Frá málþingi DÍS sem haldið var 30. janúar

Valgerður Stefánsdóttir:

Málþing Dýraverndunarsambands Íslands

Það er svo mikilvægt að við komum saman til að tala um dýrin sagði Hallgerður Hauksdóttir formaður Dýraverndarsambands Íslands þegar hún bauð gesti velkomna á málþing um velferð gæludýra mánudaginn 30. janúar sl. en DÍS hefur að markmiði að stuðla að umræðu um dýr, minna á hið góða og af hverju dýrin skipta okkur máli. Í því skyni voru veittar viðurkenningar og flutt erindi um dýrin og samband okkar við þau.

Veitt var viðurkenning til dýraverndara ársins 2016 en í ár var það Valgerður Valgeirsdóttir sem tók við viðurkenningu til Dýrahjálpar Íslands fyrir ötult starf í þágu heimilislausra dýra. Hallgerður lýsti því hvernig dýrahjálpinni hefur í sjálfboðastarfi tekist að breyta viðhorfum almennings til heimilislausra dýra og sérstaklega eldri dýra. Nú sé fólk t.d. farið að vilja veita gömlum dýrum heimili en það hafi ekki verið algengt áður og dýralæknar hafa bent á að starf Dýrahjálparinnar hafi fækkað umtalsvert dýrum sem þeir þurfi að aflífa.

Tvennir styrkir að upphæð 60.000 kr voru veittir til dýraverndar.

Viðurkenning og styrkir

 

Verkefnið Project Henry fékk styrk en starf verkefnisins snýst um að verja varpstaði og minnka afföll andarunga á Læknum í Hafnarfirði. Félagið er eins manns félag eða Guðmundar Fylkissonar sem m.a. hefur staðið fyrir því að loka ræsi sem ungarnir soguðust niður í og drukknuðu. Félagið vill nota fjárstyrkinn til að gera ungastiga við stíflur í Læknum.

Rakel Linda Kristjánsdóttir formaður Félags ábyrgra hundaeigenda tók við fjárstuðningi DÍS fyrir hönd félagsins til þess að stuðla áfram að aukinni ábyrgð hundaeigenda á hundunum sínum s.s. umhverfisþjálfun, uppeldi og vinnu með hundunum og vinna að því að samfélagið geri ráð fyrir hundum.

Valgerður Valgeirsdóttir kynnti þvínæst starfsemi Dýrahjálpar Íslands. Í upphafi, árið 2008, setti félagið sér það markmið að opna athvarf fyrir heimilislaus dýr en hrunið setti strik í reikninginn og erfitt var að fá styrki til þess að fjármagna slíka starfsemi. Hins vegar var mikil fjölgun á hundum eftir hrunið og þörf fyrir athvarf jókst. Félagið brást við með því að þróa fósturheimilakerfi. Búinn var til listi yfir sjálfboðaliða sem voru tilbúnir til þess að taka hunda í fóstur tímabundið á heimilum sínum og aðrir sjálfboðaliðar héldu utan um starfið. Á milli 6 og 7 þúsund dýr hafa fengið heimili á þeim 8 árum sem dýrahjálpin hefur starfað.  Flest dýr eru á heimilum sínum þar til fundið hefur verið framtíðarheimili en um 10% fara í gegnum kerfi fósturheimila. Félagið hefur þróast mikið á þessum 8 árum sem það hefur starfað og öðlast meiri viðurkenningu með því að starfsemin hefur færst meira til samstarfs við opinbera aðila s.s. eins og að taka þátt í undirbúningi að setningu reglugerðar um velferð gæludýra. Nú hefur starfsemin eflst og verið er að skoða hvort mögulegt er að opna athvarf. Samtökin byggja starf sitt á fjárframlögum, sjálboðaliðastarfi og sölu jólakorta og dagatala til fjáröflunar. Hafi fólk áhuga getur það gerst sjálfboðaliði, boðið fósturheimili eða styrkt félagið með fjárstuðningi. Dýrahjálp Íslands verður með kynningarbás á stórhundadögum.

