Sóknarfæri HRFÍ

Þórhildur Bjartmarz

Á heimasíðu Hundaræktarfélags Íslands www.hrfi.is   er að finna bókun stjórnarfunda. Eftirfarandi bókun er frá fundi stjórnar HRFÍ miðvikudaginn 18. nóvember 2015 varðandi félagsaðild:

Þá var lagt til og samþykkt að nýjum hundaeigendum yrði boðin ókeypis félagsaðild fyrsta árið svo fremi þeir hefðu ekki áður verið aðilar að félaginu. Aðildin gildi út almanaksárið eða til 31. desember.

Það er vonandi að margir nýir hundaeigendur nýti sér þetta glæsilega tilboð Hundaræktarfélagsins og þeir sjái sér hag í því að skrá sig í HRFÍ og félagmönnum fjölgi til muna í kjölfarið.  En það er áhugavert að skoða þessa samþykkt nánar og ég spyr mig hvort hún sé nógu ýtarleg.

Hvað er að vera nýr hundaeigandi?

Ef Sigga sem fékk sér hund og gekk í HRFÍ árið 1990 og var félagsmaður til 2000 tekur við nýjum hvolpi í janúar 2016 eftir að hafa verið hundlaus í 15 ár þá er hún klárlega í mínum huga nýr hundaeigandi en fær ekki þessi glæsilegu vildarkjör HRFÍ.  En Jón sem fær hvolp úr sama goti fær ókeypis félagsaðild af því að hann hefur ekki áður verið félagsmaður í HRFÍ.

Sigga sýnir því vonandi skilning að hún þarf að borga því að hún var búin að borga einhvern tímann áður samfleytt  í 10 ár. Það getur orðið erfitt fyrir starfsfólk félagsins að útskýra þetta en vonandi sýnir Sigga félaginu hollustu og borgar félagsgjaldið sitt með bros á vör.

Hér opnast einnig leið fyrir hundaeigendur sem vilja taka þátt í vinnuprófum en hafa ekki áður verið félagsmenn í HRFÍ. Borga prófgjaldið, ná jafnvel að mæta  t.d. í þrjú hlýðnipróf á einu ári. Því samkvæmt bókuninni þá er ekki talað um aldur hvolpa eða hunda. Viðkomandi getur talist nýr hundaeigandi þótt hann sé með hund sem er eldri en eins árs. Eflaust nýtir sér einhver tækifærið og vill skrá sig undir þessum formerkjum þegar næsta augnskoðun fer fram.

Það verður áhugavert að sjá hverju þetta skilar fyrir félagið. Vonandi áframhaldandi félagsaðild eftir árið og margir ræktendur fagna því það verður án efa auðveldara að fá hvolpakaupendur á sýningar.

Svo er enn ein spurningin. Er svo auðvelt að sjá hvort Sigga hafi verið félagsmaður fyrir svo og svo mörgum árum síðan?

Þetta eru bara smápælingar en svo er annað sem vekur eftirtekt í sömu bókun:

Jafnframt yrði sýningastjórn veitt heimild til að veita afslátt af skráningagjöldum á hvolpasýningar til að auka áhuga á sýningum félagsins.

Á sama fundi ákvað stjórnin 6% hækkun á sýningagjöldum.

Í lögum HRFÍ 14. grein stendur: Stjórn félagsins ákveður gjaldskrá félagsins fyrir ár hvert.

Samkvæmt þessari bókun frá fundinum 18. nóvember er sýningastjórn veitt opin heimild til að ákveða skráningagjöld á hvolpasýningar í formi afsláttar. Þar með ákveður sýningastjórn verð fyrir þátttöku á hvolpasýningar en ekki stjórn HRFÍ. Er þetta ekkert skrýtið? Má þá til dæmis ekki Vinnuhundadeild veita afslátt til að auka áhuga á hlýðniprófum. Það er mjög þarft verkefni.

En verkefni næsta árs verður að fá fleiri félagsmenn í Hundaræktarfélag Íslands. Þetta er sóknarfæri, stjórn félagsins er stórhuga og býður alla nýja hundaeigendur velkomna í Hundaræktarfélag Íslands.