Sagan af Glaumi

SAGAN AF GLAUMI eftir Ásdís Gunnars

Mig langar til að segja ykkur aðeins frá því hvernig Glaumur varð okkar. Glaumur er þriggja ára labrador hundur sem við erum búin að eiga í um það bil fjóra mánuði. Við Garðar höfðum oft rætt hvort að það væri kannski sniðugt að bæta við hundi í fjölskylduna og þá aðallega fyrir Fjólu Röfn að alast upp með einhverjum sem væri einlægur, heiðarlegur og umfram allt HENNAR. Ég hafði séð þátt í sjónvarpinu sem heitir ,,Besti vinur mannsins“ og þar sat í minni þáttur um unga konu sem var með stelpu með fötlun í stuðningi. Hún átti þrjá gula labradora og samband þeirra við stelpuna var algjörlega einstakt. Ég hugsaði með mér að þetta væri eitthvað sem ég mundi vilja fyrir okkur og fyrir Fjólu.

Ég fór að spurjast fyrir á facebook um hvaða tegund væri sniðug og bað almennt um ráð varðandi þetta mál og mér var ítrekað bent á Labrador. Svo voru einhverjir sem sendu mér skilaboð og bentu mér á ræktun og nafn konu sem fólk taldi hafa reynslu í þessum efnum. Ég sendi á hana skilaboð en þekkti hana ekkert né vissi hver hún væri. Í ljós kom að þetta var konan í þættinum en hún heitir Sigrún Guðlaugardóttir. Ég spurði hana spjörunum úr og hún svarar mér og bendir mér meðal annars á að svona samband milli hunds og barns sé ekki eitthvað sem maður getur pantað heldur sé þetta í raun ,,happa glappa.“ Ég sagði henni að þó svo að tengslin yrðu ekki eins hjá Fjólu og framtíðar hundinum okkar þá værum við samt sem áður að skuldbinda okkur að fá okkur hund fyrir okkur sjálf líka. Sigrún spurði mig hvort ég vildi leyfa Fjólu að prófa að hitta einn af hennar hundum til að sjá hvernig Fjóla brygðist við, þar sem hún hafði aldrei hitt svona stóran hund áður. Ég svaraði því játandi og hún kom í heimsókn stuttu síðar. Fjóla elskaði voffa og voffi var svo ótrúlega skemmtilegur og spenntur fyrir Fjólu og ég varð ástfangin um leið. Það sem ég vissi ekki var að Sigrún kom og hitti okkur með það í huga að leyfa okkur að fá Glaum ef henni og Glaumi litist vel á okkur. Ég varð auðvitað klökk, ótrúlega þakklát og sjúklega spennt en Glaumur varð okkar nokkrum dögum síðar.

 

glaumur 1 Glaumur 2

Ástæðan fyrir því að ég skrifa þessa grein er vegna þess að ég er svo þakklát Sigrúnu og ég er svo ánægð að hafa tekið þá ákvörðun að bæta hundi við okkar fjölskyldu. Það er alveg ótrúlegt hvað það gefur okkur öllum mikið og Fjóla Röfn elskar Glaum sinn meira en allt. Meira að segja er ,,Glaumur“ táknið sem hún notar mest en Sigrún kenndi Fjólu það einmitt þegar hún kíkti á okkur í heimsókn eitt skiptið. Þegar við sækjum Fjólu á leikskólann þá segir hún ,,HEMM“ (heim) og gerir táknið fyrir Glaum sem er tvö klöpp á bringuna en þá getur hún ekki beðið eftir að fara heim og knúsa Glaum. Glaumur er eitt það allra besta sem hefur komið fyrir okkur en hann er einfaldlega ástsjúkur og lifir fyrir það eitt að elska og vera elskaður… og reyndar borða (rosalega mikið)… og fara út að leika.

Takk Sigrún fyrir að vera svona góð, takk svo ótrúlega mikið!

http://pigment.is/menning/lifid/2017/02/sagan-af-glaumi 

Birt með leyfi pigment.is