára.

DAGSKRÁ Á Café MESKÍ

Dagskrá var haldin í hádeginu á Café Meskí í Fákafeni Reykjavík

  • Lesið fyrir hund – Margrét Sigurðardóttir segir frá mastersritgerð sinni
  • Alin upp með íslenska fjárhundinum – Margrét Kjartansdóttir segir frá bernsku sinni og uppvaxtarárum á Ólafsvöllum
  • Ljósmyndir og sögur Reykjadalshundanna – Brynhildur Inga Einarsdóttir kynnir bók sína sem kom út í netútgáfu

Fundarstjóri var Guðríður Þ. Valgeirsdóttir

Vel var mætt og mikil ánægja með efni og flytjendur.

DSC_0604 DSC_0616 DSC_0620 DSC_0621

Lesið fyrir hund

Margrét Sigurðardóttir sem er æskulýðsfulltrúi á Seltjarnarnesi sagði frá MA-verkefni sínu „Lesið fyrir hund“. Hún lýsti því hvernig hún hefði heyrt af því, fyrir tilviljun, að nokkrar konur hefðu verið að láta börn lesa fyrir hunda á Iðu bókakaffi. Þetta hefði síðan þróast í að verða raunveruleg aðstoð fyrir börn sem á þurfa að halda. Til þess að halda utan um verkefnið var stofnað félagið Vigdís – Vinir gæludýra á Íslandi – sem vinnur í samvinnu við bandarísk samtök R.E.A.D. (sjá slóð fyrir neðan). Niðurstaða rannsóknar Margrétar benda ótvírætt til þess að það sé farsælt að nota hunda í lestrarþjálfun og gefa þær tilefni til frekari rannsókna á því sviði. Upplifun barnanna var afar jákvæð og sérstaklega fundu þau mikinn mun á því hvað það var betra að lesa fyrir hund en manneskju. Hundurinn truflar ekki og það er hægt að klappa honum eru dæmi um hvað börnin sögðu.

DSC_0609

Alin upp með íslenska fjárhundinum

Margrét Kjartansdóttir lýsti í máli og myndum hvernig það var að alast upp á Ólafsvöllum innan um fjölda íslenskra fjárhunda en Sigríður Pétursdóttir móðir hennar ræktaði íslenska fjárhundinn árum saman. Hún lýsti sérstaklega tveimur hundum sem hún eignaði sér. Lísu sem hún vildi alls ekki að færi burt af heimilinu og hágrét ef einhver kom og vildi fá hana. Síðan hefði Lísa verið hennar stoð og stytta á unglingsárunum. Síðan sagði Margrét frá Úlfi sem hún átti þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn og hvernig hann hefði látið vita við hvert hljóð sem frá drengnum kom, hann mátti alls ekki gráta.

DSC_0613

Ljósmyndir og sögur Reykjadalshundanna

Brynhildur Inga Einarsdóttir hefur gefið út bók á netinu með ljósmyndum og sögum af íslenskum fjárhundum sem hún hefur átt og sagði frá henni. Á meðan á frásögn hennar stóð rúlluðu einstakar myndir yfir skjáinn af hundunum hennar með eða án annarra dýra. Brynhildur Inga hóf frásögn sína á því að segja frá því þegar hún „fór í hundana“ þegar hún eignaðist golden retriever 1991. Svo sá hún íslenska tík og eftir það var ekki aftur snúið. Brynhildur Inga las einnig sögur úr bók sinni um sérstakar uppákomur þar sem hundarnir komu við sögu. Atvik sem sýna bæði einstaka hollustu hundanna sem og útsjónarsemi þeirra og ákveðni.

DSC_0615

ÍSLENSKI FJÁRHUNDURINN SÝNILEGUR

Aðalmarkmiðið með því að helga einn dag á ári íslenska fjárhundinum er að kynna tegundina og hafa hundinn sýnilegan. Í því skyni var öllum ræktendum sendur tölvupóstur þar sem sagt var frá deginum og þeir hvattir til þess að gera eitthvað skemmtilegt með hundum frá sér og eigendum þeirra. Linda Laufey setti frétt inn á síðu dagsins þar sem hún bauð til sín eigendum og hvolpum úr síðasta goti. Vegna afar slæmrar veðurspár þurfti hún að hætta við en tók í þess stað þátt í göngunni í miðbæ Reykjavíkur. Sama þurftu Þórhildur og Brynhildur að gera en þær voru búnar að ákveða að endurtaka leikinn frá því í fyrra og mæta á Þingvelli í íslenskum þjóðbúningi með sína íslensku fjárhunda.

