Harmurinn að baki hæpnum lögum

Þessi grein Bergljótar Davíðsdóttur birtist í Kvennablaðinu fyrir tæplega ári síðan.

Ég hef lengi barist leynt og ljóst fyrir almennilegri hundamenningu á Íslandi. Í starfi mínu sem blaðamaður hefur dýravernd og gæludýraeign verið eitt af mínum hjartans málum og ég hef allar götur frá því ég eignaðist sjálf minn fyrsta hund árið 1999 notað öll tækifæri sem mér hafa gefist til að vekja athygli á því sem betur má fara í þeim efnum.

Í nokkur ár hélt ég úti síðu einu sinni í viku í DV sem fjallaði um dýr og ég barðist eins og frekast ég gat til að vekja athygli á hvernig farið hefur verið með hunda í Dalsmynni. Eftir á að hyggja misnotaði ég aðstöðu mína sem blaðamaður og gætti ekki hlutleysis vegna þeirrar hugsjónar minnar að láta gott af mér leiða. En það er önnur saga.

Síðan eru liðin meira en fimmtán ár og mikið hefur breyst til batnaðar meðal þeirra sem eiga gæludýr. En að sama skapi hefur lítið sem ekkert breyst hvað stjórnsýsluna varðar. Dalsmynni starfar enn og þar fá ábúendur óáreittir að „framleiða“ hvolpa – ekki rækta, án afskipta stjórnvalda. Þar eru tíkur lokaðar inn í dimmum stíum og gjörnýttar til framleiðslu. Þær sjá nær aldrei dagsljósið, fá aldrei að hlaupa um grænar grundir, fá aldrei að þjóna eðli sínu sem hundar og tengjast húsbónda sínum eins og hundum er náttúrulega eðlislægt.

Meðferð sem þessi viðgengst áfram þrátt fyrir að ný lög um vernd dýra hafi verið samþykkt frá þingi árið 2013. Þá höfðu þau velkst um í þinginu í mörg ár og ekki náð í gegn og jafnan frestað. Og það sem er enn verra, ekki unnið samkvæmt þeim eins og dæmin sanna.

En það eru ekki aðeins lög um dýravernd sem ekki þjóna þeim tilgangi sem þeim er ætlað. Lög um fjöleignarhús 26/1994 sem samþykkt voru á Alþingi árið 1994, eru ekki síður slæm með tilliti til velferðar dýra.

Í umræðu um lögin í nefndum, árið sem þau voru voru afgreidd sem lög frá Alþingi, var bætt inn í þau ákvæði um takmörkun á gæludýrahaldi en fyrst þegar frumvarpið var lagt fram var ekki að finna neitt ákvæði sem bannaði það. Aðeins ein grein í frumvarpinu kvað á um gæludýr og hljóðaði hún á þá leið að húsreglur kvæðu á um hvernig þeim skyldi háttað ef samþykkt væri með einföldum meirihluta að leyfa það, eða banna.

Breytingin þýddi einfaldlega að einn íbúðareigandi í átta íbúða fjölbýlishúsi gat óskað eftir húsfundi þar sem greidd væru atkvæði um hvort hundur viki úr íbúð eiganda. Aðeins þurfti ákvörðun minnihluta eigenda til samþykktar.
Á síðustu tuttugu árum hafa þessi lög valdið meiri sorg en nokkur getur ímyndað sér. Örlög fjölda gæludýra hafa ákvarðast af samþykktum sem þessari og kostað mikinn harm meðal eigenda og ekki síst barna sem þurfa að sjá á eftir gæludýrum sínu, beint í dauðann, á þvæling manna á milli en í besta falli hefur eigendum tekist að finna dýri sínu gott heimili.