Jón Ásgeir Kalmansson doktor í siðfræði hélt það sem hann kallaði örhugleiðingu um gæludýr. Hann hóf mál sitt með því að vitna í bókina The Philosopher’s Dog eftir heimspekinginn Raimond Gaita. Þar lýsir Gaita kynnum sínum af dýrum í æsku, samskiptum þeirra og tengslum við mennina. Gegnum sögur af dýrunum skynjum við virðingu fyrir þeim og heiðri þeirra. Gaita lýsti m.a. lífinu á æskuheimili sínu með skúfpáfanum Jack og því hvernig er að vera kysstur af skúfpáfa: „Hann setur efri hluta goggsins á efri vör mannsins og nartar blíðlega um leið og hann rennir honum niður á neðri vörina segjandi „tsk tsk tsk“.  Jón benti okkur á hve samskipti mannanna og annarra dýra eru flókin og margræð. Við erum dýr og deilum skyldleika með þeim og höfum þörf fyrir félagskap, snertingu og hlýju. Á milli manna og annarra dýra skapast djúpt og innilegt samband sem vekur upp margslungnar spurningar. Eins og hvaða þýðingu dýrin og samskipti við þau hafa fyrir líf okkar. Það er nauðsynlegt í því samhengi að geta hugsað með hjartanu um dýr en ekki út frá t.d. þróunarfræði. Þegar pabbi Gaita var fjarri og hann var einn um nótt sefaði hundurinn ótta og erfiðleika. Nærvera dýra bætir þannig tilfinningalega og andlega líðan, stuðlar að heilbrigði, bata og hamingju. Dýr eru kunn fyrir að draga úr stressi og kvíða og gera fólk vonglaðara. Bandið á milli okkar og dýra er líkt fjölskylduböndum þar sem heilsa okkar og hamingja byggist á samskiptum og trausti. Að geta gleymt sjálfum okkur, að geta gefið og tekið ábyrgð á öðrum. Dýrin kalla á það besta í fólki, tengja fólk saman og skapa virkara og betra samfélag.

Tengslin við dýrin geta líka skapað innri togstreitu og glundroða. Við tiplum í kringum heimilisköttinn en eltum minkinn með morðóðum glampa í augum og vísaði Jón þar í minningu af sóknarprestinum að elta mink með skóflu eftir hlaðinu. Við viljum ekki vera vond við Sám en börnunum er sagt að klára verksmiðjukjúllann af disknum.

Gaita veltir fyrir sér ákvörðunum sem menn taka varðandi örlög dýranna. Þegar hann flutti með föður sínum úr sveitinni var Jack skilinn eftir á bænum. Hann var ekki talinn geta aðlagast lífinu í borginni. Hann lýsir því þegar hundurinn réðist á heimilislæðuna og stórslasaði hana og þeirri angist sem fylgir því að taka ákvörðun um hvort eigi að lóga kettinum. Ábyrgðinni fylgir angist sem sumir eiga erfitt með að takast á við. Jón var eitt sinn beðinn um að koma með vini sínum til dýralæknis með heimilisköttinn og fékk það hlutverk að afhenda hann dýralækninum til að aflífa hann. Við erum þannig  sakbitin og reynum að fjarlægja okkur frá ábyrgðinni. Ábyrgðin á heimilisdýrinu lendir á þriðja aðila sem skilar henni til fjórða aðila.

Jón velti því fyrir sér hvort og hvernig við getum haft heiður dýra og virðingu að leiðarljósi. Hann vitnaði í Gaita þegar hann segist ekki hafa lógað heimilislæðunni vegna þess að eina verkfæri við höndina var skófla og það að nota skóflu til að lóga henni væri árás á virðingu hennar. Rithöfundurinn Coetzee segir frá því í bókinni Vansæmd að hann hafi valið að brenna hundshræ því hann vildi ekki láta pressa það í ruslagámi. Þannig benti Jón á að virðingin fyrir dýrunum nái út fyrir gröf og dauða. Líf hvers lifandi einstaklings hefur þýðingu sem ekki er bara tengt sársauka heldur gefur sérhverri lifandi veru sérstakt gildi og reisn.

Þóra Jónsdóttir sérgreinadýralæknir gæludýra og dýravelferðar fjallaði þar næst um af hverju er það andstætt velferð hunda að hafa þá daga langa í litlum ferðabúrum – en bann við því tók gildi með nýrri reglugerð um velferð gæludýra (nr. 80/2016). Hún benti á að dýr hafi eigið gildi og að þau séu ekki til bara fyrir okkur. Við eigum að tryggja þeim lágmarksaðbúnað og gera líf þeirra það ríkt að þau njóti þess. Tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja velferð og heilbrigði gæludýra með góðri meðferð, umhirðu og aðbúnaði og að þau geti lifað í samræmi við sitt eðlilega atferli, eins og framast er unnt. Það er brýnt að kynna reglugerðina fyrir hundaeigendum á Íslandi í dag og sérstaklega búrvistun hundanna enda útbreiddur misskilningur að þeir vilji dvelja í ferðabúrum. Búrin séu eingöngu ætluð til tímabundins flutnings milli staða en ekki til varanlegrar geymslu. Ferða- eða flutningsbúr á að vera það rúmt að hundurinn geti staðið í því, snúið sér við, legið og hvílst. Undirlagið á að vera mjúkt og rakadrægt og göt eða rimlar sem tryggja góða loftræstingu og útsýni. Einnig þurfa vistarverur hunda að vera lausar við hávaða. Rýmið skal taka mið af fjölda hunda og allir skulu geta legið í legurými samtímis í náttúrulegri stöðu, t.d. flatri hliðarlegu.