20139927_10212264917291707_3271132103663716590_n (Mynd: Ditta og Sandra í Grundarfirði)

Ganga í miðbænum

Ganga í miðbæ Reykjavíkur fór fram þrátt fyrir slagveðrið og mættu átta hundar – allt frá hvolpum til aldraðs hunds. Höfðu bæði ferfættir sem tvífættir þátttakendur gaman af.

2860

Ganga á Selfossi

Margrét Bára Magnúsdóttir formaður DÍF skipulagði göngu á Selfossi og segir svo frá: „Það var ausandi rigning hér fyrir austan en sumir létu það ekkert á sig fá og mættu í gönguna sem byrjaði kl.15.30 það tóku 13 íslenskir fjárhundar þátt ásamt eigendum sínum en þeir sem eiga fleiri en 1 hund lánuðu þeim sem langaði að taka þátt með okkur hunda.  Hestavörubúðin Baldvin og Þorvaldur buðu upp á kaffi,ávaxtasafa,kleinur og snúða og þökkum við þeim sérstaklega vel fyrir góðar móttökur.  Það komu þó nokkrir eftir gönguna og fengu sér hressingu með okkur og spjölluðu.  Þó það hafi rignt var þetta mjög hressandi og skemmtilegur dagur ég gat ekki séð annað en hundar og menn skemmtu sér vel að degi loknum.“

20106635_10211593877100797_4093763328762978200_n 20228772_10211593876540783_7600740182865861065_n

Ganga á Ísafirði

Gilla Smoter auglýsti göngu á Ísafirði í nágrannabæjarfélögum en þegar til kom voru það bara þau hjónin sem gengu með sitthvorn hundinn. Hún segir að þau hafi verið mikið stoppuð af ferðamönnum og deilt út mörgum kortum og þetta hafi verið mjög ánægjulegur dagur.

20045607_10213804161117032_727690275817850805_o

Ljósmyndasýning í Laugarási

Sólrún Lilja Ragnarsdóttir setti upp ljósmyndasýningu á Kaffi Laugagerði Laugarási Biskupstungum. Þar voru um 100 myndir sýndar á skjá og tvær stækkaðar á vegg. Aðspurð sagði Sólrún Lilja að myndirnar væru af hundum sem hún hefði átt eða kynnst. Sýningin stóð í viku.

13765886_10154302730118965_2863885847762909677_o

Í öðrum löndum

Haldið var upp á 18. júlí í mörgum löndum og rigndi frásögnum og myndum inn á síðu dagsins eins og sjá má bæði á síðu Dags íslenska fjárhundsins og deildar íslenska fjárhundsins á Facebook.

20157989_10212403959961623_3550622332355999944_o

FJÖLMIÐLAR

Eins og í fyrra var send út fréttatilkynning til allra hugsanlegra fjölmiðla og sérstaklega bent á þema þessa árs – nútíma þjónustuhlutverk íslenska fjárhundsins. Margir tóku vel við sér.

Morgunblaðið birti greinar bæði í Viðskiptablaðinu þar sem rætt var við Margréti Báru um mikinn áhuga á íslenska fjárhundinum í öðrum löndum og hve mikið selt af hvolpum til annarra landa. Einnig birti Morgunblaðið viðtal við Margréti Kjartansdóttur um hvernig það var að alast upp í hvolpakassanum – eins og það var orðað.

Rás 1 á RÚV  tók viðtal við Jórunni og Spóa. Bylgjan ræddi við Margréti Báru og Brynhildi Ingu sem tóku hundinn Hjálm með sér í viðtalið. Stöð 2 tók myndir í upphafi miðbæjargöngunnar og kom heim til Jórunnar og sýndi hvernig Atli Katrínarson las fyrir Spóa en hann er lestrarhundur. (Sjá pistil hér fyrir neðan) RÚV endurflutti einnig gamalt viðtal við Sigríði Pétursdóttur.

8FA1997E1547D0A2BAB807C93E11193A5ECCCB30B63E45066BA3B74BF4549AE2_713x0

AÐ DEGINUM LOKNUM

Við í undirbúningshópi Dags íslenska fjárhundsins þökkum öllum þeim sem tóku þátt í að gera daginn skemmtilegan og eftirtektaverðan.

Það var mjög ánægjulegt að sjá allar sögurnar, kveðjurnar og myndirnar af íslenskum fjárhundum streyma inn á síðu Dags íslenska fjárhundsins og deildar íslenska fjárhundsins.

Hjálpumst öll að við að gera ímynd þjóðarhundsins jákvæða eins og hann á skilið.

  1. JÚLÍ – Dagur íslenska fjárhundsins er góður vettvangur til að vekja áhuga á kyninu.

http://hundalifspostur.is/2016/05/26/lesid-fyrir-hund-3/

Myndin sem fylgir greininni á Hundalífspóstinum er af Dranga Gretti sem var líklega yngsti íslenski fjárhundurinn sem tók þátt í hátíðardagskránni.