Augljóst er að afar hæpnar forsendur eru fyrir þeim órétti sem dýraeigendur eru beittir með því að minnihluti geti bannað gæludýr. Ákvæðið var sett inn í lögin vegna þeirra sem haldnir eru ofnæmi – einkum bráðaofnæmi – en staðreyndin er sú að innan við eitt prósent þjóðarinnar er með slíkt ofnæmi og flestum þeirra stafar hætta af hnetum en ekki hundum!

Þeir sem ekki eru haldnir bráðaofnæmi, heldur venjulegu óþægindaofnæmi sem oftast er af völdum margra annarra þátta í umhverfi manna en ekki aðeins dýrum sbr. ryki, gróðri og frjókornum, vita að hundur sem býr í íbúð í sama húsi veldur ekki teljandi óþægindum.

Hugsanlegt er að viðkomandi finni aldrei fyrir því. Á hinn bóginn gæti sá hinn sami fundið til mikilla óþæginda, hnerrað sem aldrei fyrr við að sitja við hlið gæludýraeiganda á fundi í vinnu sinni eða þar sem slíkar aðstæður væri að finna í daglegu lífi.

Ég hef svo oft orðið vitni að þeirri miklu sorg sem sækir að eigendum hunda og katta sem verða að lúta þessum lögum og eiga allt sitt undir ákvörðun misvitra manna. Áhyggjur og kvíði sem sækir að fjölskyldu með gæludýr í húsnæðisleit er yfir þyrmandi. Ekki síst fyrir að úrræði eru fá. Hvarvetna rekast menn á veggi í leit sinni að íbúð hvort sem er til kaups eða leigu. Íbúð sem hugsanlega væri vænleg til kaups gæti tilheyrt húsi þar sem gæludýr eru bönnuð.

Og á meðan leit stendur er það ekki aðeins húsnæðisvandinn sem veldur áhyggjum kvíða og ótta, heldur sú óvissa hvað verður um dýrið sem öll fjölskyldan elskar og börnin hafa alist upp með.

Þau eru ófá tárin sem falla hjá varnarlausum börnum sem ekki skilja þann mismun sem felst í því að vinir þeirra í sömu götu eða næsta stigagangi fái haldið sínum hundi eða ketti. Hvernig eiga þau að skilja að í stigaganginum við hliðina búi umburðarlyndara fólk eða foreldrar vina þeirra í einbýli í götunni hafi þau fjárráð að þau þurfi ekki að leggjast á hnén fyrir neinum til að halda hjá sér gæludýri sínu?

Í hvert sinn sem ég verð vitni að harmi sem á undan er lýst, er réttlætiskennd minni misboðið og ég finn til heilagrar vanmáttugrar reiði. Því hef ég síðustu vikurnar kafað ofan í lög og alþjóðasamþykktir sem við Íslendingar höfum innleitt sem lög frá Alþingi, reglugerðir, kærumál og úrskurði til að reyna að átta mig á hvort ekki sé einhvers staðar pottur brotinn í þessum efnum.

Hundahald var almennt bannað í sveitarfélögum á þessum tíma en eigi að síður var það leyft með skilyrðum. Hugsanlega standast lögin á þeim forsendum. En síðan hefur hundahald verið leyft í flestum sveitarfélögum, að vísu með skilyrðum í fjölbýlishúsum, en þrátt fyrir það ræður ekki einfaldur meirihluti eigenda.

Lögum 40/2011 um fjöleignarhús var breytt árið 2011 þegar undantekningarákvæði var bætt við um sérþjálfaða björgunarhunda og blindrahunda.

Það ákvæði breytir engu fyrir venjulega gæludýraeigendur, því ofnæmissjúklingar njóta áfram þess réttar með fylgi minnihluta atkvæðisbærra eigenda að fara fram á að hundur víki úr lögmætri eign hundaeigenda í sambýlishúsi. Eignarrétturinn er ekki friðhelgari en svo að samkvæmt sömu lögum nýtur eigandi íbúðar í sambýlishúsi ekki þess sjálfsagða réttar að taka ákvörðun um hverjum hann býður til gistingar í eigin íbúð. Þrátt fyrir að í Stjórnarskrá lýðveldisins Ísland sé eignarétturinn varinn með ákvæði sem kveður svo á að hann sé friðhelgur.