Í grein 18 um aðbúnað og umönnun er fjallað um lágmarksstærðir í vistarverum hunda. Aðbúnaður og aðstaða hunds skal hæfa stærð hans, tegund og aldri með tilliti til hvíldar og hreyfingar. Sé hundur hafður í búri eða stíu skal gætt að lágmarkskröfum skv. 1. lið viðauka II. Til dæmis þarf hundur sem er 46-55 sm á herðakamb 3,5 fm búr. Þakið á að vera nægilega hátt til að hundur geti staðið á afturfótunum án þess að reka sig upp undir og aldrei lægra en 1,3 m. Hundar eiga að geta horft út úr búrinu frá minnst einni hlið og ekki má stafla búrum.

Gerðar eru undantekningar með geymslu hunda í flutningsbúrum á hundasýningum, hundakeppnum og hundaprófum, vinnu til gagns og við þjálfun fyrir framangreind tilvik. Útsýni úr búri skal hindrað frá tveimur hliðum. Hundur skal viðraður minnst á þriggja klukkustunda fresti yfir daginn. Á keppnis- og þjálfunarstöðum eða á ferðalögum er heimilt að geyma hund í búri eða lausan í flutningstæki yfir nótt ef hitastig leyfir skv. 2. mgr. en að hámarki í átta klst. Hundur á að öðru leyti ekki að dvelja í kyrrstæðu ökutæki lengur en þrjár klukkustundir. Og aldrei má skilja hund eftir í bíl án eftirlits ef hitastig getur farið yfir +25ºC eða undir -5ºC. Aldrei má skilja hund einan eftir í flutningstæki ef hann sýnir merki um vanlíðan.

Greinargerð var skrifuð með reglugerð um dýravelferð. Starfshópurinn lagði áherslu á að hún yrði birt með reglugerðinni en atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti svaraði að það væri ekki samkvæmt venju og hefur ekki gert það. Greinargerðin skýrir nánar greinar reglugerðarinnar og er ætluð til að auka skilning á henni.

 

Hallgerður Hauksdóttir fór því næst yfir niðurstöður starfshóps Strætó bs um gæludýr í strætó

Nú er í reglugerð að ekki megi flytja dýr í strætó en undanþága er þó fyrir hjálparhunda. Starfshópurinn skoðaði hvaða leiðir eru færar til þess að leyfa gæludýr í strætó. Fyrst var gerð áhættugreining og talið upp allt sem mælti gegn gæludýrum í strætó. Það sem kom til greina var til dæmis að gæludýr ráðist á vagnstjóra, farþega eða annað gæludýr, ofnæmi, hræðsla og ofsakvíði, óþrifnaður, slysahætta fyrir dýr, hávaði o.s.frv.

Bent var á að gæludýr eru á 39% heimila og skoðað var einnig hvaða þætti mætti líta á sem mismunun gagnvart fólki sem heldur gæludýr. Ferðafrelsi fólks sem ekki á einkabíl er skert. Það kemst ekki með gæludýr til dýralæknis, kemst ekki á lausagöngusvæði, ekki í pössun, heimsókn, á námskeið eða sýningar. Grænn lífsstíll er því ekki valkostur fyrir eigendur gæludýra. Auk þess var bent á að til er fólk í samfélaginu sem ekki getur ekið bíl s.s. blindir eða fólk úr hópi geðfatlaðra og aldraðra. Þá var nefnt að erfitt er að umhverfisþjálfa dýr ef hvergi má vera með þau.

Starfshópurinn leitaði lausna á þeim áhættuþáttum sem skráðir höfðu verið og mismunun og setti fram niðurstöðu sína með tillögu um 12 mánaða reynslutíma á höfuðborgarsvæði.

