Jórunn Sörensen:
Fyrsti tími
Þegar Hundaskólinn Hundalíf auglýsti framhaldsnámskeið í júní beið ég ekki boðanna og skráði okkur Spóa. Við höfum verið þar áður á námskeiði saman og fundist það bæði afskaplega skemmtilegt og gagnlegt. Við lærðum ýmsar æfingar sem við kryddum okkar daglegu gönguferðir með, okkur báðum til yndis og ánægju.
Námskeiðið hófst miðvikudaginn 1. júní. Mættir voru sex hundar með eigendum sínum. Þarna voru fjórir schäfer, einn labrador og Spói íslenskur fjárhundur. Við manneskjurnar byrjuðum inni í skólanum án hundanna sem biðu úti í bíl. Þar fór Þórhildur Bjartmarz hundaþjálfari og leiðbeinandi yfir tilhögun námskeiðsins. Einnig útskýrði hún að kennslan væri einstaklingsmiðuð – hvernig hverjum hundi yrði mætt þar sem hann væri staddur. Að lokum lagði hún áherslu á að ef árangur ætti að nást yrðum við að æfa okkur daglega – að minnsta kosti.
Svo var haldið út í gerðið þar sem hver eigandi fékk leiðbeiningar fyrir sig og sinn hund. Eins og ég segi hér að ofan höfum við Spói verið þarna áður á námskeiðum og því þekkir hann sig vel á svæðinu. Áður en tíminn byrjaði fórum við – eins og við gerum alltaf – í góðan göngutúr niður í Yndisskóginn sem er þarna fyrir neðan svo hann gæti viðrað sig gert sín stykki.
Á meðan hverjum eiganda og hans hundi er sinnt fylgjast hinir eigendurnir með. Það er bæði áhugavert og lærdómsríkt að horfa á hvernig Þórhildur nálgast hundana ólíkt eftir því hvernig geðslag þeir hafa og hvar þeir eru staddir í aldri, þroska og getu. Ekki er síður fróðlegt að fylgjast með sambandi eiganda og hunds.
Þegar kom að okkur varð Spói himinglaður – eins og alltaf og vildi sannarlega gera sitt besta. Kennslan beindist því fyrst og fremst að mér að ég myndi láta af ýmsum óþarfa töktum eins og að sveifla út vinstri hendi og slá á lærið á mér með tilþrifum þegar ég segi: „Hæll“. Við fengum þrjú verkefni með okkur heim til þess að æfa fyrir næsta tíma.
Eitt gekk reyndar ekki. Spói neitaði að sýna tennur. Hann sýnir mér – eftir langar og ítrekaðar æfingar, vikum saman – áður en hann fær matinn eða þegar við kúrum saman í sófanum. En þarna úti – nei! Þar klemmir hann saman munninn og brýst um á hæl og hnakka. Þar höfum við enn verk að vinna, við Spói.
Þegar heim var komið steinsofnaði Spói – úrvinda.
Þriðji tími
Við Spói skemmtum okkur afar vel í þriðja tíma námskeiðsins í hundaskólanum. Því miður misstum við að öðrum tímanum því ég kvefaðist illa. Við byrjuðum á gönguferð um Yndisskóginn að venju. Skógurinn er dásamlega fallegur núna um hásumarið. Þegar við komum úr gönguferðinni sáum við að breyting hafði orðið á nemendahópnum, nýtt par, dvergschnauzer og eigandi hafði bæst í hópinn í stað schäfer með sínum eiganda.
Í þetta sinn voru hundarnir með eiganda sínum allan tímann. Við æfðum stöðvarþjálfun – þegar hundarnir fara hver á eftir öðrum ákveðna braut og gera æfingu á tilteknum stöðum. Þetta er eitt því því sem Spóa finnst alskemmtilegast.
Svo æfðum við líka innkall, að liggja kyrr í langan tíma og að standa á göngu. Spói hafði áður lært að standa á göngu með ákveðinni aðferð og því ákvað Þórhildur að koma honum upp á næsta stig – að hann æfist í að hlusta á mig í stað þess að einblína á handahreyfingu. Gekk nú hálf brösuglega í byrjun en það var ekki hans sök því hann náði æfingunni strax og Þórhildur gerði hana með honum.
Það erfiðasta fyrir Spóa í þessu öllu er að bíða og fylgjast með hinum hundunum. Honum finnst að hann gæti tekið þetta allt að sér.
Við fengum, eins og eftir fyrsta tímann, verkefni með okkur heim til þess að æfa fyrir næsta tíma og það verður gaman.
