Hundalestur sem lokaverkefni

Rannsakaði áhrif þess að láta börn lesa fyrir hunda

Aron Þórður Albertsson mbl.is:

Uppeldis- og menntunarfræðingurinn Margrét Sigurðardóttir kynnti á dögunum meistaraverkefni sitt á málþingi meistaranema við Menntavísindasvið. Verkefni Margrétar gekk út á að kanna áhrif þess að láta börn lesa fyrir hund einu sinni í viku. „Ég heyrði fyrst af þessu fyrir fjórum árum þar sem börn mættu og lásu fyrir hund, ég hafði aldri heyrt af slíkri rannsókn áður. Í framhaldinu ákvað ég að gera þessa rannsókn. Rannsökuð voru börn sem höfðu lítinn sem engan áhuga á lestri og glímdu við smávægileg vandamál eins og ADHD,“ segir Margrét. Í rannsókninni voru notaðir fjórir krakkar og fjórir hundar, hvert barn var með sinn hund. Verkefnið var samstarfsverkefni milli skóla og félagsmiðstöðva og var framkvæmt á þriggja mánaða tímabili. Einu sinni í viku, 40 mínútur í senn, fór barnið yfir í félagsmiðstöð skólans þar sem það las fyrir hundinn.

Hundur veitir ómælda athygli

Margrét telur að með því að láta börn lesa fyrir hund myndist nánd sem ekki sé endilega hugað nægilega að í náminu. „Það sem er öðruvísi við þetta er að hundurinn sýnir þeim ómælda athygli. Þau eru aldrei stoppuð á meðan þau lesa. Til að mynda þegar þau lenda á erfiðu orði er orðið ekki botnað fyrir þau eins og oft er gert þegar þau lesa fyrir fullorðna; hundurinn hlustar sama hvað gerist og truflar ekki. Þegar börn lenda síðan á erfiðu orði gefst þeim kostur á að spyrja kennarann, sem aðstoðar þau við að útskýra orðið fyrir hundinum. Með þessu móti er barnið aldrei leiðrétt en í staðinn kennir það hundinum, það veitir börnunum vellíðan,“ segir Margrét og bætir við að hugsanlega þurfi að huga að meiri nánd í námi barna. Niðurstöður úr rannsókninni sýndu að áhugi á lestri jókst til muna og krakkarnir áttu auðveldara með samskipti. „Lesskilningur jókst hjá helmingi barnanna auk þess sem áhuginn á lestri jókst töluvert mikið. Svo dæmi sé tekið var barn í rannsókninni sem var með mikið vesen og læti í skólanum, hann var algjörlega til friðs hjá okkur. Það var sá krakki sem las hvað lengst af öllum, í 30 mínútur án þess að stoppa,“ sagði Margrét

Matthías - Line

GÆLUDÝR GETA MINNKAÐ STREITU

Margrét bendir á að hundar veiti krökkunum nánd og vellíðan, mörg dæmi séu um að gæludýr geti aukið lífsgæði fólks. Einungis það að vera í sama herbergi og gæludýr getur haft einstaklega róandi áhrif. Þegar fólk horfir á gæludýrið sitt losar það um oxýtósín, sem fyllir okkur af gleðitilfinningu. Auk þess dregur það úr framleiðslu á streituhormónum. Hermaður sem þjáðist af áfallastreituröskun gat aldrei farið út úr húsi án eiginkonu sinnar. Honum var ráðlagt að fá sér hund, og innan viku var hann farinn að fara allra sinna ferða án eiginkonunnar en alltaf með hundinn sér við hlið.

Morgunblaðið þriðjudaginn 6. júní

Aron Þórður Albertsson