Í tillögunni voru drög að reglum þar var til dæmis nefnt að ekki mætti fara með gæludýr í strætó á annatíma eða kl 7-9 og 15-18 á virkum dögum. Dýrið væri á ábyrgð þess sem ferðast með það, öll dýr ættu að vera í búri nema stærri hundar sem væru hafðir í brjóstabeisli með fastan taum. Rakkar sem merkja eru hafðir með rakkabindi og órólegir hundar með munnkörfu. Dýraeigendur eiga að borga fremst og fara með dýrið aftast í vagninn. Eingöngu má ferðast með eitt gæludýr í einu eða eitt búr og engöngu ákveðnir flokkar gæludýra eru leyfðir t.d. mætti ekki fara með svín í brjóstabeisli í strætó. Bent var á að eigendur dýra bera með sér ofnæmisvaka á fötum þótt dýrin séu ekki meðferðis þannig væri hægt að taka frá t.d. þrjár fremstu sætaraðirnar fyrir fólk sem hefði ofnæmi og með því móti bætt stöðuna frá því sem nú er. Verði verkefnið samþykkt mun ákveðnum tilmælum vera beint til farþega og þau sett á heimasíðuna til kynningar. Hallgerður hvatti gesti til þess að tala um dýr í strætó og benda á í umræðunni að það sé leyft að vera með dýr í almenningsfarartækjum í öllum löndum sem við berum okkur saman við.

 

Gestir

Fyrirlesarar

 

Eftir kaffiveitingar sköpuðust líflegar umræður út frá efni málþingsins. Út frá reglugerð um velferð dýra var rætt um skyldur okkar gagnvart dýrunum þegar við verðum vitni að illri meðferð. Á heimasíðu MAST er bleikur hnappur ÁBENDINGAR sem fólk getur notað ef það verður vart við dýraníð. Sérstaklega var bent á hunda og bíla. Ef hundur er í lokuðum bíl í hita og líf er í húfi var bent á að í Svíþjóð má brjóta rúðu á bílnum. Þóra benti á að allir hafi þá skyldu að hjálpa dýri í neyð.

Nokkur umræða skapaðist um greinargerð um reglugerð um dýravelferð og óskaði fólk eftir að fá aðgang að henni til þess að fá betri skilning á reglugerðinni. Dýraverndarsambandið fékk greinargerðina í pósti frá ráðuneytinu og ætlar að skanna hana inn og mun birta á heimasíðu sinni.

Vangaveltur voru um hvernig við notum orð sem tengjast dýrum í tungumálinu á neikvæðan hátt eins og hundleiðinlegur, nautheimskur, skepnuskapur, skynlaus skepna, dýrslegur o.s.frv. og hvort þetta endurspeglaði ekki viðhorfið að við værum æðri dýrunum og væri aðferð til að fjarlægja okkur frá þeim. Jón Ásgeir tók dæmi  af því að hommar hefðu snúið neikvæðri orðræðu sér í vil og velti fyrir sér hvort við þyrftum ekki að fara í herferð gegn því að nota málið á þennan hátt.

Þá var rætt um aukna hræðslu gagnvart dýrum og hvað ylli henni. Erum við orðin svo fjarlæg náttúrunni? Þurfum við að umhverfisvenja fólk við dýrin og vera sýnilegri í samfélaginu? Félag ábyrgra hundeigenda tók dæmi af því hvernig viðbrögð fólks við árlegri aðventugöngu félagsins hefðu breyst. Áður fyrr brá fólki við að mæta göngunni en í dag er fólk orðið afslappaðra.

Við höfum vald og ráðum hvort dýrin lifa eða deyja. Talað var um líknandi meðferð og aflífun dýra. Hver munurinn væri á gæludýri og búfé þegar kemur að því að aflífa eða slátra. Viðhorf okkar er ólíkt eftir því hvort dýrið er félagi eða ætlað til matar. Við leggjum ólíka merkingu í ólíka hluti. En það er mikilvægt að hugsa þetta aftur t.d. hvort það er réttlætanlegt að hugsa um meindýr eins og við gerum? Hrefna dýrafræðingur taldi varasamt að draga dýrategundir í dilka. Bera eigi virðingu fyrir öllum dýrum. Öll hafi þau móðureðli, sinni uppeldi, eigi sitt táknmál o.s.frv.

Að lokum var fólk hvatt til að deila og ræða reglugerð um dýravelferð og bent á fyrirspurnir og ábendingar á  mast@mast.is. Á dyrahjalp.is má finna upplýsingar um hvernig má styrkja dýrahjálpina en alltaf vantar fósturheimili. Hvatning var send til allra um að koma á viðburði sem stofnanir er sinna dýravelferð halda.

 

 

Line Sandstedt 19. apríl 2015 031

Hundalífspósturinn þakkar Valgerði Stefánsdóttir fyrir skrifin