Hundur hraktist á haf út

 ruv.is Tryggvi Aðalbjörnsson:

Björgunarsveitarmenn á þremur bátum leituðu síðdegis í gær árangurslaust að hundi sem synti á haf út frá Álftanesi. Eigandi hundsins fann hann drukknaðan í fjöru í dag.

Eigandinn segist hafa verið á gangi með tvo hunda yst á Álftanesi þegar annar hundurinn hafi hlaupið frá honum. Sá hafi síðan orðið hræddur og hrakist niður í fjöru og út í sjó. Samkvæmt upplýsingum frá svæðisstjórn björgunarsveita var Hjálparsveit skáta í Kópavogi kölluð út á fjórða tímanum í gær og leitaði á sjónum, á skerjum og í fjörum á þremur bátum í á aðra klukkustund.

Eigandinn gekk fjörur í gærkvöld og í morgun ásamt fleirum, en segist að lokum hafa fundið hann drukknaðan uppi í fjöru. Hundurinn var af tegundinni ungversk vizsla, sem eru meðalstórir hundar, brúnir og snögghærðir, en þessi þótti smávaxinn fyrir þetta afbrigði. Hundar af þessari tegund eru sagðir almennt vel syndir en þessi mun ekki hafa verið vanur sundi.

http://ruv.is/frett/hraktist-a-haf-ut-og-drukknadi