Kæru félagsmenn.
Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til endurkjörs í aðalstjórn Hundaræktarfélags Íslands.
Ég hef setið í stjórn Hundaræktarfélags Íslands síðastliðin tvö ár. Þegar ég gaf kost á mér fyrir tveimur árum síðan hafði ég ýmsar hugmyndir um það hvernig mig langaði að bæta og styrkja stöðu félagsins, koma á frekari samskiptum milli HRFÍ, yfirvalda og almennings ásamt því að auka fræðslu svo fátt eitt sé nefnt.
Undanfarin tvö ár hefur stjórn félagsins þó að stórum hluta þurft að einbeita sér að öðrum þáttum, það er verkefnum er snúa að skrifstofu félagsins, starfsmannamálum, rekstri og vinnubrögðum. Því er ég fullur eftirvæntingar að fá að starfa áfram með þeirri góðu stjórn sem setið hefur síðasta starfsár, halda áfram að efla félagið og fjölga félagsmönnum, bæta aðstöðu félagsmanna, styðja við ræktendur og efla fræðslu.
Í ágúst 2015 fékk ég tækifæri til að fræða landsmenn um hunda og hundamenningu þegar ég hafði umsjón með dagskrárgerð að þáttunum „Besti vinur mannsins“ á Stöð 2. Það var skemmtilegt verkefni þar sem ég fékk ýmsa með mér í lið, meðal annars félagsmenn HRFÍ sem kynntu sínar hundategundir og hundaþjálfara til að segja frá mikilvægi þjálfunar. Einnig fylgdist ég með veiði- og vinnuhundum að störfum og svo mætti lengi telja. Þetta var með því skemmtilegra sem ég hef gert og hefði ekki verið hægt að framkvæma nema fyrir áhuga félagsmanna til að fræða aðra um hundategundirnar og hversu stórkostlegir hundar geta verið. Því vil ég nota tækifærið og þakka félagsmönnum fyrir þátttökuna.
Ég vil áfram bjóða fram krafta mína í öflugu starfi félagsins og óska eftir ykkar stuðningi.
Daníel Örn Hinriksson.