Niðurstaða mín er að það hljóti að brjóta í bága við réttindi allra til mannsæmandi lífs, almenn mannrétti og jafnrétti að hægt skuli vera að svipta fjölskyldu þeim sjálfsagða rétti að vera sameinuð í skjóli óréttlátra laga sem heimila að jafnræði gildi ekki við ákvarðanatöku sem felur í sér örlög og velferð fjölda manneskja, ekki síst barna.

Getur það verið réttlætanlegt að svipta börn, og okkur sem elskum hunda eins og börnin okkar, einum fjölskyldumeðlimanna vegna fámenns hóps sem í raun stafar lítil sem engin óþægindi af hundahaldi innan séreignar í sama húsi? Ég geri ekki lítið úr ofnæmi, það getur verið hvimleitt og þekki ég það af eigin raun. Þrátt fyrir það hef ég lifað með hundana mína við hlið mér. Ofnæmisvaldar eru hvarvetna í umhverfinu og ég verð að fást við það og haga lífi mínu í samræmi við það. Ekki er hægt að malbika yfir alla garða fyrir mig og aðra líka!

Ég sneri mér því til embætti umboðsmans Alþingis og fór þess á leit að hann tæki fyrir að eigin frumkvæði réttmæti þeirra laga og stjórnsýslu ákvarðana sem takmarkar fjölskyldum að halda gæludýri sínu.

Umboðsmaður tók erindi mínu vel en í lögum um umboðsmann er ákvæði sem heimilar að embættið taki til skoðunar að eigin frumkvæði stjórnsýsluákvarðanir. Erindi mínu svaraði hann skriflega nokkru síðar og segir þar meðal annars að því miður hafi hann ekki svigrúm til að taka erindi mitt til umsagnar þar sem ég sjálf er ekki órétti beitt vegna ákvörðunar byggða á stjórnsýslulögum, þar sem ég bý ekki í slíku húsnæði En þeir sem ekki vita það, þá er embætti umboðsmanns Alþingis aðeins heimilt að taka fyrir ákvörðun stjórnsýslunnar, það er að segja ríkis eða sveitarfélaga. Almennt gildir sú regla að dómstólar skeri úr ef einhver telur sig órétti beittan.

Því beini ég því til þeirra lesenda sem búa í húsnæði í eigu Félagsbústaða eða á vegum sveitarfélaga og hafa þurft að lúta þeim reglum um gæludýrabann sem þar eru settar að láta á þetta reyna. Það er eina leiðin til að fá úr þessu skorið, nema einhver fari í einkamál en það er mun lengra, dýrara og erfiðara ferli. Því verður sá sem hefur hagsmuni af því að umboðsmaður taki fyrir mál sem þetta að leita til hans og óska eftir áliti hans.

Ég hef lifað og hrærst í þessum málum lengi, lesið heil ósköp og tel mig vita hvað ég er að fara. Ég er þeirrar skoðunar að það séu allt aðrir hlutir sem liggja að baki þeirri ákvörðun húsfélaga að banna hunda- og kattahald en meint ofnæmi. Oftast er um að ræða fólk sem hefur þörf fyrir að sýna vald sitt, þjáist af einhverri sálarkreppu og vanlíðan eða hefur ekkert annað fyrir stafni en stagast í öðrum. Vissulega eru á þessu undantekningar en staðreyndin er samt að það er endalaust pönkast í hundaeigendum því þeir liggja vel við höggi og eiga oft líf hunda sinna undir ákvörðunum annarra.

Bergljót Davíðsdóttir

http://kvennabladid.is/2015/10/19/hundahald-harmurinn-ad-baki-haepnum-logum

Birt með leyfi höfundar