Fjórði tími
Hásumar og glampandi sól og yndislegt að rölta með Spóa stóran hring í Yndisskóginum fyrir tímann á námskeiðinu. Við finnum alltaf nýja stíga og lesum nöfn á merkiskiltum alls konar trjáa.
Þetta sinn voru aðeins fjórir hundar mættir. Byrjað var á því að skoða tennur – ein af æfingunum í bæði brons- og hlýðniprófum. Ekki var ég nú bjartsýn á að það myndi ganga en undur og stórmerki gerðust. Þórhildi tókst að fá að skoða tennur Spóa sem í þetta sinn var látinn sitja upp á stól og hafði því minni möguleika á að snúa sig niður og út og suður.
Ýmsar af uppáhaldsæfingum Spóa voru á dagskrá – svo sem að hoppa yfir hindrun og að stöðva og standa á göngu. Mestur tíminn fór í að leiðrétta ýmsa klaufatilburði mína – eins og oft áður.
Spói var frekar órólegur fyrrihluta tímans. Hann var fullur orku og vildi bara fá að gera allar æfingarnar sjálfur – ekkert gaman að horfa á hina hundana sýna listir sínar. En þegar leið á tímann sat hann eða lá hann rólegur – steinsofnaði reyndar nokkra stund.
Eftir enn einn skemmtilegan tíma ókum við Spói heim á þessum fallega ljúfa sumarkvöldi.
Sjötti tími
Í fimmta tímanum var hópurinn boðaður á vettvang hlýðniprófa til þess að kynnast því hvernig slík próf færu fram. Við Spói gerðum okkur hins vegar lítið fyrir og skrópuðum – skelltum okkur í sveitina í staðinn þar sem við áttum ljúfar stundir við leik og störf. En við mættum að sjálfsögðu í sjötta tímann.
Sjötti tíminn var haldinn á stóru bílastæði nálægt fallegu útivistarsvæði. Við Spói mættum vel fyrir tímann eins og vanalega og fengum okkur góðan göngutúr inni á milli þessara stóru trjáa. Ég rifjaði upp að ég plantaði hluta þessara trjáa fyrir 60 árum þá í Vinnuskóla Reykjavíkur eins og sumarvinna unglinga hét þá. Fékk rúmar fimm krónur á tímann. Hækkaði upp í rúmar sex þegar ég varð 13 ára seinna um sumarið. Það sumar skorti mig aldrei fé. En frá gömlum minningum og að verkefni kvöldsins – þjálfunartíma fyrir okkur Spóa.
Sex hundar voru mættir. Nú var gaman að sjá hve öllum hundunum hefur farið fram – og eigendum þeirra ekki síður. Spói bætti enn við sig atriðum í æfingunni „að standa á göngu“. Í lokin var unnið með alla hundana saman í sameiginlegum æfingum og gekk það afskaplega vel.
Lúin en ánægð héldum við Spói heim á þessu fallega sumarkvöldi.
Sjöundi tími
Á þessum merka degi, deginum þegar Ísland vann Austurríki, gekk flest á afturfótunum hjá okkur Spóa. Fyrir tímann fórum við stóran hring eftir göngustígum og komum til baka tilbúin í slaginn – að ég hélt. Í „liggja kyrr æfingunni“ með öðrum hundum var Spói búinn að fá nóg eftir helminginn af tímanum, stóð upp og rölti af stað. Og nýju viðbæturnar í að „standa á göngu“ æfingunni voru gleymdar þannig að við þurftum að fara nokkur skref til baka í þeirri æfingu. Spóa gekk þetta þó allt betur hjá Þórhildi en mér enda er hann mikill og einlægur aðdáandi hennar eins og aðrir hundar.
Í sameiginlegum æfingum hundanna, eins og að mætast á göngu, var reyndar allt í himnalagi og eitt gekk glimrandi vel – Spói var fús að sýna tennur.
En svona gengur þetta – dagsformið okkar allra getur sveiflast til eins og hjá knattspyrnumönnum og þrátt fyrir að allt gengi ekki upp í tímanum vorum við Spói ánægð með okkur þegar við héldum heim.
Áttundi tími
Á þessu mikla fótbolta- og forsetakosningasumri verður ýmislegt undan að láta. Í stað þess að áttundi tíminn væri á mánudegi samkvæmt upphaflegri dagskrá var þeim tíma frestað vegna leiks Íslendinga og Englendinga á EM. En á miðvikudeginum vorum við Spói mætt í hundaskólann eftir okkar hefðbundnu gönguferð um Yndisskóginn.
Í þessum tíma var haldið áfram að vinna með hundana í návist hvers annars og gekk það afbragsvel. Einnig voru æfingar fyrir hvern einstakan hund út frá því hvar hann var staddur. Framfarir hvers hunds og eiganda hans voru augljósar.
Kennt var hvernig eigandi byrjar að þjálfa æfingu sem kallast á fagmálinu „fjarlægðarstjórnun“ og Spói notaður í sýnikennsluna. Það fannst honum gaman – eins og honum finnst allt í hundaskólanum.
Þennan dag varð Spói tveggja ára og eins og gerist og gengur í (leik)skólum tókum við með okkur smá glaðning í tilefni dagsins. Í lok tímans sátu allir hundarnir í hring og Þórhildur gekk á milli þeirra og hver fékk hálfa pylsu. Það var vel þegið.
Síðan héldu allir heim eftir einn enn skemmtilegan skóladag.
Níundi tími
Við Spói tókum okkur góðan tíma í gönguferðina fyrir tímann enda veðrið þvílíkt dásamlegt. Ég velti því fyrir mér hvernig mætingin yrði eða hvort nemendahópurinn væri með þorra þjóðarinnar á Arnarhóli að fagna landsliði Íslands í fótbolta en svo var ekki og mættir voru fjórir hundar með eiganda sínum.
Þórhildur spurði okkur hvert og eitt hvað við vildum æfa og við Spói völdum að æfa það sem við lærðum síðast – grunnatriðin í fjarlægðastjórnun. Það æfðum við yfir helgina á gönguferðum okkar uppi á hæðunum fyrir ofan Rauðavatn og notuðum stóra, flata steina sem æfingastaði. Æfingin gekk ágætlega og við gátum bætt aðeins við hana.
Ég hafði einnig nefnt að mig langaði að læra að senda hundinn í ákveðnar áttir og æfðum við Spói það nokkra stund með tveimur til aðstoðar. Spói var nokkuð fljótur að ná því til hvers væri ætlast og hafði gaman af. Einnig fékk ég leiðbeiningar um hvernig ég ætti að byrja að þjálfa æfinguna að liggja á göngu. Við Spói hlökkum til að takast á við þessi verkefni.
Ýmsar sameiginlegar æfingar hundanna voru einnig á dagskrá sem og að hoppa yfir hindrun sem Spóa finnst alveg sérstaklega gaman. Spói nær æfingunni fullkomlega en ég þarf að slípa sjálfa mig til því þegar ég segi „hoppa“ beygi ég mig ósjálfrátt í hnjánum – eins og maður opnar munninn þegar maður matar lítið barn.
Nú var orðið hrein unun að sjá framfarir allra hundanna og vinnugleði þeirra.
Í lokin sátum við saman í hring, hundar og menn. Við eigendurnir spjölluðum saman í rólegheitum en hundarnir ýmist sátu eða láu og slökuðu á. Þetta var næstsíðasti tíminn og við vorum sammála um hve þessar vikur hafa liðið ótrúlega fljótt.
Tíundi tími
Enn eitt dásamlega sumarkvöldið í glampandi sól og við Spói fórum bæði þekkta og nýja stíga í Yndisskóginum áður en við mættum í skólann.
Þórhildur var búin að setja upp rallý-braut og við fórum nokkrar umferðir hvert á eftir öðru. Rallýið, með sínum þröngu stöðvaræfingum, þjálfar hundana enn betur í hælgöngu og að vinna nálægt eiganda sínum.
Síðan æfðu hundarnir allir saman og nálægt hver öðrum og gekk það mjög vel. Síðast á dagskránni fór Þórhildur yfir hvar hver hundur var staddur í hinum ýmsu æfingum og þá sást vel hve mikið öllum hundunum og eigendum þeirra hefur farið fram.
Síðasti tíminn. Þórhildur ræddi við okkur hve mikla vinnu við og hundarnir okkar hefðu lagt í þessar vikur og nú væri um að gera að halda æfingunum við og taka þó ekki væri nema eina æfingu á dag. Við kvöddumst og vorum sammála um hve þetta hefði verið bæði skemmtilegt og gagnlegt. Síðasta spurning til Þórhildar var hvenær næsta námskeið yrði haldið.
Við Spói þökkum Auði og Ian, Árna og Loka, Guðnýju og Jackson, Guðrúnu Huld og Krumma, Kristínu Fjólu og Frosta – að ógleymdri Þórhildi – fyrir einstaklega skemmtilega og lærdómsríks samveru á framhaldsnámskeiði Hundalífs í júní 2016.